"Ef atorka og vilji er á annað borð til þess í tilteknu samfélagi að viðhalda þjóðtungu er því brýnt að gæta þess að hún tapi ekki heilum notkunarsviðum til annars máls eða mála."
"Ef atorka og vilji er á annað borð til þess í tilteknu samfélagi að viðhalda þjóðtungu er því brýnt að gæta þess að hún tapi ekki heilum notkunarsviðum til annars máls eða mála."
Aðalatriði íslenskrar málræktar eru annars vegar varðveisla íslenskunnar og hins vegar efling hennar og til grundvallar liggur sú málpólitíska afstaða að íslenska verði áfram opinbert mál í landinu. Hér er fjallað um íslenska málstefnu og stöðu tungunnar í alþjóðlegu samhengi.

MÁLSTEFNA, málpólitík, málrækt.

Í öllum málsamfélögum hefur mótast málstefna, þ.e. skráð eða óskráð "stefna" um mál og málnotkun. Það má t.d. kalla það ákveðna málstefnu að málnotendur á tilteknu landsvæði nota eitt tungumál en ekki annað. Einhvers konar óskráðar eða skráðar venjur um málnotkun við mismunandi aðstæður (s.s. á opinberum vettvangi, við trúarathafnir, í skólum, í viðskiptum o.s.frv.) virðast fylgja öllum málsamfélögum.

Í ýmsum ríkjum er torveldara en á Íslandi að ná víðtækri sátt um slíka málstefnu í samfélaginu. Þar kemur margt til. Ekki er til dæmis nóg með að mállýskur geti verið fjölmargar og ólíkar heldur eru ýmis dæmi um ríki með tugi og jafnvel hundruð mismunandi tungumála. Segja má að hér á Íslandi sé samband íbúanna og eina opinbera tungumálsins nánast eins einfalt og hægt er að hugsa sér: langflestir íbúarnir eiga íslensku að móðurmáli og mállýskumunur í landinu er sáralítill. Þessi einsleitni, þetta tiltölulega einfalda og gróna samband íbúanna við íslenskt mál kann að vísu að breytast til muna á Íslandi á næstu árum og áratugum eftir því sem menning okkar verður margbrotnari.

Í málræktarfræði er alvanalegt að greina annars vegar á milli stöðu tungumáls gagnvart öðrum málum ásamt þáttum sem hafa áhrif á þá stöðu og hins vegar atriða sem hafa áhrif á það hvernig tiltekið mál er notað og hvernig það þróast. Um hið fyrra mætti nota á íslensku orðið málpólitík og um hið síðara málrækt. Loks má nota orðið málstefna sem yfirhugtak sem felur í sér í senn málpólitík og málrækt enda er það í samræmi við þá málvenju sem hefur verið að mótast í umræðunni hér á landi. Sem dæmi má nefna að það er hluti af íslenskri málstefnu að hér á landi sé íslenska opinbert tungumál (þetta atriði félli nánar tiltekið undir hugtakið málpólitík) en það er einnig hluti íslenskrar málstefnu að búa til íslensk nýyrði (það félli nánar tiltekið undir hugtakið málrækt).

Hugtökin íslensk málrækt og íslensk málstefna eru svolítið vandasöm í notkun enda hlýtur málrækt og málstefna á Íslandi að geta tekið til fleiri mála en íslensku þótt hún sé þjóðtungan, eina opinbera tungumálið á Íslandi. Í því sambandi er nærtækast að benda á að Íslendingar og aðrir, sem búsettir eru á Íslandi lengur eða skemur, eiga mörg fleiri móðurmál en íslensku: íslenskt táknmál, pólsku, taílensku, norsku o.fl. Þennan varnagla verður að hafa í huga þegar rætt er um íslenska málrækt og íslenska málstefnu. En með hliðsjón af þeirri venju, sem skapast hefur, er með þessum hugtökum hérna aðeins átt við málrækt og málstefnu sem beinist að íslensku.

