JÓHANNA Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, hefur fengið í hendur umbeðnar fjárlagatillögur lögreglustjórans í Reykjavík, eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðuneytinu væri óheimilt að synja þingmanninum...

JÓHANNA Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, hefur fengið í hendur umbeðnar fjárlagatillögur lögreglustjórans í Reykjavík, eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðuneytinu væri óheimilt að synja þingmanninum um gögnin.

Þingmaðurinn hefur nú skoðað tillögur lögreglustjórans og segir að samkvæmt þeim komi í ljós að fjöldi starfandi lögreglumanna í Reykjavík sé langt undir þeim öryggismörkum sem lögreglustjóri hafi sett árið 1999. Þá hafi hann talið að 303 lögreglumenn þyrfti til að halda uppi æskilegri þjónustu við borgarbúa en starfandi lögreglumenn séu nú um 253. Þá hafi yfirvinna lögreglumanna í Reykjavík dregist saman um 25% frá 1998.

Þá segir Jóhanna að 15 lögreglumenn hafi verið færðir yfir til embættis ríkislögreglustjóra frá því stjórnstöð lögreglunnar í Reykjavík var flutt til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Með það í huga sé ljóst að nú vanti um 35 lögreglumenn til að halda uppi lágmarksþjónustu við borgarbúa og um 70 lögreglumenn þurfi til að halda uppi æskilegu þjónustustigi.

Alvarleg ógn við umferðar- öryggi í höfuðborginni

Jóhanna segir að samkvæmt gögnum lögreglustjóraembættisins megi álykta að 100 milljóna króna raunhækkun þurfi á framlagi til embættisins til að halda uppi lágmarksþjónustu. Þá megi ætla að 150 milljónir þurfi því til viðbótar til að halda uppi því æskilega þjónustustigi, sem bent hafi verið á í gögnum lögreglustjórans í Reykjavík. Þá sé ekki gert ráð fyrir verðlagsbreytingum eða halla sem embættið glími við.

Einnig segir Jóhanna að fjöldi íbúa á bak við hvern lögreglumann hafi breyst mjög á umliðnum árum. Þannig hafi verið 402 íbúar á lögreglumann í Reykjavík árið 1998 en samkvæmt áætlun verði 490 íbúar á lögreglumann í Reykjavík á þessu ári. Það sýni ljóslega hve dregið hafi úr þjónustu lögreglunnar við höfuðborgarbúa vegna niðurskurðar sem lögregluembættið í Reykjavík hafi þurft að sæta. Jóhanna bendir á að bifreiðum hafi fjölgað gríðarlega og hættuástand skapist iðulega vegna umferðaröngþveitis á háannatíma í höfuðborginni.

"Niðurskurður á framlagi til lögreglunnar er því alvarleg ógn við umferðaröryggi, sem eykur verulega slysahættu. Það er hrollkaldur veruleiki að meðan borgarbúar þurfa á meira öryggi að halda vegna þeirra breytinga sem orðið hafa í umferðinni skuli sífellt vera beitt niðurskurðarhnífnum," segir Jóhanna.