Í sögu íslenskra bókmennta ber hátt konungasagnarit sem talið er sett saman á þriðja áratug 13. aldar og er kallað Heimskringla. Heimskringla þykir fremst íslenskra konungasagna, eins og sést á yfirlitsritum um íslenskar miðaldabókmenntir.

Í sögu íslenskra bókmennta ber hátt konungasagnarit sem talið er sett saman á þriðja áratug 13. aldar og er kallað Heimskringla. Heimskringla þykir fremst íslenskra konungasagna, eins og sést á yfirlitsritum um íslenskar miðaldabókmenntir. Í því nýjasta eru henni helgaðar rúmar 17 síður en aðeins tvær Fagurskinnu, svipuðu riti frá sama tíma sem raunar er talsvert minna að vöxtum. Heimskringla er öndvegisrit íslenskra miðaldabókmennta en höfundur hennar er þó enn mikilvægari stofnun í bókmenntasögunni. Í upphafi þessarar aldar leiddi Sigurður Nordal fram snillinginn í sögu íslenskra miðaldabókmennta og hann hét Snorri Sturluson. Þá stöðu hefur Snorri enn og Heimskringla líka þar sem hún er almennt talin eftir hann þó að ekki einu sinni það sé hafið yfir vafa. Um Heimskringlu setja fræðimenn reglulega saman miklar og ágætar bækur. Um aðrar konungasögur hefur verið hljótt. Þær eru í skugga Snorra Sturlusonar.

Bjarni Aðalbjarnarson hefur lýst öðrum konungasögum en sögum Snorra þannig:

Noregskonunga sögur voru að sumu leyti heldur ömurlegar bókmenntir, áður en Snorri tók að fást við þær, margar illa saman settar, illa stílaðar og fullar af ómerkilegu efni.

Hann nefnir þessi rit ekki sérstaklega en eitt þeirra er viðfang þessarar bókar. Það er sagnaritið Morkinskinna. Sú bók er sett saman nálægt 1220 af öðrum Íslendingi, samtíðarmanni Snorra Sturlusonar en nafn hans þekkjum við ekki.

Morkinskinna er ekki eftir Snorra Sturluson. Hún er ekkert lík Heimskringlu. Nafn hennar er ekki aðlaðandi. Hún er ekki talin fremst íslenskra konungasagna. Henni hafa ekki verið helgaðar margar bækur. Hér verður reynt að gera bragarbót á því. Síðar munu vonandi aðrir koma í kjölfarið og bæta um betur.

- Úr inngangi Ármanns Jakobssonar að doktorsverkefni sínu um Morkinskinnu .