Fangelsi í Norilsk í Norður-Síberíu. Berklar eru útbreiddir í fangelsum Rússlands, ekki síst vegna þess að fjöldi manna er saman í klefum og smit óhjákvæmilegt. Á síðasta ári fjölgaði dauðsföllum vegna berkla í fangelsum um þriðjung frá árinu á undan. Þega
Fangelsi í Norilsk í Norður-Síberíu. Berklar eru útbreiddir í fangelsum Rússlands, ekki síst vegna þess að fjöldi manna er saman í klefum og smit óhjákvæmilegt. Á síðasta ári fjölgaði dauðsföllum vegna berkla í fangelsum um þriðjung frá árinu á undan. Þega
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EFTIR áratugalanga baráttu í iðnríkjum heims gegn berklum er þessi gamli ógnvaldur að skjóta upp kollinum á ný, hættulegri en nokkru sinni fyrr.

EFTIR áratugalanga baráttu í iðnríkjum heims gegn berklum er þessi gamli ógnvaldur að skjóta upp kollinum á ný, hættulegri en nokkru sinni fyrr. Efnahagskollsteypur, stóraukin ferðalög og tilkoma alnæmis hafa sameinast um að skvetta olíu á eld berklafaraldurs sem er að eyðileggja heilsu milljóna manna og ógna samfélögum þar sem berklar voru taldir heyra sögunni til. Heilbrigðisyfirvöld, sérfræðingar alþjóðastofnana og félagasamtök eins og Rauði krossinn hafa stóreflt baráttu sína gegn vágestinum en það dugir hvergi nærri til.

Milljarður smitast

Berklar verða tveimur milljónum manna að aldurtila á ári hverju. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst því yfir að berklar séu alþjóðleg farsótt og sett baráttuna gegn þeim á forgangslista. Talið er að á næstu tuttugu árum muni einn milljarður - já milljarður - manna smitast af berklum. Af þeim munu 200 milljónir fá berkla og 35 milljónir láta lífið. Þetta gerist ef ekki tekst þeim mun betur að efla berklavarnir í löndum eins ólíkum og Rússlandi, Haití, Suður-Afríku og Víetnam.

Eftirtaldar staðreyndir tala sínu máli um útbreiðslu berkla:

Hverja sekúndu smitast einhver af berklabakteríunni.

Á hverju ári smitast eitt prósent af heildarfólksfjölda heimsbyggðarinnar.

Þriðjungur íbúa jarðar er með berklabakteríuna í sér og af þeim mun tíundi hlutinn veikjast af berklum.

Milli fimm og tíu prósent þeirra sem smitast munu veikjast og smita aðra einhvern tíma á lífsleiðinni.

En hvers vegna eru berklar skyndilega fréttnæmir á ný? Einn sökudólgurinn er alnæmisveiran. Minnihluti þeirra, sem sýkjast af berklum, verður veikur. Fólk sem borðar vel, býr við hreinlæti og er hraust verður sjaldnast vart við nokkuð þótt það hafi andað að sér berklabakteríunni. Og það sem meira er, þetta fók smitar ekki út frá sér. Til að smita annað fólk verða menn að vera orðnir sjúkir - og eru þá með smitandi berkla. Þegar berklasmitaður maður smitast af HIV veirunni, sem veldur alnæmi, er mjög líklegt að berklarnir taki sig upp. Þess vegna hefur útbreiðsla alnæmis í Afríku haldist í hendur við útbreiðslu berkla.

Önnur orsök er aukin ferðalög fólks um allan heim. Það er ekki bara á Vesturlöndum sem tækifæri til ferðalaga hafa aukist, því hvarvetna bera flugvélar, bátar, lestir og langferðabifreiðar ferðamenn milli staða. Þeir sem hafa ferðast með þessum farartækjum í Afríku eða Asíu þurfa ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að þau eru sjálf upplögð gróðrarstía smitunar, pökkuð af fólki langtímunum saman. Berklaveiran smitast líkt og kvef, í loftinu. Það er nóg að anda á markaðstorgi þar sem berklasjúklingur hefur verið að hósta þremur klukkustundum áður til að fá bakteríuna í sig. Annað mál er að bakterían getur legið óvirk í mörg ár eða áratugi ef viðkomandi einstaklingur er heilbrigður.

