ÞAÐ hefur verið í fréttum undanfarna daga að svo gæti farið að útflutningur á fiskimjöli og skyldum afurðum væri í hættu út af kúariðumálum Evrópusambandsins. Þau heimatilbúnu vandamál Evrópusambandsins eru þannig komin að túngarði Íslendinga.

ÞAÐ hefur verið í fréttum undanfarna daga að svo gæti farið að útflutningur á fiskimjöli og skyldum afurðum væri í hættu út af kúariðumálum Evrópusambandsins. Þau heimatilbúnu vandamál Evrópusambandsins eru þannig komin að túngarði Íslendinga. Það þarf ekki að draga í efa, ef Evrópusambandið hefði lokað á þennan útflutning, að það hefði verið stórkostlegt áfall fyrir þjóðarbúið. Svo fór þó sem betur fer ekki, enda vita flestir landsmenn að sóðaskapur og skrifræðisbákn Evrópusambandsins eru ekki íslensk vandamál. Mengun hér á landi er minni en í öðrum Evrópuríkjum. Utanríkisráðherrann blessaður fékk samt skjálfta í hné, eins og ætíð þegar Evrópumálin ber á góma. Hann mun án nokkurs efa nota þetta mál sem ástæðu til að hefja máls á því sem honum virðist vera kærara en nokkuð annað, en það er að ganga í Evrópusambandið. Hann opnar varla orðið munninn öðruvísi en að nefna að við ættum að kanna möguleika okkar á inngöngu þangað. Á honum má skilja að staða Íslands sé ekki það sterk að við þolum að standa utan við Brussel-báknið. Mér finnst liggja í loftinu að einhver minnimáttarkennd fyrir öðrum Evrópuþjóðum búi þar á bak við. En er það svo í raun og veru? Jú, víst erum við ekki stór þjóð eða fjölmenn, en að því slepptu er staða okkar sterk. Við eigum ein auðugustu fiskimið sem eftir eru á Norður-Atlantshafi. Ríki Evrópusambandsins eru að verða búin að eyðileggja öll helstu fiskimið sín, með ofveiði ef ekki mengun. Það eitt að við Íslendingar höfum varðveitt fiskistofnana og nýtt þá á skynsaman hátt, að öllu kvótaþrasi slepptu, gerir stöðu Íslands mjög sterka og í framtíðinni kann það að verða að einu fiskimið sem Evrópusambandsþjóðir geta sótt á verði Íslandsmið. Það væri ótrúleg heimska að opna þau mið fyrir þjóðum eins og t.d. Spánverjum sem túlka öll ákvæði um friðun nytjastofna fisks mjög rúmt. Nei, tíminn vinnur með Íslendingum. Okkur liggur ekkert á að hlaupa til Brussel og fara þar á hné, eins og Halldór Ásgrímsson vill innst inni gera. Íslendingar eiga ótakmarkaða möguleika til framleiðslu á rafmagni í framtíðinni, þá raforku verður hugsanlega hægt að flytja út til annarra landa þegar orkuskortur fer að verða til baga er olíulindir þrýtur. Ekki má heldur gleyma því að við Íslendingar ættum heldur að horfa til vesturs, til Bandaríkjanna, enda liggur landið í raun nær vesturheimi en Evrópu. Við skulum ekki heldur gleyma því að það er ekkert sjálfgefið að Evrópusambandið sé komið til að vera. Hvers vegna gæti það ekki liðast í sundur? Nóg er af ágreiningsmálunum og tíð mótmæli almennings í ríkjum þess gegn ofstjórn og reglugerðabákninu í Brussel sýna svo ekki verður um villst að allur þorri almennings er ekki jafn sameinaður og leiðtogar ríkjanna á fundum sínum. Það má ekki gleyma því að í þessum málum er ekkert fast í hendi. Við höfðum stórveldi sem hékk saman í nokkuð marga áratugi en leystist svo upp á nokkrum mánuðum og er nú ekki til lengur nema á gömlum landakortum, Sovétríkin gömlu, þau gufuðu upp eins og dögg fyrir sólu. Kannski fer svo fyrir Evrópusambandinu einn daginn, hver segir að það geti ekki gerst?

DANÍEL SIGURBJÖRNSSON,

Kársnesbraut 135, Kópavogi.

Frá Daníel Sigurbjörnssyni: