KRISTÍN Petrea Sveinsdóttir, sem var elst Íslendinga, lést í Reykjavík á laugardaginn, rúmlega 106 ára að aldri. Kristín var fædd í Skáleyjum á Breiðafirði 24. ágúst 1894 og voru foreldrar hennar Sveinn Pétursson og Pálína Tómasdóttir.

KRISTÍN Petrea Sveinsdóttir, sem var elst Íslendinga, lést í Reykjavík á laugardaginn, rúmlega 106 ára að aldri.

Kristín var fædd í Skáleyjum á Breiðafirði 24. ágúst 1894 og voru foreldrar hennar Sveinn Pétursson og Pálína Tómasdóttir.

Kristín giftist Bergsveini Finnssyni árið 1920 og hófu þau búskap í Gufudal í Barðastrandarsýslu, þar sem þau bjuggu til ársins 1952 er Bergsveinn lést.

Kristín og Bergsveinn eignuðust átta börn og eru sjö þeirra á lífi, en alls á Kristín yfir 120 afkomendur.

Nokkrum árum eftir andlát Bergsveins fluttist Kristín til dóttur sinnar í Reykjavík. Þar vann hún lengst af hjá fiskverkuninni Júpíter og Mars eða þar til hún var komin fast að áttræðu.

Síðustu árin bjó Kristín á Hrafnistu í Reykjavík. Hún var vel ern og hafði fótavist þar til undir það síðasta.

Kristín verður jarðsett í Gufudal á laugardaginn kemur, 25. nóvember, klukkan 14.