Fjölmennt var á ársfundi Landspítala - háskólasjúkrahúss í gær. Að fundinum loknum undirrituðu menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra, rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss samstarfssamning  milli LSH og Háskóla Íslands.
Fjölmennt var á ársfundi Landspítala - háskólasjúkrahúss í gær. Að fundinum loknum undirrituðu menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra, rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss samstarfssamning milli LSH og Háskóla Íslands.
HÁSKÓLI Íslands og Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) hafa gert með sér samning sem gildir til fimm ára um samstarf við kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum.

HÁSKÓLI Íslands og Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) hafa gert með sér samning sem gildir til fimm ára um samstarf við kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Í samningnum er skilgreind samvinna og hlutverk hvors aðila í formlegu samstarfi stofnananna.

Mun samningurinn hafa í för með sér miklar breytingar á stjórnun og skipulagi varðandi fræðslu og þjálfun háskólamenntaðra heilbrigðisstétta. Skýrara fyrirkomulagi verður komið á um samstarf LSH og Háskólans við rannsóknir og kennslu á heilsbrigðissviði, að sögn forsvarsmanna LSH.

Tímamótasamningur

Björn Bjarnason menntamálaráðherra, Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, Magnús Pétursson, forstjóri LSH, og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu samninginn að viðstöddum fjölda starfsmanna og gesta í lok ársfundar Landspítalans í gær.

Við það tækifæri lýstu ráðherrar og forsvarsmenn LSH og Háskólans honum sem tímamótasamningi sem hefði mikla þýðingu fyrir samstarf þessara stofnana og uppbyggingu heilbrigðisvísinda á Íslandi. Vísindastarfið yrði best eflt með samvinnu þessara stofnana.

Skuldbindandi samningar um starfsmenn og starfsaðstöðu

Á grundvelli samningsins verða gerðir skuldbindandi samningar um sameiginlega starfsmenn, starfsaðstöðu og fjármál, auk þess sem verklagsreglur verða settar um einstaka þætti. Samningurinn er fyrsti hluti heildarsamnings um kennslu, rannsóknir og þjálfun í heilbrigðisvísindagreinum sem kenndar eru við Háskóla Íslands og stundaðar á LSH. Er ætlunin að samningagerð verði að fullu lokið fyrir 1. desember næstkomandi.

Markmið samningsins er að efla spítalann sem háskólasjúkrahús, þannig að fræðileg og verkleg menntun og kennsla heilbrigðisstétta á Íslandi verði sambærileg því besta sem gerist á hliðstæðum stofnunum erlendis. Háskólinn og LSH munu fara hvor um sig með málefni sinnar stofnunar en samningsaðilar eru sammála um að semja nánar um sameiginlega ráðningu starfsmanna, sameiginlegan rekstur kennsluhúsnæðis og aðra aðstöðu til kennslu og rannsókna, aðstöðu kennara og stúdenta, sameiginleg innkaup á tækjum og gögnum, sameiginleg rannsóknarverkefni o.fl.

Forstjóri LSH velur framvegis sviðsstjóra á sjúkrahúsinu

Samningurinn nær til yfirstjórna hvorrar stofnunar og samstarfshátta þeirra í milli. Viðurkennt er forræði forstöðumanna fræðigreina, þ.e. kennara í Háskólanum á sinni fræðigrein á sjúkrahúsinu en í samningnum er einnig kveðið á um að framvegis mun forstjóri LSH velja sviðsstjóra á spítalanum og eru þeir ábyrgir gagnvart framkvæmdastjórn. Til að undirbúa valið skipar forstjóri þriggja manna nefnd til að fjalla um mögulega sviðsstjóra. Háskólinn gerir formlegar akademískar hæfiskröfur til þeirra sem til greina koma í stöður sviðsstjóranna.

Er hér um nýmæli að ræða en skv. eldri lögum um Háskólann voru prófessorar við læknadeild jafnframt forstöðumenn einstakra sviða á Landsspítalanum. Framvegis munu því sérfræðingar sem gegna embættum við læknadeild Háskólans ekki sjálfkrafa taka við stjórnunarstöðum yfir einstökum sviðum á sjúkrahúsinu.

Magnús Pétursson, forstjóri LSH, segir einn meginkost samningsins þann að í honum sé kveðið með skýrum hætti á um hvernig stjórnunarhlutverkinu skuli háttað og hver stýri einstökum sviðum sjúkrahússins. Allt stjórnunarfyrirkomulag verði skýrara og skipulagðara. Þannig muni yfirstjórn spítalans framvegis hafa með höndum meiri yfirrráð yfir einstökum sviðum spítalans en verið hefur og í samræmi við nútíma stjórnunarhætti.

"Það hefur verið talað um þetta í áratugi en ég hef alltaf sagt, allt frá fyrsta degi í mínu starfi, að ég gæti ekki stýrt þessari stofnun nema ég fengi að ráða yfir yfirmönnun spítalans," segir hann.

Að sögn Magnúsar mun samstarfssamningurinn einnig skerpa skyldur og samskipti á milli stofnananna, og háskólakennurum sköpuð aðstaða á sjúkrahúsinu á grundvelli mun skýrara fyrirkomulags en verið hefur.

Mikil vinna hefur farið fram við undirbúning samstarfssamningsins, en bráðabirgðaákvæði háskólalaganna frá 1999 gerir ráð fyrir að samkomulag milli þessara stofnana skuli gert innan tveggja ára frá gildistöku laganna.

Sett verður á stofn sameiginleg nefnd sem mun móta og fjalla um sameiginlega stefnu LSH og Háskólans, sameiginlegar stöður og starfsmenn o.fl. Þrír fulltrúar hvors aðila eiga sæti í nefndinni og eru háskólarektor og forstjóri LSH þar í forsæti.