Sprenging í Rússlandi

Fæstum hefur líklega dottið í hug þegar Sovétríkin liðuðust í sundur undir lok árs 1991 hvers kyns umbyltingar væru í vændum fyrir íbúa nýju landanna 15. Lífskjör versnuðu svo að sums staðar lá við hungursneyð og átök brutust út vítt og breitt um hið fallna stórveldi, í löndum eins og Moldóvu, Georgíu, Aserbadsjan, Armeníu og Tadsjíkistan - að ekki sé talað um Tsjetsjníu í Rússlandi. Auðlæknanlegir sjúkdómar sem áður þóttu tilheyra vanþróuðum ríkjum spruttu upp í landi þar sem áður þótti meiri ástæða til að útskrifa heilaskurðlækna en smitsjúkdómafræðinga.

Með stórveldinu hrundi opinber þjónusta, einkum hið viðamikla og dýra heilbrigðiskerfi sem byggt hafði verið upp áratugum saman. Læknar höfðu skyndilega engin lyf, engar filmur í röntgentækin, engin laun. Á dögum Sovétríkjanna fengu starfsmenn leyfi á launum og ókeypis meðferð ef þeir greindust með berkla. Nú á dögum eru menn heppnir ef þeir halda vinnunni. Dæmi um það sem gerðist má sjá í Badakshan-héraði í Tadsjikistan, en það er í Pamír fjöllum á landamærunum við Kína og Afganistan. Á berklaspítalanum í borginni Khorog eru 40 rúm. Strax eftir 1991 varð skortur á berklalyfjum þannig að brátt reyndist ekki hægt að halda uppi berklameðferð. 5 árum síðar hafði fjöldi berklasjúklinga á staðnum sexfaldast. Svipaða sögu er að segja víða úr gömlu Sovétríkjunum.

Fjölónæmar berklabakteríur

En þar með er ekki öll sagan sögð. Á sama tíma og berklar breiðast hraðar út í gömlu Sovétríkjunum en annars staðar hafa þar einnig myndast berklastofnar sem eru ónæmir fyrir þeim lyfjum sem best henta til berklameðferðar.

Þegar stofnar af berklabakteríunni eru ónæmir fyrir tveimur algengustu lyfjunum, isoniazid og rifampin, þá eru þeir kallaðir fjölónæmir. Það kostar að minnsta kosti 100 sinnum meira að ráða niðurlögum bakteríunnar ef um slíkt smit er að ræða heldur en ef hægt væri að nota hefðbundin lyf. Berklalyf sem duga til að lækna mann af berklum í Rússlandi kosta um 1.700 krónur. Meðferðin tekur um sex mánuði. En það kostar meira en milljón króna að lækna mann sem er smitaður af fjölónæmri berklabakteríu og það tekur tvö ár. Vart þarf að taka fram að fé til slíkrar meðferðar er í nær öllum tilvikum utan seilingar fyrir sjúklingana og þeirra bíður oft ekkert annað en mismunandi langvarandi dauðastríð.

Þangað til fyrir hálfri öld voru engin lyf til að meðhöndla berkla. Þetta ástand er að verða til á ný með tilkomu fjölónæmra berklabaktería. Þessir stofnar hafa myndast þegar sjúklingar hafa byrjað að taka lyf við berklum en ekki haldið lyfjakúrinn í tilsettan tíma. Þá kemst á kreik baktería sem er ónæm fyrir viðkomandi lyfi og smám saman verða sverðin í vopnabúri heilbrigðisyfirvalda bitlaus á skaðvaldinn. Meira en helmingur berklasjúklinga í Rússlandi er ónæmur fyrir að minnsta kosti einu berklalyfi. Í Eistlandi var hlutfall fjölónæmra berkla 13,5 prósent 1997 en 18,1 prósent ári síðar.

Þessar ónæmu bakteríur eru farnar að sjást á Vesturlöndum. Síðan 1996 hefur tilfellum fjölónæmra berkla fjölgað um 50 prósent í Danmörku og Þýskalandi. Skýrsla Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá í fyrra bendir til að ef ónæmir berklar koma upp í fátækum ríkjum muni þeir óhjákvæmilega breiðast út til þeirra sem eru ríkari. Eina leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðsluna sé að ráðast gegn rótum vandans í fátæku ríkjunum.

Kuldi og vosbúð í Síberíu

Berklar eru fátæktarsjúkdómur því þeir ráðast einkum á fólk sem er veikburða og býr við miklar þrengingar. Vart er hægt að hugsa sér verri aðstæður en víða í Síberíu, þar sem þjóðfélagsgerðin hrundi fyrir tæpum áratug og er enn að falla saman.

