Frystitogarinn Snorri Sturluson RE hefur nú verið seldur til Ísfélags Vestmannaeyja.
Frystitogarinn Snorri Sturluson RE hefur nú verið seldur til Ísfélags Vestmannaeyja.
GRANDI hf. og Hvalur hf. gerðu í gær með sér samning um að Grandi kaupi af Hval frystitogarann Venus HF 519 og þær aflaheimildir sem skipinu eru tengdar, en þær eru um 2.900 þorskígildistonn. Kaupverðið er samtals 1.621,5 milljónir króna.
GRANDI hf. og Hvalur hf. gerðu í gær með sér samning um að Grandi kaupi af Hval frystitogarann Venus HF 519 og þær aflaheimildir sem skipinu eru tengdar, en þær eru um 2.900 þorskígildistonn. Kaupverðið er samtals 1.621,5 milljónir króna. Ennfremur hafa Grandi hf. og Ísfélag Vestmannaeyja hf. samið svo um, að Ísfélagið kaupi af Granda frystitogarann Snorra Sturluson RE 219 ásamt aflaheimildum í karfa og úthafskarfa, sem eru 1.045 tonn þorskígilda. Söluverðið er 878,4 milljónir króna og skal það greitt með hlutafjáraukningu í Ísfélaginu. Eignarhlutur Granda verður 11,5% og verður fyrirtækið þannig annar stærsti hluthafi Ísfélagsins. Samkvæmt báðum samningum eru kaupin og þar með afhending eigna miðuð við byrjun árs 2002.

Að sögn Brynjólfs Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Granda hf., næst með þessum viðskiptum betra samræmi milli aflaheimilda Granda og veiðigetu skipa félagsins. Hann segir að Venus HF verði áfram gerður út en aflaheimildir skipsins samanstandi af þorsk-, karfa- og grálúðukvóta, auk þess sem skipinu fylgi 0,5% loðnukvótans, einn síldarkvóti og um 2.000 tonna úthafskarfakvóti.

Brynjólfur segir að Grandi hafi allt frá árinu 1992 keypt hlutafé í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum og átt í samstarfi við þau. Auk þess að eiga nú eignarhlut í Ísfélagi Vestmannaeyja á Grandi auk þess eignarhluti í Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf., Þormóði ramma-Sæbergi hf. á Siglufirði, Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. í Ísafjarðarbæ og Haraldi Böðvarssyni hf. á Akranesi. Þá á Grandi sjávarútvegsfyrirtækið Faxamjöl hf. í Reykjavík.

Með kaupunum á Snorra Sturlusyni RE er Ísfélagið komið í frystitogaraútgerð í fyrsta skipti í sögu félagsins, sem varð 100 ára í síðustu viku. Snorri Sturluson RE og Venus HF eru áþekk skip, bæði smíðuð á Spáni árið 1973 og hefur báðum skipum verið breytt töluvert, þau m.a. verið lengd og skipt um aðalvélar í þeim.