HARALDUR Örn Ólafsson sjötindafari, gekk á fjórða tindinn af sjö í sjötindagöngu sinni er hann gekk á hæsta tind Ástralíu, Kosciuszko (2.228 m) á sunnudag. Tindurinn er í Snowy Mountains, um 400 kílómetra suður af Sydney.
HARALDUR Örn Ólafsson sjötindafari, gekk á fjórða tindinn af sjö í sjötindagöngu sinni er hann gekk á hæsta tind Ástralíu, Kosciuszko (2.228 m) á sunnudag. Tindurinn er í Snowy Mountains, um 400 kílómetra suður af Sydney. Haraldur lagði upp frá þorpinu Thredbo við rætur fjallsins og var strekkingsvindur á göngunni, hálfskýjað og 10 stiga hiti. Gangan tók 3 klukkustundir. Hann gekk á tindinn í stað Carstensz Pyramid, hæsta tinds Eyjaálfu en hvor um sig er viðurkenndur sem einn hátindanna sjö. Haraldur er engu að síður staðráðinn í að klífa Carstensz, sem hann varð að sleppa vegna ólgu í landinu fyrir skemmstu. Hann bindur vonir við að það geti orðið í febrúar, áður en hann leggur á Everest.

Ástralski tindurinn er sá lægsti og auðveldasti í tindaröðinni og hefur Haraldur nú gengið á alla tindana í auðveldari kantinum, Kilimanjaro, Elbrus og Kosciuszko. Hann hóf sjötindagönguna hins vegar með uppgöngu á Denali í Alaska sem er næst erfiðasta fjallið.

Mjög mun reyna á Harald í viðureign hans við næstu þrjú fjöll, þ. á m. hið ískalda Vinson Massif á Suðurskautslandinu (4.897 m), sem hann klífur nú í desember gangi áætlanir eftir.