Ósjaldan koma upp aðstæður sem hafa í för með sér ótrúlega erfiðleika. Þannig varð til dæmis skyndilega rafmagnslaust í bænum Deputatskí í austanverðri Síberíu fyrr í þessum mánuði. Bæjarbúar, 3.500 manns, voru þá skyndilega án ljóss, rafmagns og hita í fimmtíu stiga gaddi í svartasta skammdeginu. Svo merkilega vildi til að Rauði krossinn hafði einmitt verið að skipuleggja hjálparstarf á svæðinu og því var hægt að fara með teppi, hlýjan fatnað, vetrarskó, matvæli og annan varning til þorpsins. Bílalestin lagði upp frá næstu borg, Jakútsk, en ferðalagið yfir freðmýrar, ísilögð vötn, ár og fjöll tók alls tíu daga. Á meðan beðið var eftir aðstoðinni bjargaði fólk sér með því að fjölskyldur söfnuðust saman ein eða fleiri í herbergi, lokuðu að sér og hituðu upp með kamínum.

Onufri Platonovich Uksusnikov og kona hans Olga eru dæmigerð fyrir það fólk sem hefur orðið fyrir barðinu á þjóðfélagsbreytingum undanfarinna ára. Þau eru af Dolgan-ættbálki frumbyggja Síberíu. Onufri er sextugur en kona hans 62. Fyrir daga Sovétvaldsins bjó Dolgan-fólkið í tjöldum og fór ferða sinna á breiðum skíðum, hundasleðum eða bátum og veiddi sér til matar. Eftir byltinguna var því komið fyrir í þorpum og bæjum og það vandist því að fá laun fyrir veiðarnar og að sækja sér mat í næstu kjörbúð.

"Við áttum nóg af peningum og mat og fatnaði," segir Onufri. "Ég seldi hvít refaskinn og fékk tvisvar verðlaun fyrir veiðimennsku."

Hvorugt hjónanna kann að lesa eða skrifa.

Nú búa þau í gömlum vagni sem búið er að breiða yfir með segldúk. Þau hafa engin tæki til upphitunar, ekkert rafmagn og engin húsgögn. Kjötið af skepnunum sem Onufri veiðir elda þau á steinolíuhellu. Í fyrra fóru þau loks að fá ellilífeyri en einungis sem svarar um 1.700 krónum á mánuði. Ekkert brauð er bakað í þorpinu þeirra af því að hveitið er svo dýrt. Sökum flutningskostnaðar er neysluvarningur að jafnaði þrefalt dýrari í dreifðum byggðum Síberíu heldur en í stóru borgunum. Fyrir utan ellilífeyrinn fá þau enga aðstoð aðra en þá sem Rauði krossinn færir þeim. Í fyrra fengu rúmlega 200 þúsund manns á norðursvæðum Rússlands fjölskyldupakka, sem í voru matvæli, hreinlætisvörur, stígvél, skólavörur og lyf.

Í frumbyggjaþorpinu Levinski Peski býr Ludmilla Baikaleva, fimmtug kona, í einu herbergi með sex uppkomnum börnum og einu barnabarni. "Líttu á þetta," segir hún við starfsmenn Rauða krossins sem eru komnir til að kanna aðstæður. "Það er ekkert rennandi vatn, þakið er um það bil að falla niður, við höfum ekkert klósett og við sofum sex í einu rúmi. Það er engin furða þó við verðum oft reið, pirruð og árásargjörn." Við þessar aðstæður þrífast berklar vel.

Aðstoð Rauða kross Íslands

Fyrir 80 árum stóð baráttan gegn berklum sem hæst á Íslandi, en á þeim tíma bjó stór hluti þjóðarinnar við aðstæður sem svipar til þeirra sem nú er að finna í norðurhéruðum Rússlands. Fáar þjóðir ættu því að hafa jafn mikinn skilning á þrengingum Síberíubúa og Íslendingar. Rauði kross Íslands hefur því stutt mannúðaraðstoð í Rússlandi með öflugum hætti síðustu árin. Heildarverðmæti aðstoðarinnar nemur líklega um 50 milljónum króna, þegar allt er talið, en aðallega er um að ræða mataraðstoð (meðal annars frá ríkisstjórn Íslands) auk þess sem fatnaður hefur verið sendur í gámum og fjármunir veittir í ákveðin verkefni.

