Kleifabúinn, í "öryggisklæðnaði", fylgist með nýbyggingu þjóðvegarins.
Kleifabúinn, í "öryggisklæðnaði", fylgist með nýbyggingu þjóðvegarins.
Í SUMAR er verið að leggja lokahönd á fyrsta hluta nýbyggingar þjóðvegarins yfir Kleifaheiði í Vestur-Barðastrandarsýslu.

Í SUMAR er verið að leggja lokahönd á fyrsta hluta nýbyggingar þjóðvegarins yfir Kleifaheiði í Vestur-Barðastrandarsýslu. Þá hefur verið unnið að vegfyllingum niður af heiðinni Barðastrandarmegin, en þar færist vegurinn niður í Mikladal og tengist síðan inn á brúna yfir Haukabergsá.

Sá kafli sem lokið verður við í sumar nær frá botni Ósafjarðar og upp að Kleifabúa. Áætlað er að ljúka við veginn yfir á Barðaströnd haustið 2002, en þá verður komið bundið slitlag úr Vatnsfirði og vestur í þéttbýlisstaðina á sunnanverðum Vestfjörðum. Er þessi framkvæmd á Kleifaheiði kærkomin samgöngubót fyrir íbúa á svæðinu.

Meðan á framkvæmdum stendur hefur Kleifabúinn verið klæddur plasti, en að sögn Rögnvaldar Árnasonar hjá Norðurtak ehf, sem vinnur verkið, var það varúðarráðstöfun vegna sprenginga sem unnið var að skammt frá. Átti plastið að "halda utan um" Kleifabúann til þess að hann hryndi síður.

Kleifabúi er varða reist af mönnum úr vegavinnuflokki Kristleifs Jónssonar árið 1947 og stendur rétt við þjóðveginn í vestanverðri Kleifaheiði. Einar Einarsson og Guðjón Jóhannesson hlóðu vörðuna en Kristján Jóhannesson bjó til höfuðið. Á skilti við vörðuna er þessi vísa, ort af Kristleifi Jónssyni:

Hátt á bergi Búi stendur,

býður sína traustu mund,

horfir fyrir heiðarlendur

hár og þögull alla stund.