Mannfjöldi á Ráðhústorgi og Strandgötu á Akureyri um 1920.
Mannfjöldi á Ráðhústorgi og Strandgötu á Akureyri um 1920.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á fyrri hluta 20. aldar varð til vísir að merkilegri þéttbýlishefð hér á landi sem óumdeilanlega er hluti af íslenskri menningu. Formaður alþjóðlegra skipulagssamtaka, Gjerlöff að nafni, sem hingað kom árið 1936 lét svo ummælt í blaðaviðtali "að íslendingar [stæðu] meðal fremstu þjóða, hvað byggingarlist og skipulagningu bæja snertir."

EF borgarmenning Vesturlanda er skoðuð í sögulegu ljósi verður vart sagt að 20. öldin hafi í heild verið blómaskeið borganna. Við upphaf hennar má segja að hápunkti hafi verið náð á því tímabili sem kallað hefur verið la Belle Epoque eða fallega tímabilið, þegar götur og torg miðborga Evrópu iðuðu af fjölbreyttu mannlífi, markaðar af skrautlegum framhliðum gamalla og nýrra glæsibygginga. En hin glæsta mynd átti sínar skuggahliðar sem líkt og auður borganna var afsprengi iðnbyltingarinnar. Lægri stéttir samfélagsins bjuggu við húsakynni og lífsskilyrði sem voru að flestu leyti óbærileg. Þetta varð til þess að ýmsir fremstu hugsuðir á sviði borgarskipulags, frá Ebeneser Howarth til Le Corbusier, sneru baki við hinni rótgrónu borgarhefð og boðuðu framtíðarsýn þar sem lausnarorðið var: "burt úr borginni". Loftárásir síðari heimsstyrjaldar ollu óbætanlegu tjóni á mörgum borgum Evrópu en að margra mati var sú eyðilegging verri sem fylgdi í kjölfarið, þegar hugmyndafræði tæknihyggju og andúðar á sögulegum arfi varð ráðandi í skipulagi borga.

Endurreisn borgarlífs

Á seinasta fjórðungi aldarinnar hefur ný hugsun verið í deiglunni sem kenna mætti við endurreisn bæja eða "urban renaissance", sem byggist á hugmyndinni um endurreisn þeirrar borgarmenningar sem ríkjandi var fyrir tíma heimsstyrjalda og módernisma í skipulagi. Æ fleiri sérfræðingar á þessu sviði hallast að því að vel skipulagðar og fagrar borgir verði það form byggðar sem einkenna muni samfélag 21. aldar. Er nærtækt að vitna til nýlegrar skýrslu um stefnumörkun bresku ríkisstjórnarinnar á sviði byggðaþróunar, sem ber heitið "Towards an Urban Renaissance".

í skýrslunni er heilsteyptri og blandaðri byggð eins og má finna í eldri breskum bæjum stillt upp sem fyrirmynd af framtíðarbyggð, þar sem áhersla er lögð á orkusparnað, vistvænt umhverfi, fagra bæjarmynd og fjölbreytt mannlíf. Andstæða þessa er dreifða ameríska bílaútborgin sem í skýrslunni er skilgreind sem ósjálfbær tegund byggðar sem felur í sér ómælda sóun á landi, eldsneyti, tíma fólks, auk fábreytilegs umhverfis og félagslegrar einangrunar. Þessi hugarfarsbreyting á sér margþættar forsendur. Nefna má þróun atvinnulífs frá þungaiðnaði til þekkingariðnaðar og breytt viðhorf til umhverfismála og auðlindanýtingar, þar sem land til byggingar er nú skilgreint sem takmörkuð auðlind. Síðast en ekki síst má nefna félagslega þætti, eins og vaxandi tilhneigingu meðal yngra fólks að kjósa fremur að búa í eða við miðbæi, þar sem heimili, vinna og afþreying fléttast saman í samþættu umhverfi.