Árið 2000 styrkti Rauði kross Íslands berklaverkefni í Rússlandi um fimm milljónir króna og á þessu ári um aðrar fimm milljónir króna. Þótt það sé einkum í verkahring stjórnvalda að lækna berklasjúkt fólk þá geta mannúðarsamtök eins og Rauði krossinn hlúð að því starfi og stuðlað að betri árangri.

Þannig er einn stærsti vandinn við berklameðferð í Rússlandi sá að fólk er sér ekki meðvitandi um nauðsyn þess að klára lyfjakúra, jafnvel eftir að það er orðið betra af sjúkdómnum. Á vegum rússneska Rauða krossins eru þúsundir heimahjúkrunarkvenna, sem heimsækja aldraða og sjúka og létta þeim lífið á ýmsan hátt.

Þessar konur geta líka séð til þess að berklasjúklingar taki lyfin sín og þannig komið í veg fyrir að ónæmir bakteríustofnar myndist.

Alevtína Karpenko er ein þeirra. Hún starfar í Tomsk í Síberíu og tengist þar berklamiðstöð borgarinnar.

"Sum lyfin eru mjög þung og hafa hliðarverkanir þannig að margir sjúklingar vilja helst ekki taka þau," segir Alevtína. "Ef þeir koma ekki á berklamiðstöðina fer ég með lyfin heim til þeirra og sé til þess að þeir taki þau."

Hún þarf að fara í sjö til tíu slíkar heimsóknir á hverjum degi, þótt vetrarkuldinn smjúgi í gegnum merg og bein. "Þetta er erfitt starf en þetta er eina leiðin til að vinna bug á berklum," segir Alevtína.

Meðferðin sem beitt er í Tomsk er samkvæmt svokölluðum DOTS-staðli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, en DOTS stendur fyrir Directly Observed Treatment Short Course). Samkvæmt því fá sjúklingar ekki að taka lyfin sjálfir í einrúmi heldur er fylgst með því að þeir taki þau og klári lyfjakúrinn. Til þess að hvetja sjúklinga til þess að hætta ekki við í miðju kafi fá þeir gjarnan smávægilega mataraðstoð, en hún kemur gjarnan frá Rauða krossinum.

Annað stórverkefni, sem ekki skyldi vanmeta, er að auka meðvitund almennings um útbreiðslu sjúkdómsins. Fyrir alþjóðlegan stuðning, þar á meðal frá Íslandi, er búið að prenta veggspjöld og gera útvarpsauglýsingar með berklavarnaboðskap. Deildir rússneska Rauða krossins vítt og breitt um landið dreifa síðan fræðsluefninu. Á einum stað er jafnvel búið að setja upp leikrit um baráttu Rauða krossins gegn berklum. Fræðsluherferðin er skipulögð til fimmtán ára, enda ljóst að hún þarf að vara lengi ef von á að vera um áþreifanlegan árangur.

Fangelsi gróðrarstía berkla

Hvergi er berklavandamálið jafn stórbrotið og samanþjappað og í fangelsum gömlu Sovétríkjanna. Af einni milljón fanga í Rússlandi er talið að 100 þúsund hafi berklabakteríuna í líkama sínum. Á síðasta ári fjölgaði dauðsföllum vegna berkla í fangelsum um þriðjung frá árinu á undan. Í venjulegu fangelsi má sjá sex manns í klefa sem væri fyrir einn á Íslandi. Sums staðar er ástandið miklu verra. Hreinlæti er stundum verulega ábótavant, fangaverðir skeytingarlausir um hag fanganna og óskrifaðar reglur um samskipti fanganna harðneskjulegar.

Valdajafnvægið í dæmigerðu fangelsi skiptir föngunum í fjóra hópa. Efst tróna foringjarnir (blatniye), sem eru harðnaðir atvinnuglæpamenn. Meirihluti fanganna tilheyrir almenningi (muzhiki), en það eru smáglæpamenn og aðrir sem engin völd hafa. Litið er niður á fanga sem reynast fangelsisyfirvöldum samvinnuþýðir (kozly) en í neðsta þrepi eru hinir ósnertanlegu (petukhi) sem hafa fengið dóma fyrir kynferðisglæpi. Hver sem brýtur gegn óskrifuðum reglum þessa stéttakerfis fer sjálfkrafa niður í neðsta þrep og er þá kominn upp á náð og miskunn þeirra sem fyrir ofan eru - en hvort tveggja er sjaldfundið.