Erlend mál og tvítyngi

Þáttur stjórnvalda í að móta málstefnu, sem kemur til móts við fjölmenningarlegt samfélag á Íslandi, er e.t.v. augljósastur í skólakerfinu. Þar hafa lofsverðar breytingar og framfarir orðið á allra síðustu árum að því er varðar menntun barna sem eiga önnur móðurmál en íslensku (sjá t.d. Guðna Olgeirsson 1999). Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla, sem tók gildi 1999, er tekið á menntun barna sem eiga annað móðurmál en íslensku, þar á meðal táknmál. Menntun tvítyngdra barna er vitaskuld ekki nýtt viðfangsefni hér á Íslandi en eins og allir vita hafa breytingar í samfélaginu á allra síðustu áratugum leitt til þess að brýnt var orðið að taka skipulegar á málum en gert hafði verið.

Enn fleira getur tengst málstefnu, s.s. nám og kennsla í erlendum tungumálum. Stefna í kennslu erlendra mála blandast stundum saman við umræður um stöðu íslenskunnar gagnvart erlendum málum. Í því sambandi er t.d. skemmst að minnast umræðu sem spratt upp í fjölmiðlum í febrúar sl. um að Íslendingar ættu að huga að því hvort tímabært væri að stefna að því að þjóðin yrði tvítyngd. Þegar hugmyndir þessar voru skoðaðar nánar og ræddar kom í ljós að í reynd var einkum um það að ræða að stefna að því að gera Íslendinga færari í ensku en þeir eru nú.

Íslensk málstefna

Aðalatriði íslenskrar málræktar eru annars vegar varðveisla íslenskunnar og hins vegar efling hennar (sbr. t.d. Guðmund B. Kristmundsson o.fl. 1986 og Baldur Jónsson 1987) og til grundvallar liggur sú málpólitíska afstaða að íslenska verði áfram opinbert mál í landinu.

Með varðveislu er átt við að reyna að varðveita íslensku eins og hægt er í núverandi mynd. Megintilgangur varðveislunnar er að viðhalda því samhengi sem er í íslensku ritmáli frá upphafi. Íslendingar geta lesið sér til fróðleiks og skemmtunar (án þess að leggja á sig umtalsverðan lærdóm) það sem ritað hefur verið á íslensku frá því á 12. öld. (Sjá t.d. Baldur Jónsson 1997:164.) Þetta er einstakt og mörgum Íslendingum og fleirum, sem til þekkja, þykir mikilvægt að þessi tengsl haldist áfram eftir því sem hægt er.

Ýmsar málbreytingar hafa raunar orðið í íslensku frá upphafi til nútímans. Þar af eru hinar veigamestu í íslenska hljóðkerfinu og þá sérstaklega í framburði sérhljóða (á 12.-16. öld) en þær voru svo kerfisbundnar að þær röskuðu ritmálinu lítið í raun. Setningagerð og beygingakerfi hefur tiltölulega lítið breyst. En mörg ný orð hafa bæst við íslenska orðaforðann eins og eðlilegt er á svo löngum tíma þar sem þjóðlíf hefur gerbreyst. Sum gömlu orðanna hafa líka fengið nýja merkingu til viðbótar við hina eldri. En rétt er að benda á í þessu sambandi að mörg algeng orð, sem fólk notar núna dags daglega á Íslandi, eru hin sömu og í forníslensku (norrænu), þ.e. orð eins og t.d. höfuð, auga, himinn, haf, þú, kýr, gras, móðir, faðir, ganga o.s.frv.

Með eflingu íslenskunnar er átt við allt sem miðar að því að íslenskt mál nýtist Íslendingum sem best. Þar má nefna 1) að búa til ný orð og orðasambönd eftir því sem þörf er á (þó þannig að það brjóti ekki í bága við hefðir málsins í framburði, beygingum, orðmyndun og setningagerð), 2) að styrkja notkun íslensku við hvers kyns aðstæður, 3) að treysta kunnáttu Íslendinga (og annarra sem áhuga hafa) í meðferð íslensks máls og 4) að styrkja trú á gildi íslensku sem móðurmáls velflestra Íslendinga og eina opinbera tungumálsins á Íslandi (sjá nánar Guðmund B. Kristmundsson o.fl. 1986:27).