Mikilvægur þáttur í hugmyndinni um endurreisn bæja er sú hugsun að byggja eigi á grunni þeirrar þéttbýlishefðar sem fyrir er á hverjum stað. Þegar litið er til Íslands í þessu sambandi vaknar spurningin um, hvort hér sé eitthvað til að endurreisa, eitthvað sem kalla mætti íslenska hefð í skipulagi bæja?

Íslensk bæjararfleifð

Sú skoðun er algeng að íslensk menning sé í eðli sínu dreifbýlismenning, fólk hér vilji hafa rúmt í kringum sig og þoli illa að vera í sambýli.

Þessi fullyrðing er oft notuð til að réttlæta það að lífsstíll og skipulag amerískra bílaúthverfa henti Íslendingum betur en heilsteypt byggð evrópskra borga. Að mínu mati standast slíkar fullyrðingar ekki nánari skoðun. Saga þéttbýlis hér á landi er vissulega ekki löng. Engu að síður varð til vísir að merkilegri bæjarhefð hér á landi á fyrri hluta þessarar aldar, sem óumdeildanlega er hluti af íslenskri menningu. Þó að þorpið Reykjavík á seinni hluta 19. aldar standist fráleitt samjöfnuð við borgir Evrópu má þar samt sjá ýmis teikn um bæjarhefð í mótun. Einkalóðir liggja í röðum meðfram götu, nýrri húsin hafa virðulegar framhliðar og bakgarða aftanvið. Frá árinu 1852 er elsta hornhús í Reykjavík, Lækjargata 2, að líkindum eitt fyrsta hús hér á landi sem sérstaklega er sniðið að aðstæðum í þéttbýli.

Ákvæði er heimiluðu byggingu samfastra húsa með brunavegg á milli voru sett árið 1894. Í byggingarsamþykkt frá árinu 1903 voru ýmis ákvæði um gerð húsa í þéttbýli, svo sem um hlutfall byggingarreits og auðrar lóðar, samband vegghæðar og götubreiddar og að hús á gatnamótum skyldu vera hornsneidd. Þó að bæjarhús aldamótaáranna í miðbæ Reykjavíkur væru byggð úr forgengilegu efni vitnar gerð þeirra og útlit ótvírætt um að hér var að verða til vísir að alvörubæ, þrátt fyrir að mörgu væri ábótavant í tæknilegum efnum.

Framlag Guðmundar Hannessonar

Þegar Háskóli Íslands hóf starfsemi árið 1911 var Guðmundur Hannesson skipaður prófessor í heilbrigðisfræði við nýstofnaða læknadeild. Guðmundur hafði áður verið héraðslæknir á Akureyri og átt þar frumkvæði að ýmsum framfaramálum, svo sem byggingu nýs sjúkrahúss. Um 1907 fluttist hann til Reykjavíkur og reisti sér vandað steinhús á horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis sem hann sjálfur teiknaði. Guðmundur nam læknisfræði í Danmörku þar sem læknastéttin hafði verið fremst í baráttu fyrir umbótum í húsnæðis- og skipulagsmálum. Þó að aðstæður hér væru ólíkar átti áhugi Guðmundar á húsagerð og skipulagsmálum rætur í sömu hugsun og hjá dönsku læknunum að mótun byggðar skipti sköpum fyrir andlega og líkamlega vellíðan fólks og því væri hún mikilvægt heilbrigðismál.

Árið 1916 kom út sem fylgirit við Árbók Háskóla Íslands bókin "Um skipulag bæja" eftir Guðmund Hannesson. Í henni var í fyrsta sinn fjallað um skipulagsmál hér á landi með fræðilegri yfirsýn. Bókin er öðrum þræði gagnrýni á stöðu mála hér á landi, einkum það skipulagsleysi sem einkenndi hina nýju þéttbýlisstaði landsins.

