EINAR Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, upplýsti á Alþingi í gærkvöldi að ekki væri unnt að gera nákvæma og sundurliðaða grein fyrir kostnaði vegna útboðs- og einkavæðingarverkefna ríkisstjórnarinnar fyrr...
EINAR Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, upplýsti á Alþingi í gærkvöldi að ekki væri unnt að gera nákvæma og sundurliðaða grein fyrir kostnaði vegna útboðs- og einkavæðingarverkefna ríkisstjórnarinnar fyrr en sala ríkisfyrirtækja hefði farið fram. Þess vegna taldi hann svar forsætisráðuneytisins, sem barst fjárlaganefnd í gærkvöldi, fullnægjandi.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær brást stjórnarandstaðan á Alþingi ókvæða við á mánudag þegar forsætisráðuneytið hafnaði því að útskýra í hvað liður á frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2001, upp á 300 milljónir kr. vegna útboðs- og einkavæðingarverkefna, fæli nánar í sér. Forsætisráðuneytið samþykkti hins vegar í gær að upplýsa nánar um forsendur þessarar fjárheimildar gegn því að fjárlaganefnd gengist undir trúnað þar sem um væri að ræða viðkvæmar viðskiptaupplýsingar.

Um er að ræða sölu hlutafjár ríkissjóðs í fimm fyrirtækjum, Landssíma Íslands, Landsbankanum, Búnaðarbanka, Stofnfiski og Íslenskum aðalverktökum.

Hlé gert í gærkvöldi vegna aukafundar fjárlaganefndar

Hlé var gert á langri umræðu um frumvarp til fjáraukalaga á Alþingi í gærkvöldi eftir að umrætt svar frá forsætisráðuneytinu barst til þess að fjárlaganefnd gæti farið yfir efni þess. Þegar fundi var fram haldið, á tíunda tímanum í gærkvöldi, kvaddi Einar Már Sigurðarson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, sér hljóðs og sagði svar ráðuneytisins allsendis ófullnægjandi. Ekkert í efni þess réttlætti þá leynd sem krafist hefði verið, en hann myndi þó virða þann trúnað sem hann hefði gengist undir. Bætti hann við að formaður fjárlaganefndar, Ólafur Örn Haraldsson, þingmaður Framsóknarflokks, væri sammála sér um það að svarið væri ekki fullnægjandi og hann hafi sagst myndu beita sér fyrir nánari skýringum.

Ekki unnt að gefa upp frekari sundurliðun fyrr en eftir sölu

Einar Oddur Kristjánsson svaraði því þá til að svar forsætisráðuneytisins væri fullnægjandi að sínu viti þar sem sala umræddra ríkisfyrirtækja hafi ekki farið fram og frekari sundurliðun sé ekki unnt að gefa fyrr en sölulaun hafi verið reiknuð út frá prósentu af andvirði sölu fyrirtækjanna. Að sjálfsögðu væri ekki unnt að gefa nánari upplýsingar um söluþóknun en þar væri um að ræða almenn lögmál sem nú giltu á markaði.