Þegar talað er um varðveislu í öðru orðinu og eflingu í hinu geta það í fljótu bragði virst andstæður, þ.e. menn gætu talið að hið íhaldssama varðveislusjónarmið hamlaði eflingu tungumálsins en hún felur m.a. í sér nýjungar. Svo virðist þó ekki þurfa að vera þegar betur er að gáð. Í íslenskri málrækt hefur komið í ljós að heppileg og hagkvæm aðferð við þróun og eflingu nútímamálsins er að taka mið af þeim orðum og því kerfi sem fyrir er. Þetta kemur vel í ljós þegar hugað er að orðaforðanum.

Nýyrði og tökuorð

Það er mjög áberandi þáttur í íslenskri málrækt að búa til ný orð, nýyrði. Orðaforði íslenskunnar hefur t.d. undanfarin 150 ár vaxið gífurlega með nýmynduðum íslenskum orðum, þ.e. orðum sem mynduð eru af öðrum orðum og orðhlutum sem þegar voru til í málinu.

Í íslensku eru tökuorð úr erlendum málum talin hlutfallslega færri en í norrænu málunum í Skandinavíu þótt því fari fjarri (sem stundum hefur verið haldið fram) að tökuorð séu beinlínis sjaldgæf í íslensku. Sjá nánar t.d. Baldur Jónsson (1997:167-168). Raunar er ekki hægt að tala með nákvæmni um hvert hlutfall tökuorða er núna í orðaforðanum því að til þess vantar umfangsmeiri rannsóknir. Veigamikið atriði, sem vert er að hafa einnig í huga, er að tökuorð í íslensku virðast oftast þurfa að aðlagast íslenskum framburði, íslenskri stafsetningu og íslenskum beygingum. Í því felst t.d. að hægt er að skrifa orðin þannig að samband milli bókstafa og hljóða fylgi hefð í íslensku ritmáli (squash verður skvass o.s.frv.). Nefna má hins vegar sem dæmi að í dönsku er oft fylgt annarri venju: þar eru tökuorð fremur rituð eins og í málinu sem þau koma úr (computer, copyright o.s.frv.). Á meðan tökuorð eru að festast í sessi er raunar oft óvissa í samfélaginu um t.d. rithátt, kyn og beygingu: skvass/skvoss? jógúrtið/jógúrtin? o.s.frv.

Kostir nýyrða af íslenskum stofnum eru t.d. þeir að ritháttur og beyging kemur að mestu af sjálfu sér (það leikur enginn vafi á því hvernig skuli rita og beygja nýyrði á borð við vistkerfi o.s.frv.) og þau eru oft nokkuð gagnsæ, þ.e. oft er unnt að ráða í merkingu þeirra á grundvelli einstakra orðhluta. Um hagnýtisrök af þessu tagi (sem og lýðræðisrök), sem færð hafa verið fyrir nýyrðastefnunni, sjá t.a.m. Kjartan G. Ottósson (1997:31-32), Jón Hilmar Jónsson (1988) og Ástráð Eysteinsson (1998).

Breytileiki í málnotkun

Einsleitni er sterkt einkenni á íslensku málsamfélagi eins og vikið var að hér á undan. Stundum fer þó ritmál og talmál ólíkar leiðir í íslensku eins og í öðrum málum. Það getur farið eftir aðstæðum (eða s.k. málsniðum) hversu trúir íslenskir málnotendur eru íslenskri málhefð í orðavali eða málnotkun að öðru leyti. Eins og í öðrum málsamfélögum, sem eiga sér ritmál, er (eða getur verið) nokkur munur á því sem tíðkast að skrifa og því sem fólk segir. Ritmálið getur oft orðið dálítið hátíðlegra eða formlegra en talmálið. Það kemur fram með ýmsum hætti í tungumálum en í íslensku er eitt einkenni þessa munar fólgið í því að fólk virðist fremur nota innlend nýyrði þegar það skrifar enda þótt það noti e.t.v. sitt á hvað innlend nýyrði og misjafnlega mikið aðlöguð orð af erlendum uppruna þegar það talar. Við formlegar aðstæður og í ritmáli má frekar vænta orða á borð við tölvupóstur enda þótt sami málnotandi segi ímeil við aðrar aðstæður. Í íslensku er töluvert um þess háttar samheitapör með mismunandi stílgildi.