Í ritinu setti Guðmundur fram úthugsaða framtíðarsýn um skipulag þéttbýlis við íslenskar aðstæður. Hugmyndir sínar sótti hann í nýjustu og framsæknustu skipulagskenningar þess tíma, en í bókaskrá ritsins er vitnað í verk alkunnra höfunda á borð við Raymond Unwin og Camillo Sitte. En Guðmundur Hannesson tók ekki upp útlendar hugmyndir gagnrýnislaust. Það er ekki síst hæfni hans til að aðlaga þessar hugmyndir íslenskum aðstæðum sem gerir rit hans merkilegt í fræðilegu tilliti.

Bresku og þýsku fyrirmyndarbæirnir sem Guðmundur vitnar til í bók sinni voru svar þess tíma við vandamálum sem skapast höfðu í stórborgum í kjölfar iðnbyltingarinnar. Áhersla var lögð á aðskilnað íbúðar- og atvinnusvæða. Íbúðarbyggðin var samfelld en lágreist, 2-3 hæða hús, oft lítil raðhús með garðbletti til ræktunar.

Guðmundur sá fyrir sér þétta og samfellda byggð í bæjum landsins en varaði við því að húsin væru of há, svo tryggt væri að allar vistarverur nytu sólar. Ein nýjungin sem hann kynnti var regla um skipan húsa á lóðir með tilliti til sólarátta, þannig að stærstur hluti óbyggðrar lóðar lægi sólarmegin húss, óháð því hvorum megin götu það var. Þessi regla var tekin upp í skipulagi nýrra hverfa í Reykjavík á 3. áratug aldarinnar og var hafði hún mikil áhrif á útlit reykvískra gatna fram yfir seinni heimsstyrjöld.

Fleiri atriði má nefna, svo sem legu gatna miðað við sólarátt og ríkjandi vindstefnu, og lokun þeirra til beggja enda til að auka skjól. Í ritinu útskýrir hann hvers vegna sveigð gata sé fegurri en bein þar sem húsaröðin lokar göturýminu þegar horft er eftir götunni. Mikilvægum byggingum skyldi valinn staður við torg, við enda gatna eða á opnum svæðum þannig að þær settu sem mestan svip á umhverfið. Fagurfræði í mótun bæjarmyndar taldi hann engu veigaminni þátt í því að tryggja góða heilsu og vellíðan fólks en tæknileg atriði, svo sem veitukerfi og gatnagerð.

Fyrsta skipulagsnefndin

Bók Guðmundar Hannessonar hafði mikil áhrif á skipulag íslenskra bæja. Hún var fræðileg undirstaða fyrstu skipulagslaganna sem samþykkt voru árið 1921, en hliðstæð löggjöf var þá ekki til á hinum Norðurlöndunum. Á vegum skipulagsnefndar ríkisins, sem Guðmundur sat í ásamt Guðjóni Samúelssyni húsameistara og Geir Zoëga vegamálastjóra, voru gerðir skipulagsuppdrættir af flestum þéttbýlisstöðum landsins. Teikningar þeirra vitna um metnað og stórhug þessara frumherja í mótun þéttbýlis á Íslandi. Tillögunum var sjaldast fylgt eftir út í ystu æsar en engu að síður höfðu þær víðtæk áhrif á þróun margra íslenskra bæja.

Í Reykjavík var gert heildarskipulag fyrir bæjarlandið innan Hringbrautar á árunum 1924-27. Skipulagið hlaut ekki staðfestingu en því var engu að síður fylgt í mótun byggðar á óbyggðum svæðum umhverfis Landakotshæð og á sunnanverðu Skólavörðuholti. Þessi hverfi eru eitt heillegasta dæmi um byggð sem mótuð var í anda skipulagskenninga Guðmundar Hannessonar. Þar má finna glæsihús efnamanna í bland við sambyggingar með litlum íbúðum og minni sérbýlishús fyrir fólk úr millistétt.

