Saga Kongó er blóði drifin og á það ekki síður við um síðustu áratugina en nýlendutímann. Á myndinni ávarpar Laurent Kabila liðsmenn sína. Myndin var tekin 1997 þegar Kabila var leiðtogi skæruliða sem börðust gegn stjórnvöldum í Zaire eins og Kongó nefndis
Saga Kongó er blóði drifin og á það ekki síður við um síðustu áratugina en nýlendutímann. Á myndinni ávarpar Laurent Kabila liðsmenn sína. Myndin var tekin 1997 þegar Kabila var leiðtogi skæruliða sem börðust gegn stjórnvöldum í Zaire eins og Kongó nefndis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ýmsir telja að Leopold II Belgíukonungur eigi heima í hópi mestu illmenna sögunnar. Ásgeir Sverrisson segir frá bók um ævi konungsins og arðránið og kúgunina sem hann bar ábyrgð á í Kongó.

ÁN járnbrautar er Kongó einskis virði." Þetta mat breska landkönnuðarins og blaðamannsins Henrys Morton Stanley átti eftir að reynast rétt; auðurinn sem Kongó hafði að geyma varð trauðla fluttur á brott með öðru móti. En til þess að unnt reyndist að leggja járnbraut varð að hneppa innfædda í þrældóm og sá gjörningur vafðist ekki fyrir Leopold II Belgíukonungi.

Leopold II (1835-1909) var maður vel gefinn, slægur og einstaklega gráðugur. Þessir eiginleikar mótuðu alla framgöngu hans er hann ákvað að leggja undir sig risastór landsvæði í Mið-Afríku. Þá sögu segir skoski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Neil Achersons í þessari fróðlegu bók, The King Incorporated - Leopold the Second and the Congo.

Einkaeign konungs

Takmark Leopolds II var ekki hefðbundin útþenslustefna því konungurinn braut ekki Kongó undir Belgíu til að nýta landið á þann veg sem hefð var fyrir um nýlendur Evrópuríkja. Til varð Fríríkið Kongó (État Indépendant du Congo) sem var 80 sinnum stærra en Belgía. Þetta ríki, sem síðar varð Belgíska Kongó (1908-1960), Lýðveldið Kongó (1960-1964), Zaire (1971-1997) og loks Lýðveldið Kongó á ný, varð í raun eign konungsins með því arðráni og kúgun sem því fylgdi. Og vitanlega var landið lagt undir hvíta manninn til að "villimennirnir" fengju loks að kynnast "siðmenningunni" og njóta ávaxta hins óhefta framtaks.

Þannig var nýlenduránið yfirleitt réttlætt með tilvísun til "mannúðar".

Enginn veit með vissu hversu mörg mannslíf arðrán Leopolds II í Kongó kostaði. Sjálfur auðgaðist hann ævintýralega á brölti sínu í Afríku og fjármunina faldi hann á hugvitsamlegan hátt í ótalmörgum félögum, fyrirtækjum og sjóðum. Græðgin rak hann áfram en jafnframt taldi konungurinn að hann gæti aukið skriðþunga sinn gagnvart þingi með því að hafa úr nægum fjármunum að spila. Leopold II átti oft erfitt með að sætta sig við þingið sem komið var á fót eftir að Belgía hlaut sjálfstæði 1830. Hann hafði oftar en ekki aðrar hugmyndir en þingheimur en ákafastar urðu þó deilurnar þegar frásagnir af grimmdarverkum og hamslausu arðráni í Kongó tóku að berast til Evrópu.

Helvíti á jörð

Arðránið fólst einkum í skefjalausri gúmmívinnslu og útflutningi á fílabeini. Menn konungsins beittu bæði klækjum og hótunum til að brjóta innfædda undir sig. Allri þjóðfélagsgerðinni var í raun snúið á hvolf. Komið var á sérstöku "skattkerfi" sem gerði íbúana í raun að þrælum. Þeim var ætlað að uppfylla vissan "kvóta" og var konum og börnum gjarnan haldið í gíslingu til að tryggja að auðæfin skiluðu sér. Refsingum var beitt uppfylltu innfæddir ekki skyldur sínar; fjöldamorð voru framin og aðstæðum íbúanna breytt í helvíti á jörð.