Nýyrðastefna og önnur tungumál

Kristján Árnason málfræðingur telur (1999) að íslensk málstefna sé ekki hreintungustefna í sama skilningi og þekkist víða um heim og sé "einkar óviðfelldin og minnir á kynþáttahatur. Þetta eru hugmyndir um það að ein tunga sé betri eða hreinni en önnur, eðlari í einhverjum skilningi. Oft tengist þetta stjórnmálum og fjandskap milli þjóða og útlendingahatri. - Íslensk málstefna er ekki hreintungustefna í þessum skilningi. Það sem sumir vilja nefna þessu nafni er kosturinn að smíða innlend nýyrði frekar en nota tökuorð. En þessi aðferð hentar einkar vel þegar laga á íslensku að nýjum tímum því að óhjákvæmilegt er að beygja og rita þau orð sem verða hluti af íslensku máli. Sá vandi verður oft leystur á einfaldastan hátt með því að smíða orð með heimafengnum orðhlutum sem ljóst er hvernig skrifa á og beygja" (1999:6).

Þeir kostir nýyrðastefnunnar, sem Kristján Árnason nefnir, eru sjálfstæð rök fyrir henni og þurfa ekki að varða meint "óhreinindi" (sbr. orðið "hreintungu"stefna).

Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur er einn þeirra sem bent hafa á kostina sem fylgja þeirri stefnu að reyna sem oftast að finna innlend orð í stað erlendra, þar á meðal alþjóðlegra tækni- og fræðiheita. Ástráður segir m.a. um hina tvöföldu menntun íslenskra háskólanema sem þurfa að fást við námsgreinar sínar bæði á íslensku og erlendu máli: "málræktin gerir annað og meira en að krefjast orku, hún framleiðir einnig orku, hún er orkugjafi. Glíman við tungumálið skapar ný sjónarhorn, nýja heimssýn, ýtir undir nýja og skapandi vitund, endurskapar og endurnýjar í sífellu menningartengsl við önnur lönd, aðra menningarheima, og tryggir að þau tengsl verði skilin á okkar forsendum ekki síður en hinna "stóru mála". Umrædd "tvöfeldni" námsins tengist þeirri miklu þýðingariðju sem Íslendingar verða að stunda ætli þeir að varðveita málið. En sú iðja skilar sér á ýmsan hátt, meðal annars í því að á íslensku kunna hugtök að virkja skilning á svolítið annan hátt sem getur skilað sér í frjóu endurmati hinna erlendu hugtaka" (1998:12).

Notkunarsvið

Sú afstaða er almenn á Íslandi að hægt eigi að vera að nota íslensku við allar aðstæður og í hvers konar tækni, vísindum, viðskiptum o.s.frv. hér á landi. Það er hvergi nærri sjálfgefið að þjóðtungur haldi sínum hlut á öllum notkunarsviðum ef svo má segja. Um öll Norðurlönd hafa menn nú áhyggjur af því að opinberu tungumálin geti smám saman verið að tapa notkunarsviðum til enskunnar, m.a. í vísindum. Doktors- og meistararitgerðir í háskólum á Norðurlöndum eru æ oftar skrifaðar á ensku þótt hún sé ekki móðurmál höfunda. Af 147 doktorsritgerðum við Uppsalaháskóla í maí 2000 voru 123 á ensku.