Þessi stéttaskipting skiptir máli fyrir útbreiðslu berkla vegna þess að foringjarnir hafa hagsmuni af því að koma sínu fólki í berklameðferð og fá þannig aðgang að betri meðferð og verðmætum lyfjum. Sendifulltrúar Rauða kross Íslands sem starfað hafa á vegum Alþjóða Rauða krossins við berklavarnir í fangelsum í Kákasusfjöllum segja ótrúlegar sögur af tilburðum fanga til þess að fara á svig við meðferðina. Algengast er að menn fái lánuð hrákasýni - annaðhvort til þess að sýnast ósýktir ef þeir eiga skammt í að losna úr fangelsi eða til þess að sýnast sýktir og komast þannig í meðferð - eða að þeir reyni að komast hjá því að gleypa lyfin. Þessar pillur eru ígildi peninga í fangelsunum og með þeim borga fangar skuldir sínar eða múta foringjunum eða fangavörðum. Þess vegna er stór hluti af starfi sendifulltrúa við berklavarnir í fangelsum að fylgjast nákvæmlega með því að fangar á lyfjakúr taki raunverulega pillurnar, og þá duga oft engin vettlingatök.

Berklar eru algengasta dánarorsök í fangelsum gömlu Sovétríkjanna. Yfirleitt má rekja 50-80 prósent dauðsfalla til berkla. Það er einnig í fangelsum sem fjölónæmir berklastofnar myndast. Í fangelsum í Baku í Aserbadsjan reyndist fjórði hver fangi sem tekinn var í berklameðferð vera ónæmur fyrir algengustu lyfjum.

Meðferð tekur langan tíma

Berklameðferð tekur langan tíma og sjaldgæft er að föngum sé haldið inni vegna meðferðarinnar ef þeir eiga rétt á lausn. Fangi sem losnar í miðri meðferð hverfur í fjöldann þegar út er komið og ef hann klárar ekki lyfjakúrinn er ver af stað farið en heima setið. Árið 1999 var meira en eitt þúsund föngum með smitandi berkla sleppt lausum í Voronezh-héraði Rússlands. Næsta sumar hækkuðu opinberar tölur yfir berklasmit meðal almennings í Voronezh um 150 prósent.

Á alþjóðlega berkladeginum í fyrra heimsóttu blaðamenn og fulltrúar hjálparfélaga hið illræmda Matrosskaya Tishina-fangelsi í Moskvu. Við það tækifæri sagði yfirmaður fangelsismála í Rússlandi, Alexander Koronets höfuðsmaður: "Fangelsi okkar eru eins og hringhurð - krossgötur fyrir allt landið og miðpunktur berklafaraldursins.

Hvað er hægt að gera?"

Á hverju ári greinast upp undir 150 þúsund ný berklatilfelli í Rússlandi. Sérfræðingar eru sammála um að taka muni áratugi að vinna bug á berklum í Rússlandi og öðrum löndum gömlu Sovétríkjanna. Fyrir marga þeirra sem eru sýktir er baráttan þegar töpuð því þeim verður ekki bjargað. En með samstilltu átaki allra þeirra sem koma að berklavörnum - og aðstoð frá Vesturlöndum - er von til þess að farsóttin verði á endanum kveðin niður.

Fyrir vestrænar þjóðir ætti sjálfsbjargarhvötin að duga til að rétta hjálparhönd, burtséð frá því hversu mikinn samhug menn hafa með grönnum í sárri neyð. Ónæmir berklastofnar eru þegar farnir að gera vart við sig í Bandaríkjunum og Evrópu, ekki hvað síst á Norðurlöndum.

"Börnin okkar horfast nú í augu við sömu farsótt og ógnaði lífi afa okkar og ömmu," segir Mogens Thiim, formaður danska lungnasjúkdómafélagsins. "Munurinn er sá að nú höfum við vísindalega þekkingu til að hefta þessa farsótt. Hvernig mun sagan dæma okkur ef við notum ekki þau meðul sem eru fyrir hendi?"

Þeir sem vilja leggja baráttunni gegn berklum í Rússlandi lið geta lagt fram fé á bankareikning Rauða kross Íslands, sem er 1151 26 12 (kt. 530269 2649) eða skuldfært framlag á greiðslukort á vefnum www.redcross.is. Munið að merkja framlagið "Berklar í Rússlandi".