Júlíus K. Björnsson
Júlíus K. Björnsson
Ég óska þess að málið verði endurskoðað, segir Júlíus K. Björnsson, þar sem um er að ræða tillögu sem gæti haft eyðileggjandi og truflandi áhrif á heilsu og vellíðan Íslendinga.

Ágætu þingmenn.

Eins og ykkur er kunnugt hefur undirritaður ásamt fleirum, áður mótmælt frumvarpinu um tímareikning sem þið hafið nýlega lagt fram í fjórða sinn og er tilgangur þessa bréfs að endurtaka þau mótmæli og benda enn og aftur á helstu rökin gegn þeirri breytingu sem frumvarpið felur í sér.

Ekki er ástæða til þess hér að tíunda í smáatriðum enn einu sinni öll rökin gegn þessari breytingu, að öðru leyti en minnast stuttlega á það sem nýtt kemur fram í greinargerðinni með fyrirliggjandi frumvarpi. Undirritaður ásamt samstarfsmönnum skrifaði ýtarlega greinargerð um málið þegar sambærilegt frumvarp var lagt fram árið 1998. Sú greinargerð er aðgengileg á netinu, ásamt öðrum gögnum um málið á veffanginu: http://julkb.vortex.is/timamal.htm

Það er þó rétt að nefna að í þetta fjórða sinn sem málið er lagt fram eru enn tínd til ný rök með því, sumsé þau að breytingin sé afar góð fyrir knattspyrnuna í landinu og fyrir beinar sjónvarpsútsendingar frá knattspyrnuleikjum. Þetta má vel vera, en líklega væri enn betra fyrir knattspyrnuna og samskipti hennar við Evrópu að hún færi öll fram á meginlandinu, þá væri enginn tímamunur.

Öll þau rök sem færð eru fyrir málinu eru auðhrekjanleg, nema ef vera skyldi sú þörf kaupsýslumanna að hafa sameiginlegan skrifstofutíma með Evrópulöndum. Raunar hefur sú þörf farið minnkandi með auknum tölvusamskiptum og mætti ætla að hún sé nú orðin óveruleg. Þessu til viðbótar myndi frumvarpið, ef samþykkt verður, torvelda samskipti við Norður-Ameríku, nokkuð sem ekki er minnst á í greinargerðinni. Alþingi verður því að gera upp við sig hvort rökin um sameiginlegan vinnutíma með Evrópu ein og sér, nægja til þess að koma á þessari breytingu, eða hvort óverulegir hagsmunir viðskiptalífsins eigi að stjórna og stýra svefni og vöku allrar þjóðarinnar og hafa ómæld slæm áhrif á líðan hennar og heilsu.

Það er rétt að leggja áherslu á það enn einu sinni að þegar er í gildi hér á landi sumartími allt árið. Í lögum nr. 6/1968, var sú breyting gerð á tímareikningi hérlendis, að festa sumartímann allt árið. Því ætti í raun að notast við hugtakið sumarsumartími í fyrirliggjandi frumvarpi, þar sem það gengur enn lengra. Raunar er texti frumvarpsins og greinargerðarinnar allur villandi hvað þetta atriði varðar, þar sem sumartími er þegar í gildi hér.

Greinargerðin með frumvarpinu fjallar nokkuð um umsögn undirritaðs og fleiri frá því 1998 um frumvarp um sama efni. Í henni er fullyrt að ekki komi fram í umsögninni að geðheilsu manna stafi hætta af breytingunni. Augljóst er að höfundar greinargerðarinnar hafa ekki lesið umsögnina ýtarlega, þar sem þar er ekki einungis verið að fjalla um geðheilsu, heldur heilsu almennt. Erfitt er að skilja þær röksemdir höfunda frumvarpsins að birta síðar á deginum hafi betri áhrif en birta fyrr. Hvað með alla þá einstaklinga sem vakna snemma og þurfa eftir þessa breytingu að vera lengur í myrkri vor og haust, en áður? Hvað með lægra hitastig að morgni, hugsanlega meiri hálku og þar með fleiri umferðarslys? Röksemdafærsla af þessu tagi er algerlega sambærileg þeirri sem flutningsmenn frumvarpsins leggja fram og mælir auðvitað gegn breytingunni.

