Ólafur Ólafsson
Ólafur Ólafsson
Lífeyrisþegar hafa krafist þess, segir Ólafur Ólafsson, að tekið sé mið af kaupmætti lágmarkslauna verkamanna.
SAMKVÆMT lögum frá 1998 eiga bætur almannatrygginga að breytast í samræmi við þróun launa, en hækka þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Lífeyrisþegar hafa krafist þess að tekið sé mið af kaupmætti lágmarkslauna verkamanna. Á samráðsfundum fulltrúa ellilífeyrisþega og ráðherranefndar hafa ráðamenn fallist á að lífeyrisgreiðslur yrðu í samræmi við þær kröfur, enda sanngjarnt. Nokkrar deilur hafa risið um þessi hlutföll og hafa ráðamenn birt aðrar tölur en komið hafa fram hjá fulltrúum ellilífeyrisþega. Eins og oft vill verða á Íslandi eyða menn mestum tíma í deilur um staðreyndir. Líkt og veðurfræðingar deildu í hverjum veðurfarstíma um hvort vænta mætti norðangarra eða sunnangolu!

Sannleikurinn

Nú hefur sannleikurinn opinberast með ársskýslu Tryggingastofnunar ríkisins fyrir árið 2000, en stofnunin sér um greiðslur ellilífeyris og er því best í stakk búin til að reikna réttar tölur og hlutföll.

Eins og sjá má þar hefur kaupmáttarvísitala lágmarkslauna verkamanna hefur á sl. sex árum aukist um 30-50% (fer eftir eingreiðslum) en kaupmáttarvísitala lífeyrisgreiðslna aukist um 10-12%. Ekki hafa stjórnmálamennirnir staðið við samkomulagið.

Niðurstöður TR koma algjörlega heim og saman við tölur ellilífeyrisþega, er þeir hafa borið á borð allt frá dögum fyrir síðustu kosningu.

Forsætisráðherra, sem er raunsær maður, viðurkenndi okkar tölu fyrir nokkru. En lítið hefur gerst.

Ellífeyrisþegar sætta sig ekki við þessa þróun. Tæp 40% ellilífeyrisþega búa við greiðslur er ekki ná lágmarksframfærslu. (Skýrsla Ríkisskattstjóra 2000.)

Ánægjulegt er að vita að samkvæmt nýlegri könnun PricewaterhouseCoopers eru yfir 92% þjóðarinnar á aldrinum 18-89 ára jákvæð gagnvart baráttu ellilífeyrisþega fyrir bættum kjörum og yfir 62% jákvæð gagnvart framboði lífeyrisþega.

Ef úrbætur nást ekki fram er líklegt að lífeyrisþegar neyðist til að leiðrétta þetta óréttlæti í kjörklefanum og gætu jafnvel náð í "oddamann" hér og þar.

Framkvæmdastjórn, stjórn og kjaranefnd FEB hafa skipst á skoðunum um þessi mál. Ákveðið var að hugsa málið.

Höfundur er formaður FEB og fyrrverandi landlæknir.