Sagan sýnir að þar sem eitt mál lætur í minni pokann fyrir öðru heldur upprunalega málið lengst sínum hlut heima við, í samskiptum vina og ættingja og í hefðbundnum (oft deyjandi) atvinnugreinum. Í því sambandi er stundum talað um að það verði "eldhúsmál"; orðið vísar til þess hvernig notkunin hefur takmarkast við allra nánasta eða persónulegasta umhverfi málnotandans. Eftir því sem yngri kynslóðir verða handgengnari nýja málinu er jafnframt oft stutt í að tungumál deyi alveg út. Hluti af ferlinu getur verið sú virðing sem oft er borin fyrir nýja málinu ásamt vantrú á gildi eldra málsins. Geysimörg tungumál hafa dáið út allra síðustu aldir og áratugi. Indíánamál í Ameríku hafa lent í þeirri stöðu, sem hér var lýst, gagnvart ensku, spænsku og portúgölsku, mörg mál í Afríku og Asíu gagnvart ensku og frönsku, mörg frumbyggjamál í Ástralíu gagnvart ensku og mörg mál innan Rússlands (og Sovétríkjanna) gagnvart rússnesku.

Ef atorka og vilji er á annað borð til þess í tilteknu samfélagi að viðhalda þjóðtungu er því brýnt að gæta þess að hún tapi ekki heilum notkunarsviðum til annars máls eða mála. Þess í stað geti íbúarnir notað móðurmál sitt (og önnur tungumál eftir því sem þörf er á og kunnátta leyfir) við sem flest viðfangsefni.

Hér á Norðurlöndum berjast þjóðtungurnar við ensku um mörg notkunarsvið. Huga má að fimm mikilvægum sviðum í þessu sambandi: 1) stjórnsýslu, 2) viðskiptum, 3) einstökum starfsgreinum, tækni og vísindum, 4) skólum og 5) fjölmiðlum, listum og íþróttum. Þótt íslenska virðist í fljótu bragði vera ráðandi á öllum þessum sviðum hérlendis má vissulega tína til af handahófi eftirtalin dæmi sem hníga í aðra átt: 1) reglur á ensku eru hluti stjórnsýslu í flugmálum hér á landi, 2) ýmis íslensk fyrirtæki kynna Íslendingum vörur sínar og þjónustu undir erlendum heitum, 3)-4) talsvert er nú kennt á ensku í háskólum hér og 5) Íslendingar fylgjast með mörgum sjónvarpsstöðvum þar sem efni er einungis flutt á ensku.

Málrækt og þjóðerni

Umræður um íslenska málrækt bera þess stundum merki að málræktin er tengd hugmyndum um íslenskt þjóðerni sterkum böndum. Á því er sú skýring nærtækust að "[í]slenska lýðveldið er enn ungt að árum og þjóðernisbaráttan er því fersk í minningu margra" (Guðmundur Hálfdanarson 1996:9). Kjartan G. Ottósson málfræðingur segir (1990) um tímabilið frá því um miðja 19. öld fram að fullveldi 1918 að þjóðinni hafi orðið "ljóst að tungan gegndi mikilvægu hlutverki í sjálfstæðisbaráttunni og taldi það skyldu sína að hlúa sem best að henni. Tungan var talin vera það sem framar öðru gerði Íslendinga að sérstakri þjóð með ákveðin þjóðréttindi, auk þess sem hún var á vissan hátt lifandi vottur um forna frægð og hvatti þannig samtímamenn til dáða. Jafnframt var því haldið á lofti sem almennu lögmáli að ástand tungunnar fylgdi ástandi þjóðarinnar yfirleitt" (1990:76).