Sé litið til þeirra þátta sem mest áhrif hafa á gæði skipulags, svo sem yfirbragð byggðar, fagurfræði í hönnun húsa, skjólmyndun og afstöðu til sólarljóss, má með réttu segja að óvíða hafi betur tekist til með skipulag byggðar hér á landi en í þessum hverfum. Í dag eru þau með þeim eftirsóttustu í bænum til búsetu. Styrkur skipulagsins felst í því að það sameinar hugmyndir úr fortíð og samtíð, annars vegar samfellda bæjarmynd hinnar evrópsku hefðar og hins vegar kröfu 20. aldarinnar um skipulag með tilliti til sólarljóss. Ólíkt módernismanum fólu hugmyndir Guðmundar ekki í sér höfnun á hefðbundinni bæjarmynd heldur aðlögun hennar að breyttum aðstæðum.

Störf þeirra Guðmundar og Guðjóns að skipulagsmálum vöktu athygli út fyrir landsteinana á 4. áratug aldarinnar. Erlend fagrit birtu lofsamlega dóma um framlag þeirra og var þeim boðið að halda fyrirlestra erlendis um vinnu nefndarinnar. Formaður alþjóðlegra skipulagssamtaka, Gjerlöff að nafni, sem hingað kom árið 1936 lét svo ummælt í blaðaviðtali "að íslendingar [stæðu] meðal fremstu þjóða, hvað byggingarlist og skipulagningu bæja snertir." (Mbl, 8. 1936) Brautryðjendastarf Guðmundar Hannessonar að skipulagsmálum skipar honum sess meðal merkustu hugsuða þjóðarinnar á 20. öld. Fáir hafa hins vegar gert sér grein fyrir mikilvægi hugmynda hans á þessu sviði, enda hefur framlag hans lítið verið rannsakað.

Aldamótakynslóðina íslensku dreymdi stóra drauma um verðandi höfuðborg landsins sem smám saman tók á sig mynd á 3. og 4. áratug aldarinnar, sem kalla mætti gullöld íslenkrar bæjarhefðar. Veglegar steinsteypubyggingar risu í miðbænum, verslunarhús, bíó og hótel, sem gáfu erlendum borgarhúsum lítt eftir í glæsileik. Einna lengst náði þessi glæsta sýn á Reykjavík sem höfuðborg í tillögum Guðjóns Samúelssonar að háborg á Skólavörðuholti, sem og þeim opinberu stórhýsum sem hann teiknaði á þessum árum: Landspítala, Þjóðleikhúsi og Háskóla.

Hnignun borgarlífs

Hér er ekki rúm til að fjalla um ástæður þess að sá vísir að íslenskri bæjarhefð sem til var á fyrri hluta aldarinnar fjaraði smám saman út á árunum eftir stríð. Það er hins vegar ljóst að þróun þéttbýlis hér á landi hefur á síðari árum mjög farið inn á þær óheillabrautir sem margar þjóðir reyna nú að vinna sig frá. Á höfuðborgarsvæðinu hefur uppbyggingin líkt og víða erlendis leitað út í jaðra byggðarinnar á sama tíma og eldri miðbæjum hefur hnignað. Nýju íbúðarhverfin eru dreifbyggð svefnhverfi þar sem bifreið er lífsnauðsyn til að sinna daglegum erindum. Verslun og atvinnurekstur hefur færst yfir á jaðarsvæðin, í þess konar byggð sem á ensku kallast "business park", þar sem ekkert samhengi er í byggðinni og hvert hús er eyland með bílastæðum allt í kring. Gallinn við slíka uppbyggingu er sá að fyrirtæki og samfélagið fara á mis við þau samlegðaráhrif sem eru lykillinn að fjölbreytni hefðbundinna borga.

Heilsteypt bæjarskipulag er tæki til þess að beina framtaki einstaklinga í þann farveg að heildin verði sterkari en einingarnar sem hana mynda, á þann hátt að allir njóti góðs af. Á því byggist sú bæjarhefð sem svo lengi hefur lifað með vestrænni menningu. Borg er ekki hugverk eins manns eða einnar kynslóðar heldur er hún samsafnaður menningararfur margra kynslóða. Í því eru töfrar hennar fólgnir. Hún er flókið vistfræðilegt og hagrænt fyrirbæri, mótun hennar er félagslegt og listrænt viðfangsefni ekki síður en tæknilegt.