Auðinn nýtti konungurinn á margvíslegan veg. Hann og fjölskylda hans lifðu í vellystingum og stór hluti þeirra gríðarlegu upphæða, sem arðránið gaf af sér, var nýttur til fjárfestinga í Belgíu og víðar. Konungurinn var ekki einungis gráðugur og slægur, hann var einnig nautnabelgur hinn mesti, hélt hjákonur og gat tvö börn með þeirri síðustu sem hann gekk raunar að eiga fáeinum dögum fyrir andlát sitt.

Svo fór að lokum að Leopold II var neyddur til að gefa eftir þetta krúnudjásn sitt og Kongó var innlimað í Belgíu 1908. Stjórnmálamennirnir, sem að þeim gjörningi stóðu voru almennt lítt hrifnir af því að Belgía eignaðist svo stóra og vanþróaða nýlendu. Hugsunin var mun fremur sú að taka landið úr höndum konungsins.

Takmörkuð frumvinna

Saga Leopolds II og Kongó er skilmerkilega rakin í bók Neil Achersons, sem er sérfróður um málefni þessa heimshluta. Bók þessi kom fyrst út 1963 en var endurútgefin fyrir tveimur árum. Acherson fer ekki dult með andúð sína á persónu og framferði konungsins og höfundur fullyrðir í formála að Belgar hafi enn ekki gert upp við þessa fortíð þjóðarinnar. Þvert á móti sé konungurinn frekar haldinn í hetjuhópi fyrir la mission civilisatrice eða "siðmenningarviðleitni" sína í Kongó. Acherson fer nærri því að líkja framgöngu konungs Belga við útrýmingu þýskra nasista á gyðingum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar og segir "slátrunina" í Kongó í hópi viðurstyggilegustu glæpa mannsandans.

Frumvinna er lítil á bakvið bókina, hún er fremur samsafn heimilda. Á köflum hefur þetta fyrirkomulag í för með sér að frásögnin verður of hæg og aukaatriði renna saman við aðalatriði. Auðvelt er að missa þráðinn þegar höfundur lýsir flóknum og lævísum aðferðum Belgíukonungs bæði til að fela auðinn og fá viðurkenningu helstu ríkja Evrópu á framferði sínu í Kongó. Jafnframt skortir nokkuð á að tæmandi yfirlit yfir glæpaverkin og stuldinn á þjóðarauðnum sé að finna í þessari bók Achersons en þar um er þó að finna fjölmargar heimildir. Fyrir vikið fjarlægist lesandinn viðfangsefnið sem þó var æði framandi fyrir.

Skrautlegu einka- og fjölskyldulífi konungsins er hins vegar gerð góð skil og bókin er vissulega fallin til að dýpka skilning á nýlendustefnunni og þeim lygum og blekkingum sem beitt var til að fela græðgina, arðránið og kúgunina.

Fríríkið Kongó var einungis til í 23 ár en það hafði mikil áhrif á íbúa Afríku. Þjóðernissinnar í álfunni nýttu sér óspart grimmdarverkin til að æsa innfædda upp gegn nýlenduherrunum og leppum þeirra. Leopold II Belgíukonungur nýtur þess vafasama heiðurs að verða enn um langa hríð tengdur öllu því versta sem nýlendustefnan gat af sér; við þá hugmyndafræði að hinn sterki og ríki megi nýta sér fátækt og ógæfu annarra.

Og sú sýn til meðbræðra og umhverfis heyrir víst ábyggilega ekki sögunni til.

The King Incorporated - Leopold the Second and the Congo. Þessi pappírskilja gefin út af Granta Books í Lundúnum árið 1999. 310 blaðsíður. Verð í Eymundsson-Pennanum 1.975 kr.