Í greinargerðinni er jafnframt gerður samanburður við vesturströnd Írlands og hann tekinn sem sönnun þess að breyting af þessu tagi sé til bóta. Sá samanburður er þó mjög misvísandi, þar sem tekið er fram að Írar hafi þegar sumartíma, en ekki kemur fram að þeir hafa einungis sumartíma, en ekki sumarsumartíma eins og lagt er til að hér verði. Því er um algerlega ósambærilega hluti að ræða. Þar að auki er Ísland mun norðar á jörðinni en Írland og því staðan alls ekki sambærileg. Samanburður við Austurland og stöðu þess er ennfremur nokkuð undarlegur, þar sem sérstaklega er gefið í skyn í greinargerðinni að tímareikningurinn hafi einhverskonar tengsl við efnahagsástand landsvæðisins. Slíkt er auðvitað erfitt að sýna fram á.

Rétt er að nefna að í greinargerðinni kemur fram að umsögn undirritaðs og fleiri uppfylli ekki þær kröfur sem gera verði til vísindalegrar þekkingar. Ef sömu rökum yrði beitt á rök flutningsmanna með tillögunni, er ljóst að þau rök byggjast alls ekki á vísindalegri þekkingu, þau byggja raunar alls ekki á neinni þekkingu, heldur getgátum og ósannfærandi rökum. Umsögn undirritaðs byggist hinsvegar hvað varðar svefn og vöku á þeim vísindum sem við þekkjum um stjórn þessara fyrirbæra og er að okkar mati á allt öðru plani en t.d. niðurstaða greinargerðarinnar sem fullyrðir að breytingin yrði til þess að stórbæta mannlíf á Íslandi. Þessi fullyrðing virðist úr lausu lofti gripin, ekki studd neinum rökum, hvorki vísindalegum né öðrum. Þá eru jafnframt algerlega sniðgengnar þarfir þeirra einstaklinga í viskiptalífinu sem þurfa að hafa samskipti vestur um haf, þeirra vandi eykst, verði frumvarpið að lögum.

Í náttúruverndarmálum verður það sjónarmið æ algengara að náttúran skuli njóta vafans þegar um álitamál er að ræða. Hið sama hlýtur að gilda hér. Engin vísindaleg rök hafa verið lögð fram um að þessi breyting geti verið til góðs, en mörg um að hún geti verið slæm. Því skyldi heilsa þjóðarinnar og velferð ekki njóta vafans?

Að lokum er rétt að minnast á að Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur ítrekað lagt fram ýmis rök gegn þessari breytingu, m.a. í ýtarlegri skýrslu sem skrifuð var að beiðni Alþingis, en sem greinargerð fyrirliggjandi frumvarps minnist alls ekki á. Þorsteinn er sá Íslendingur sem er manna best að sér um tímareikninga og áhrif þeirra hér á landi og því er það afar sérkennilegt að álit hans sé algerlega sniðgengið í greinargerðinni með frumvarpinu.

Því vill undirritaður að lokum óska þess að málið verði enn endurskoðað, og helst dregið til baka þar sem um er að ræða tillögu sem hafa mun mögulega eyðileggjandi og truflandi áhrif á heilsu og vellíðan Íslendinga. Nægir í því sambandi að benda á að ef þriggja tíma munur verður á klukkunni og líkamsklukku manna, munu vandkvæði við að sofna að kvöldi og vakna að morgni næsta örugglega aukast. Þingið getur að sjálfsögðu ákveðið það sem því sýnist, en ég leyfi mér að efast um að það hafi mikil áhrif á náttúruna og sólarganginn og það hvaða áhrif hann hefur á svefn og vökumynstur fólks.

Höfundur er sálfræðingur.