ALÞINGI Íslendinga átti að koma saman eftir jólafrí mánudaginn 22. janúar nk. en vegna dóms Hæstaréttar um öryrkja er nýtt lagafrumvarp í smíðum. Beðið er tillagna starfshóps sem ríkisstjórnin skipaði og niðurstöðu hans er að vænta í dag eða næstu daga.

ALÞINGI Íslendinga átti að koma saman eftir jólafrí mánudaginn 22. janúar nk. en vegna dóms Hæstaréttar um öryrkja er nýtt lagafrumvarp í smíðum. Beðið er tillagna starfshóps sem ríkisstjórnin skipaði og niðurstöðu hans er að vænta í dag eða næstu daga. Af þeim sökum gæti þinghaldi verið flýtt. Þessi mál komu síðast til umræðu hjá ríkisstjórninni á fundi hennar á föstudag. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði við Morgunblaðið að þegar lagafrumvarp yrði tilbúið yrði metið hvort kalla þurfi Alþingi saman fyrr en ætlað var.

"Við einsettum okkur að setja lög vegna dómsins eins fljótt og verða má. Unnið hefur verið að því sleitulaust. Málið er hins vegar umfangsmikið og miklu flóknara en ég gerði mér grein fyrir í upphafi. Þegar því er lokið þarf að taka ákvörðun um hvernig að því verður staðið. Við vonumst til þess að því ljúki núna næstu daga. Þá verður metið hvernig leysa megi málið svo að greiðslum verði komið til þeirra öryrkja sem hlut eiga að máli sem fyrst. Frá upphafi hefur legið fyrir að til þess þarf að setja ný lög," sagði Halldór.