Gísli Sigurðsson fer yfir prófarkir af Lesbókinni á síðasta vinnudegi sínum á Morgunblaðinu.  Með honum er Sigurbjörg Arnardóttir.
Gísli Sigurðsson fer yfir prófarkir af Lesbókinni á síðasta vinnudegi sínum á Morgunblaðinu. Með honum er Sigurbjörg Arnardóttir.
GÍSLI Sigurðsson, ritstjóri Lesbókar, lætur af störfum um þessi áramót eftir áratugastarf á Morgunblaðinu. Gísli hóf störf á Morgunblaðinu árið 1966. "Ég hafði um átta ára skeið verið ritstjóri Vikunnar.

GÍSLI Sigurðsson, ritstjóri Lesbókar, lætur af störfum um þessi áramót eftir áratugastarf á Morgunblaðinu.

Gísli hóf störf á Morgunblaðinu árið 1966. "Ég hafði um átta ára skeið verið ritstjóri Vikunnar. Á árinu 1966 skrifaði ég samtal við Matthías Johannessen um ljóðlist og þá kviknaði sú hugmynd að ég kæmi til Lesbókarinnar. Hvort tveggja var ég orðinn leiður á því efni sem þurfti að vera í Vikunni og á Lesbók hafði orðið mjög eldfimt ástand eins og Sigurður A. Magnússon er margoft búinn að gera frægt."

Lesbókin gengið í gegn um ýmsar sveiflur

Gísli starfaði fyrst um sinn með Sigurði og hjónunum Jóni Hnefli Aðalsteinssyni og Svövu Jakobsdóttur en í mars 1967 gerðist hann "einyrki", eins og hann orðar það. "Lesbókin hefur gengið í gegnum ýmsar sveiflur. Hún hafði í langan tíma, undir stjórn Árna Óla, verið einkum með þjóðlegan fróðleik en á stuttu tímabili eftir 1962 var henni gjörbreytt. Hún varð að fjölbreyttara og nútímalegra tímariti, en í tíð Sigurðar fengu bókmenntirnar aukið vægi á kostnað annars. Með mér hefur áreiðanlega orðið sú breyting að myndlist og sjónlistir hafa fengið aukið vægi, auk þess sem byggingarlist hafði lengi verið áhugamál mitt. Síðan varð ég einn um það að skrifa um arkitektúr í íslensk blöð og hef haldið þeim þræði allt til þessa."

Mikill munur á kynslóðum

Gísli segir að minnisstæðust séu samskiptin við skáldin. Þann fjölmenna hóp sem á Morgunblaðið hefur komið með kveðskap sinn. "Það er eftirtektarvert hvað mikill munur er á kynslóðunum. Unga fólkið tekur þetta ekki eins alvarlega. Dæmi eru um að menn hafi komið beint úr gleðskap síðustu nætur með kvæði, jafnvel það fyrsta sem ort hefur verið um dagana, og viljað fá það birt. Á hinn bóginn eru skúffuskáldin. Oftast eldra fólk sem hefur ort árum og áratugum saman en ekki sýnt það nokkrum lifandi manni, ekki einu sinni sínum nánustu. Það er mjög viðkvæm stund þegar kemur að því að sýna þetta bláókunnugum manni með birtingu í huga. Mest af þessu er alþýðuskáldskapur okkar tíma og einhvers staðar þarf vettvangur fyrir hann að vera. Ég hef líka litið á það sem hlutverk blaðsins að örva áhuga yngra fólksins í þeirri von að Eyjólfur hressist."

Gísli segir þá breytingu merkjanlega að alþýðufræðimenn séu nánast horfnir af sjónarsviðinu. "Á fyrri árum mínum hér létu alþýðufræðimenn meira að sér kveða. Stórmerkilegir menn eins og Benedikt frá Hofteigi, Helgi á Hrafnkelsstöðum, Sigurður í Hvítárholti og fleiri sem skrifuðu einkum um Íslendingasögur og höfðu til dæmis sínar kenningar um höfund Njálu. Í seinni tíð ber minna á þessu en því meira á sérfræðingum, til dæmis sagnfræðingum, en Lesbókin er í sambandi við afar góðan hóp manna sem heldur áreiðanlega áfram að vinna fyrir hana."

Þegar Gísli kom til starfa á Lesbók tók hann upp þá nýjung að teikna upp útlit blaðsins. "Þá var unnið í blýi og útlitsteikning var óþekkt. Ég hélt þessu áfram þar til sérstök deild útlitshönnuða var sett á laggirnar hér á Morgunblaðinu."

En hvað tekur við hjá Gísla?

"Ég fer beint í aðra vinnu. Við bókaskriftir. Fyrst mun ég vinna myndabók um hús og mannvirki víða um land en síðan byrja ég á bókaflokki um öndvegisjarðir í sögu og samtíð. Þar vinn ég jöfnum höndum við myndir og texta. Ég byrja á sunnanverðu landinu og held síðan áfram eftir því sem kraftur leyfir."

Hann ætlar líka að herða róðurinn við myndlistina, en fyrirhuguð er sýning í Listasafni Kópavogs í september á næsta ári.

Svo er það golfið. "Golfið verður eins og áður viðfangsefni til hressingar og skemmtunar. Nú reynir maður að viðhalda getunni en það er nægilega erfitt þegar aldurinn færist yfir."

Gísli gerði ráð fyrir að verða mikið á ferðinni erlendis, þegar þessu tímabili í lífi hans lyki. "Ég er síður viss um það nú vegna þess að mér finnst ekkert taka því fram að ferðast um Ísland, þá einkanlega um hálendið. Þar á ég margt ókannað. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öræfunum og þau hafa haldið sínu taki - frekar hert á því!"