Rannveig Dýrleif Matthíasdóttir fæddist í Grímsey 4. nóvember 1910. Hún lést 21. desember síðastliðinn og fór útför hennar fram í kyrrþey.

"Síðasti hlekkurinn er farinn." Þannig fórust systur minni orð þegar hún sagði mér frá andláti föðursystur okkar. Rannveig Dýrleif kvaddi þennan heim á stysta og myrkasta degi ársins til þess að halda til þeirra heimkynna þar sem eilíf birta ríkir. Rannveig er síðust af fjórtán börnum afa okkar og ömmu til að kveðja. Nú erum við systkinabörnin öll komin efst á ættartréð, orðin elsta kynslóðin. Vonandi tekst okkur á einhvern hátt að miðla því góða veganesti til afkomendanna sem allt þetta fólk færði okkur í einhverri mynd. Frá því ég man eftir mér hafa frændsystkinin frá Grímsey verið órofa þáttur í lífi mínu. Þar gegndi Rannveig mikilvægu hlutverki sem meistari glettni og gamansemi. Hún hafði einstakt lag á því að segja skemmtilega frá. Hversdagslegir viðburðir urðu að gamanmálum og þegar hún sagði prakkarasögur af bræðrum sínum, einkum Guðmundi föður mínum, var alltaf hægt að skynja væntumþykju og hlýju í þeirra garð þótt þeir hafi í raun verið "voðalegir" eins og hún orðaði það.

Á þeim tíma sem ég var að alast upp voru heimsóknir vina og ættingja sú tilbreyting sem hvað kærkomnust var fyrir fjölskyldurnar í landinu. Mikið tilhlökkunarefni var að fá Rannveigu og systkini hennar í heimsókn. Við systurnar fjórar vissum að samkoman yrði ein samfelld skemmtidagskrá þar sem spaugarar af guðs náð leiddu saman hesta sína. Stundum bar svo við að foreldrar okkar sögðu okkur að vera úti að leika okkur því fullorðna fólkið þyrfti að tala saman í friði. Brugðum við því á það ráð að fela okkur í stofunni á bak við gardínur og undir sófum áður en gestirnir komu til þess að missa ekki af neinu. Erfiðast reyndist að halda niðri í sér hlátrinum þegar grínið náði hámarki. Gjarnan voru sagðar sögur af föður mínum sem þótti með eindæmum utan við sig. Var það nánast daglegur viðburður að hann gleymdi að fara úr strætisvagninum á Digraneshálsi þegar hann var að koma heim frá kennslu í Reykjavík og rankaði fyrst við sér í Silfurtúninu sem nú heitir Garðabær eða jafnvel í Hafnarfirði. Þessu og mörgu öðru í fari föður míns höfðu systkinin ákaflega gaman af. Þá var Rannveig í essinu sínu þegar hún sagði frá því þegar Mummi bróðir fór heim úr fjölskylduboði í kápu systurdóttur sinnar án þess að hann eða hún hefðu séð neitt athugavert við klæðnað hans.

Mér hefur oft orðið hugsað til þess hvað öll þessi lífsgleði með góðlátlegri stríðni í garð sjálfs sín og annarra hefur gegnt mikilvægu hlutverki í lífi þessa fólks. Aðstæðurnar sem Rannveig ólst upp við voru oft á tíðum kaldranalegar. Lítil afskekkt eyja norður í íshafinu sem stundum var umlukt ís á vetrum, veður válynd og sumrin stutt. Menningarheimili foreldranna, prestshjónanna, var athvarf hennar og uppeldisstofnun. Kímnigáfan hefur meðal annars verið sá kraftur sem gerði það kleift að lifa af einangrun og fámenni.

Rannveig fluttist ung til Reykjavíkur og vann við saumaskap alla starfsævina eða fram að sjötíu og fimm ára aldri. Hún þótti einstaklega lagin og listræn í því fagi. Mikilvægasta hlutskipti Rannveigar í lífinu var að hlúa að fólkinu sínu. Hún hélt heimili um tíma með Önnu systur sinni og afi og amma dvöldu á heimili hennar síðustu æviár sín. Hún eignaðist dótturina Hjördísi og dótturdótturina Rannveigu Ásu. Þær tvær sem með henni dvöldu hvað lengst og best sitja nú eftir, ríkar af minningum um góða og skemmtilega konu, móður og ömmu sem alltaf hafði umhyggju og ástúð að gefa og einstakt lag á að gera öðrum lífið létt með kátínu sinni og spaugsemi.

Við kveðjum nú síðasta hlekk þessarar kynslóðar með þakklæti og virðingu. Hjördísi og Rannveigu Ásu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Rannveigar Dýrleifar Matthíasdóttur.

Rannveig Guðmundsdóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir.