F.h. Ágústa Snæland og Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns, með bréf úr safni Ágústu Svendsen, ömmu Ágústu Snæland.
F.h. Ágústa Snæland og Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns, með bréf úr safni Ágústu Svendsen, ömmu Ágústu Snæland.
Augusta, eða Ágústa, Svendsen var frumkvöðull kvenna í verslunarrekstri í Reykjavík. Ágústa Snæland segir hér Guðrúnu Guðlaugsdóttur frá minningum sínum um þessa langömmu sína, en hún afhenti Kvennasögusafninu bréfasafn Ágústu Svendsen fyrir skömmu.

KVENNASÖGUSAFNIÐ móttók fyrir skömmu bréfabunka sem Ágústa Snæland hafði fengið frá ættingjum sínum í Danmörku og innihélt fjölmörg bréf sem amma hennar Augusta Svendsen kaupkona hafði skrifað Sophie dóttur sinni frá árinu 1874 og meðan báðar lifðu. Augusta eða Ágústa varð ung ekkja. Hún átti tvö börn fyrir og neyddist til þess að gefa þessa dóttur sína nýfædda til ættleiðingar en tók upp samband við hana þegar hún var á fermingaraldri.

Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns, hefur flokkað þessi bréf og hyggst sækja um styrk til þess að gefa þau út.

"Ágústa Svendsen er fyrsta kaupkonan í Reykjavík, samkvæmt bestu heimildum," segir Auður. "Hún rak verslun í Reykjavík frá árinu 1887. Hún hafði ári áður komið til Íslands frá Kaupmannahöfn ásamt Henriettu Louise dóttur sinni sem þá nýlega hafði giftst Birni Jenssyni sem var kennari við Reykjavíkurskóla. Ágústa hóf að versla í smáum stíl í þakherbergi við Bankastræti en árið 1903 keypti hún Aðalstræti 12 og í því reisulega húsi, sem var kjallari og tvær hæðir, hafði hún verslun á fyrstu hæð en í rúmgóðri íbúð bjuggu dóttir hennar og maður hennar með sjö börn sín.

Verslun Ágústu hét Refill og þar seldi hún efni í íslenska búninginn. Eldri konur hér í bæ muna vel eftir þessari verslun því dóttir Ágústu og síðar dótturdóttir ráku hana áfram allt til fram undir 1950.

Í bréfum Ágústu til Sophie eru ekki bara fréttir af fjölskyldunni og systkinum Sophie heldur líka lífi hennar sem kaupkonu í Reykjavík. Hún biður í bréfunum Sophie að kaupa hitt og þetta fyrir sig í Danmörku sem hún átti erfitt með að ná í og sendir henni peninga fyrir vörunum.

Til dæmis er eitt stórskemmtilegt bréf þar sem allt snýst um hatt sem Ágústa þarf að fá fyrir kaupanda í Reykjavík. Hún gefur dóttur sinni ráð um hvernig hún eigi að finna hattinn og ná í hann.

Ágústa varð ekkja aðeins 27 ára gömul. Maður hennar Hendrik Henckel Svendsen var íslenskur í föðurætt en átti danska móður. Hann rak verslun á Djúpavogi í félagi við danskan mann og var ekkjumaður er hann kvæntist Ágústu. Hann dó 1862 úr barnaveiki og var þá verslunin gjaldþrota að sögn hins danska félaga hans. Ágústa var í Kaupmannahöfn með börnin þegar maður hennar lést, en þau höfðu þá öll dvalið þar í nokkur misseri. Hin nýfædda Sophie var ættleidd, sonurinn Viggó fór í fóstur til föðurbróður síns og Ágústa fór með eldri dótturina Louise til Ísafjarðar til Lárusar Snorrasonar bróður síns, sem var kaupmaður þar. Þar kenndi Ágústa hannyrðir sem hún hafði ung lært. Hún stofnaði skóla fyrir stúlkur ásamt Sigríði konu Ásgeirs Ásgeirssonar, kaupmanns á Ísafirði. Ágústa fór eftir mörg ár með Lárusi bróður sínum til Kaupmannahafnar þar sem hann gifti sig danskri konu. Þá setti Ágústa á stofn matsölu þar í borg.

Eftir að Louise dóttir Ágústu gifti sig sem fyrr greindi og flutti til Íslands áttu þær mæðgur og eiginmaður Louise fyrst heimili í húsnæði Menntaskólans í Reykjavík og Ágústa fór að reka verslun sem fljótlega gekk mjög vel.

Líklega hafa það helst verið ógiftar konur sem voru við verslunarrekstur á þessum tíma í Reykjavík. Tengdasonur Ágústu lést 1904 og voru barnabörn hennar þá á aldrinum þriggja til sextán ára. Við lát Björns tók Ágústa að sér að sjá um heimilið þótt hún væri þá orðin um sjötugt. "Hún greiddi allar skuldir búsins og klæddi okkur öll," segir dótturdóttir hennar Ágústa Thors í frásögn sem hún skrifaði um ömmu sína og móður.

Verslun Ágústu virðist hafa gengið vel. Hún keypti vörur inn frá útlöndum, hún seldi mest efni en saumaði líka sjálf og hafði konur til að sauma fyrir sig svuntur, slifsi og fleira. Efnin keypti hún frá Þýskalandi og Frakklandi og keypti bara gæðaefni. Hún stóð alltaf í skilum og fékk því mjög góða þjónustu. Þess má geta að

Ágústa Svendsen og dóttir hennar Louise bjuggu um tíma í Austurstræti þar sem var Ísafoldarprentsmiðja.

Mér finnst þessi bréf Ágústu Svendsen afar spennandi heimildir sem athyglisvert er að raða saman og sjá hvernig líf hennar hefur verið.

Það kemur vel fram í bréfunum að Ágústa hefur verið mjög atorkusöm, áhugasöm og hefur lítið þurft að sofa. Meðal bréfa Ágústu eru líka mörg bréf frá Louise sem hún skrifar Sophie systur sinni.

Ég hef sem fyrr sagði mikinn áhuga á að þessi bréf verði gefin út. Þau eru á mjög skiljanlegu máli og það er ekki erfitt að lesa þau þótt þau séu öll skrifuð á dönsku. Ágústa skrifaði bréfin sín héðan á vorin og haustin enda voru þá helst skipaferðir til Danmerkur.