Þrátt fyrir hnignunarskeið síðustu áratuga er bæjarhefð óumdeilanlega hluti af íslenskri menningu. Hugmyndin um endurreisn bæja á því jafnmikið erindi hér sem annars staðar. Jákvætt dæmi um þróun í þessa átt má finna í nýlega samþykktu deiliskipulagi fyrir miðbæ Akureyrar, sem er sá staður á landinu sem á hvað elsta bæjarhefð. Skipulagið tekur tillit til þeirrar sérstöðu sem einkennir byggð í miðbæ hvað varðar form húsa og starfræn tengsl þeirra við almenningsrými bæjarins, götur og torg. Reynt er að fylla upp í skörð og laga skemmdir í eldri bæjarmynd og er þar að hluta til byggt á forsendum skipulags frá 3. áratugnum sem Guðjón Samúelsson vann.

Þétting byggðar - endurnýting lands

Sú umræða sem verið hefur upp á síðkastið um þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu vitnar um vaxandi áhuga á gildi bæjarlífs. Í þeim efnum ber þó margs að gæta. Þétting byggðar er ekki ein og sér markmið í sjálfu sér nema þá og því aðeins að hún leiði til bætts umhverfis og blómlegra samfélags. Í raun eru hugtök á borð við endurnýtingu lands og endurreisn bæja heppilegri í þessu sambandi. Vöxtur borgarinnar inn á við á ekki að vera á kosnað opinna almenningssvæða. Né heldur á hann að fela í sér eyðileggingu á mikilvægum náttúrulegum sérkennum. Endurnýting lands felst í uppbyggingu á vannýttun svæðum innan borgarinnar í stað þess að brjóta nýtt land til byggingar. Efling miðborga erlendis beinist einkum að endurnýtingu svæða sem eru hætt að þjóna tilgangi sínum eða eru bundin undir plássfreka starfsemi sem betur er komin utan við borgirnar. Gömul og úrelt iðnaðarhverfi, athafnasvæði járnbrauta, vöruport við hafnir og flugvellir eru dæmi um slík svæði. Ef vel er að gáð leynast mörg slík vaxtarsvæði innan byggðar í Reykjavík: við Elliðavog og Ártúnshöfða, Skeifuna og Múlahverfi, Borgartún og Sætún og umhverfis gömlu höfnina.

Síðast en ekki síst er flugvallarsvæðið í Vatnsmýri, sem er einstakt vegna stærðar sinnar og þeirra möguleika sem felast í tengslum þess við miðbæinn, Skerjafjörðinn og Öskjuhlíðina. Fáar borgir búa yfir öðru eins tækifæri til framtíðarþróunar miðborgar. Öllu máli skiptir að þegar að það tækifæri verður nýtt verði það vel nýtt, til að skapa borgarhluta sem rís undir þeim væntingum sem menningarþjóð gerir til höfuðborgar sinnar. Ekki má sólunda svo dýrmætu vaxtarsvæði undir vanhugsaða byggð eða byggingar sem hannaðar eru út frá forsendum úthverfa.

Mikið verk er fyrir höndum að efla vitund hér á landi á því sviði sem á ensku kallast "urban design" (borgarhönnun, mótun bæjarmyndar) sem er forsenda þess að vel takist til með mótun þéttrar byggðar. Í því sambandi má margt læra af hinni gleymdu íslensku bæjarhefð, ekki síst það hvernig móta má manneskjulegt bæjarumhverfi sem sniðið er að íslenskum aðstæðum.

Greinin byggist á texta erindis sem höfundur flutti á málþingi um endurreisn bæja sem haldið var á seinasta ári á vegum Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Samtaka um betri byggð.

EFTIR PÉTUR H. ÁRMANNSSON

Höfundur er arkitekt og deildarstjóri við byggingarlistardeild Listasafns Reykjavíkur.