Sæþór Þorbergsson og Steinunn Helgadóttir hafa tekið við rekstri Narfeyrarstofu, sem er til húsa í gömlu húsi í miðbæ Stykkishólms.
Sæþór Þorbergsson og Steinunn Helgadóttir hafa tekið við rekstri Narfeyrarstofu, sem er til húsa í gömlu húsi í miðbæ Stykkishólms.
NÝIR eigendur hafa tekið við rekstri kaffihússins Narfeyrarstofu í Stykkishólmi. Það eru hjónin Steinunn Helgadóttir og Sæþór Þorbergsson sem eru fædd og uppalin í Hólminum.

NÝIR eigendur hafa tekið við rekstri kaffihússins Narfeyrarstofu í Stykkishólmi. Það eru hjónin Steinunn Helgadóttir og Sæþór Þorbergsson sem eru fædd og uppalin í Hólminum. Kaffihúsið var opnað fyrir um ári síðan og er til húsa í Narfeyrarhúsi við hlið gömlu kirkjunnar.

Miklar endurbætur voru þá gerðar á húsinu þegar veitingarekstur var hafinn. Á efri hæð hússins er íbúð, en nýir eigendur ætla sér að opna þangað upp og stækka veitingasalinn. Lögð verður áfram áhersla á rekstur kaffihúss, en auk þess verður boðið upp á einfalda rétti þar sem sjávarafurðir úr Breiðafirði verða mikið notaðar í matargerðina. Sæþór er hagvanur í eldhúsinu því hann er kokkur að mennt og hefur starfað mikið á hótelinu í Stykkishólmi.

Þau líta björtum augum til framtíðar og ætla sér að bjóða upp á góða þjónustu í vinalegu umhverfi á Narfeyrarstofu. Narfeyrarstofa verður opin daglega í sumar frá kl. 11 til 24 og um helgar til kl. 3 að nóttu.

Í miðbænum í Stykkishólmi eru starfræktir 3 veitingastaðir svo það ætti ekki vera vandkvæðum bundið fyrir bæjarbúa sem ferðamenn að fara út að borða eða fá sér kaffi.