Úr slíkum og þvílíkum viðhorfum má jafnframt lesa að erfitt sé að hugsa sér Íslendinga sem þjóð nema þeir eigi sér sérstakt tungumál. Og oft er einnig undirskilið að þá sé ekki átt við "eitthvert ótiltekið eigið tungumál" heldur þá íslensku sem töluð hefur verið í landinu frá upphafi og enn er notuð. Sá skilningur er t.a.m. áréttaður hjá Baldri Jónssyni málfræðingi (1990:8) - og þar talinn almennari og útbreiddari - að þegar talað sé um málvernd og að varðveita tungu þjóðarinnar, m.a. í "stefnuyfirlýsingum helstu stjórnmálaflokka landsins", sé við það átt að "málinu sé haldið svo lítt breyttu að hver sem það kann sé læs á íslenskt mál allra alda" (1990:8). Í forystugreinum, hátíðarræðum og víðar er íslensk tunga oft tengd við íslenskt þjóðerni og algengt er að vitnað sé til orða Snorra Hjartarsonar um land, þjóð og tungu, þrenningu sanna og eina.

Eins og Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur bendir á (1996:8) eru hugmyndir um mikilvægi tungumálsins fyrir þjóðernisvitundina hvorki nýjar af nálinni í íslenskri þjóðmálaumræðu né einstæðar fyrir íslenska þjóðernisvitund.

En þarf að rökstyðja íslenska málrækt með því að vísa til þess að hún sé grundvöllur íslensks þjóðernis? Í raun og veru ekki. Taka má undir með Ástráði Eysteinssyni (1998) sem segir: "Eflaust má sjá tengsl milli [íslenskrar málræktar] og þjóðernislegrar hefðar en hún stenst hins vegar án áherslu á þau tengsl eða viðgang þeirra" (1998:12). "[Við] þurfum ... ekki að styðjast við rök um sérstæði íslensks "þjóðernis" til að verja íslenskan málstað; kappnóg er af menningarlegum og fagurfræðilegum forsendum fyrir tilvist þessa máls" (1998:13).

Hér að framan hafa m.a. komið fram ýmis hagnýtisrök fyrir íslenskri málrækt eins og hún hefur verið stunduð (einkum nýyrðastefnunni). Og óþarft er að fjölyrða um nauðsyn þess að varðveita menningarverðmæti á borð við íslenskt mál einfaldlega á þeim forsendum að þau hafa gildi í sjálfum sér.

Undanfarna mánuði hafa verið að koma upp á yfirborðið í íslenskri þjóðmálaumræðu straumar af sama toga og valdið hafa usla í stjórnmálum og þjóðlífi grannlandanna. Hér á ég við öfgakenndar þjóðernishugmyndir sem miða að því að reisa múra milli fólks af ólíkum uppruna. Málræktarsinnum, sem andsnúnir eru slíkri hreyfingu, þykir gott að vita til þess að Íslendingar geta áfram með góðum, sjálfstæðum rökum varið og stundað íslenska málrækt án þess að þurfa að vísa til þjóðernishugtaka sem kunna að verða skrumskæld.

Íslenska og Íslendingar

Langflestir íslenskir ríkisborgarar eiga íslensku að móðurmáli og hið sama á raunar jafnframt við þegar einungis er horft til búsetu á Íslandi (97,6% íbúa á Íslandi 1999 voru íslenskir ríkisborgarar).

Enn fremur hefur sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar í ríkum mæli verið tengd íslenskunni eins og áður var rakið og þar má ætla að rík bókmenning þjóðarinnar gegni veigamestu hlutverki.

Loks er íslenska óvenju-einsleitt mál eins og fram hefur komið hér á undan. Breytileiki í máli eftir landshlutum hefur verið tiltölulega lítill sé horft til annarra landa til samanburðar (enda þótt allnokkur og hugsanlega vaxandi breytileiki í máli finnist núna eftir aldri og e.t.v. eftir menntun og kyni). Hin ríka einsleitni í máli og málnotkun hérlendis þýðir að flestir eiga tiltölulega auðvelt með að "samsama sig" máli hver annars. Ætla má að það sé mun almennara á Íslandi en víða annars staðar að almenningur hafi það á tilfinningunni að t.d. fjölmiðlar og stjórnmálamenn noti "sameiginlegt mál okkar" (en ekki eitthvert "sérmál" eða mállýsku, t.d. "mál höfuðborgarinnar" eða "mál menntamannanna"). Rétt er að undirstrika að hið síðasttalda er aðeins ályktun sem ég byggi á mati; ég veit ekki til þess að þetta hafi verið rannsakað á Íslandi.

