STJÓRN Þróunarsjóðs sjávarútvegsins hefur samþykkt að láta Norðurtangahúsin á Ísafirði í makaskiptum fyrir verslunarmiðstöðina Ljónið á Ísafirði og húseign í Örfirisey í Reykjavík. Frá þessu var greint á vef Bæjarins besta á Ísafirði.

STJÓRN Þróunarsjóðs sjávarútvegsins hefur samþykkt að láta Norðurtangahúsin á Ísafirði í makaskiptum fyrir verslunarmiðstöðina Ljónið á Ísafirði og húseign í Örfirisey í Reykjavík. Frá þessu var greint á vef Bæjarins besta á Ísafirði.

Norðurtangahúsin hafa verið í eigu sjóðsins talsvert á fjórða ár eða frá hausti 1997. Gólfflöturinn er samtals um 4.600 fermetrar og hafa húsin staðið að mestu auð síðustu árin. Gert er ráð fyrir að makaskiptasamningur verði undirritaður á næstu dögum. Núverandi eigandi Ljónsins er Kristján Sverrisson, kaupsýslumaður í Reykjavík, sem keypti eignina af Heiðari Sigurðssyni á Ísafirði fyrir um tveimur mánuðum. Ekki liggur fyrir nákvæmt mat á þeim eignum sem hér um ræðir. Þó er talið að verðmæti Norðurtangahúsanna í þessum skiptum geti verið um 50 milljónir króna og Ljónsins um 25 milljónir.