Samband Íslendinga við hið opinbera tungumál í landinu, íslenskuna, er því vissulega mjög sterkt enn þann dag í dag.

Glöggt er gests augað: málfræðingurinn Matthew Whelpton, lektor í ensku, hefur búið hér á landi frá 1995. Hann hefur lýst því hvernig honum hefur sýnst íslensk tunga mynda "ákveðin tengsl sem binda íslenskt samfélag saman" (2000). Meðal dæma Matthews var skiltið í Leifsstöð: Velkomin heim - í enskri útgáfu stóð Welcome to Iceland. "Þetta er fallegt og einfalt dæmi um tengslin milli íslensks tungumáls og íslensks samfélags. Íslenska útgáfan gerir ráð fyrir að allir, sem tali íslensku, séu Íslendingar eða ... að hver sá sem tali íslensku kalli Ísland heimili sitt" (Whelpton 2000). Dæmi Matthews leiðir einnig hugann að því að í Leifsstöð er stundum eins og íslenska sé ígildi vegabréfs: fólki getur nægt að segja gott kvöld við landamæravörðinn í stað þess að sýna íslenskt vegabréf.

Heimildir:

Ástráður Eysteinsson. 1998. Þýðingar, menntun og orðabúskapur. Málfregnir 15:9-16.

Baldur Jónsson. 1987. Íslensk málrækt. Málfregnir 2:19-26.

---1990. Íslensk málvöndun. Málfregnir 7:5-13. (Greinin var fyrst prentuð 1973.)

---1997. Isländska språket. Nordens språk (bls. 161-176). Novus forlag, Ósló.

Guðmundur Hálfdanarson. 1996. Hvað gerir Íslendinga að þjóð? Nokkrar hugleiðingar um uppruna og

eðli þjóðernis. Skírnir 170:7-31.

Guðmundur B. Kristmundsson, Baldur Jónsson, Höskuldur Þráinsson og Indriði Gíslason. 1986.

Álitsgerð um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum. Samin af nefnd á vegum menntamálaráðherra 1985-1986. Rit Kennaraháskóla Íslands. B-flokkur: fræðirit og greinar 1. Reykjavík.

Guðni Olgeirsson. 1999. Nýjar aðalnámskrár í íslensku í grunn- og framhaldsskólum. Málfregnir 17-

18:15-22.

Jón Hilmar Jónsson. 1988. Hefð og hneigð í íslenskri orðmyndun. Málfregnir 3:3-11.

Kjartan G. Ottósson. 1990. Íslensk málhreinsun. Sögulegt yfirlit. Rit Íslenskrar málnefndar 6.

Reykjavík.

---1997. Purisme på islandsk. Purisme på norsk? (bls. 31-37). Norsk språkråds skrifter 4. Ósló.

Kristján Árnason. 1999. Íslenska í æðri menntun og vísindum. Málfregnir 17-18:6-14.

Whelpton, Matthew. 2000. Að tala íslensku, að vera íslenskur: mál og sjálfsmynd frá sjónarhóli

útlendings. Erindi á málræktarþingi Íslenskrar málnefndar 11. nóvember 2000.

Þeim sem áhuga hafa á ritum um málstefnu og málrækt almennt má t.d. benda á eftirtaldar bækur: Bartsch, Renate. 1988. Norms of Language. Theoretical and Practical Aspects. Longman, London; Schiffman, Harold F. 1996. Linguistic Culture and Language Policy. Routledge, London; Vikør, Lars S. 1994. Språkplanlegging. Prinsipp og praksis. Novus, Ósló._

EFTIR ARA PÁL KRISTINSSON

Höfundur er málfræðingur og forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar.