Kristín Lára Friðjónsdóttir hefur rannsakað upplifun íslenskra mæðra eftir fyrirburafæðingu.
Kristín Lára Friðjónsdóttir hefur rannsakað upplifun íslenskra mæðra eftir fyrirburafæðingu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mæður fyrirbura verða oft af mikilvægum sálrænum undirbúningi fyrir móðurhlutverkið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn íslensks vísindamanns. Jóhanna K. Jóhannesdóttir kynnti sér rannsóknina.

KRISTÍN Lára Friðjónsdóttir segir áhuga sinn á viðfangsefninu hafa vaknað eftir þá reynslu sem hún öðlaðist í starfi sínu á íslenskum leikskólum en upplifun íslenskra mæðra af fyrirburafæðingu er meginviðfangsefni rannsóknar- og útskriftarverkefnis hennar í sérkennslufræðum við Óslóarháskóla. "Það sýndi sig ítrekað að foreldrar barna, sem höfðu fæðst fyrir tímann, óskuðu eftir aðstoð við að bæta boðskiptin við barnið sitt. Þetta gilti bæði um börn án sýnilegrar ytri fötlunar og börn með alvarlegar þroskatruflanir. Börn fædd fyrir tímann, sem ekki voru fötluð, þurftu einnig oft meiri athygli frá starfsfólki en jafnaldrar þeirra," segir Kristín og bætir við að foreldrar hafi einnig oft lýst yfir vanmætti og þreytu gagnvart barni sínu.

"Í þeim tilfellum sem barn var alvarlega fatlað varð ég hins vegar vör við viðkvæmni foreldranna þegar þau ræddu um boðskiptin eða samveruna með barninu sínu. Þetta beindi sjónum mínum að spurningu um hvernig foreldrar barna sem fæðast mikið fyrir tímann upplifa tímabilið þegar barnið er ungbarn."

Kristín segir markmið rannsóknarinnar vera að dýpka skilning á aðstæðum og stuðningsþörfum foreldra og barna eftir fyrirburafæðingu.

Spurningalistar voru lagðir fyrir mæður þar sem þær voru meðal annars spurðar um hvernig upplifun það hefði verið að eignast barn sem var fyrirburi og hvers konar stuðningsþarfir mæður fyrirburabarna þyrftu.

Fyrirburafæðing setur spor sín á móðurhlutverkið

Barn sem fæðist fyrir 37. meðgönguviku telst vera fyrirburi eða fætt fyrir tímann. Spurningar Kristínar takmörkuðust fyrst og fremst við mæður sem eignuðust barn sem vó minna en 1.500 grömm við fæðingu en flest barna í þessum hópi fæðast fyrir 28. meðgönguviku. Meðgangan er oft innan við sex mánuðir og móðir og barn verða af síðustu þremur mánuðum meðgöngunnar.

Niðurstöður rannsóknarinnar varpa að sögn Kristínar ljósi á þörfina fyrir að styrkja sjálfstraust mæðra sem eignast barn fyrir tímann og einnig að styrkja þegar í byrjun samsömun þeirra við móðurhlutverkið. Þar geta aðferðir sem hafa það að markmiði að styðja við samband móður og barns skipt miklu máli.

"Þó að úrtak rannsóknarinnar sé einungis sex mæður sem fylgst var með um árs skeið endurspeglast ýmis blæbrigði í frásögnum þeirra. Reynsla mæðranna af að eignast barn fyrir tímann hafði sett spor sín á móðurhlutverk þeirra auk þess að hafa bein áhrif á lífsviðhorf þeirra, þær missa af þriðjungi meðgöngunnar og eru svo óttaslegnar um líf barnsins síns þegar það er fætt," segir Kristín og segir nauðsynlegt að setja hugtakið "stuðning" í brennidepil. "Það þyrfti að veita miklu meiri stuðning í víðu samhengi sem gildir almennt um þarfir fyrir handleiðslu, verklega hjálp, eða tilfinningalegan stuðning eftir fæðinguna og mánuðina sem fylgja," segir Kristín og segir verulegar úrbætur þurfa á þessu sviði því þótt aðstæður séu yfirleitt mjög góðar á íslenskum sjúkrahúsum skorti starfsfólk og aðbúnað til að sinna nauðsynlegri fræðslu og stuðningi vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem fyrirburaforeldrar lenda í - óvænt og með litlum fyrirvara.

"En það er ekki bara inni á sjúkrahúsunum sem þarf að bæta aðstöðuna heldur vantar líka skilning inn í allt samfélagið á því hvað það felur í sér að eignast svona barn."

Áfallahjálp fyrir fyrirburamæður

Það fylgir því alvarlegt áfall að fæða barn fyrir tímann og eignast fyrirbura. Undirbúningur fyrir móðurhlutverkið hefst fyrir alvöru þegar kona uppgötvar að hún er ófrísk. Líkami hennar breytist mikið á meðgöngunni, en biðtíminn eftir barninu og svo fæðingin felur einnig í sér miklar breytingar á daglegu lífi, tilfinningum og sjálfsmynd. Mikilvægur sálrænn undirbúningur fyrir móðurhlutverkið fer því fram á þessum níu mánuðum meðgöngunnar og segir Kristín að við barnsfæðinguna fæðist einnig fullburða foreldri.

"Fyrirburamóðir fær ekki tíma til að þroska með sér innri tilfinningu fyrir að vera móðir, hún er kannski bara komin sex mánuði á leið og langur tími í áætlaðan fæðingardag en svo er hún allt í einu komin í móðurhlutverkið - allt of snemma. Það er því hægt að segja að þær séu líka fæddar fyrir tímann, það er þær eru ekki andlega undirbúnar fyrir nýtt hlutverk og hafa ekki samsamað sig móðurhlutverkinu.

Á síðustu þremur mánuðum meðgöngunnar verður barnið svo raunverulegt og allur praktískur undirbúningur, svo sem fatakaup og annað slíkt, fyrir fæðinguna fer fram. Hjá fyrirburamóður gerist allt svo snöggt, hún er jafnvel bara í vinnunni þegar hún fær hríðir og allt í einu er fætt barn. Fæðingin sjálf verður þá líka oft klínísk og jafnvel óraunveruleg þar sem hún fer fram á skurðstofu, mamman fellur í skuggann af læknunum, hún missir öll völd og oft sjálfstraustið í leiðinni.

Mæður sem eignast svona mikla fyrirbura skilja sig ekki á nokkurn hátt frá öðru fólki sem verður fyrir alvarlegu áfalli. Þær hefðu þurft áfallahjálp og tilboð um áframhaldandi stuðning til að vinna úr reynslunni sem fylgir þessum atburði. Hjálp af þessu tagi er ekki veitt íslenskum mæðrum fyrirbura en flestar mæðranna í rannsókninni óskuðu eftir möguleika á stuðningi og sambandi við aðra foreldra sem hafa verið í svipuðum sporum. Ég skil ekki af hverju þessar mæður fá ekki áfallahjálp því áfall þeirra er sömu tegundar og þegar fólk lendir í hamförum og slysum, þetta er barnið þeirra sem er að berjast fyrir lífi sínu inni í litlum kassa," segir Kristín og segir það erfitt umhverfi fyrir fyrirburamæður að byrja móðurhlutverkið á vökudeild fæðingadeilda þar sem þær hafa takmarkaðan aðgang að barninu og eðlileg meðhöndlun barnsins er ómöguleg. Sakir þess hversu veikbyggt barnið er er það ekki móðirin sem tekur að sér umönnun barnsins heldur annast læknar og aðrir sérfræðingar allar þarfir þess.

"Strax á meðgöngu fylgist samfélagið með ófrískri konu, fólk talar um hvað kúlan vex og barnið sparkar og fylgist þannig með þroska og vexti barnsins. Við eðlilega barnsfæðingu tekur móðirin strax völdin og veit hvað er barninu fyrir bestu. Hún lærir öll smáatriðin um umönnunina strax. Fyrirburamæður missa af þessari upplifun, þær fæða barn sitt eftir mjög stutta meðgöngu og fá svo ekki næði til að annast barnið sjálfar fyrr en eftir nokkrar vikur og jafnvel mánuði. Fyrirburamæður lýsa vanmætti og að þær sem mæður hafi haft þá tilfinningu að þær gætu ekkert gert fyrir barnið heldur væru það aðrir sem öxluðu ábyrgðina á lífi þess."

Kristín segir að auk þess að geta ekki hugsað um barn sitt sé það einnig mikið áfall fyrir marga fyrirburaforeldra hversu fyrirburar geta á margan hátt verið ólíkir fullburða börnum í útliti. Handleggir og fótleggir eru oft mjög grannir og húðin getur jafnvel verið þakin fíngerðu hári.

"Húðin er svo þunn að hún er næstum gegnsæ. Útlit fyrirburans er í mörgum tilfellum ekki í samræmi við væntingar foreldranna um nýfætt barn, og þau bregðast stundum við með ótta eða reiði, þar sem allir vilja auðvitað eignast stórt og heilbrigt barn og ímyndin um draumabarnið og fyrirburann stangast á. Draumurinn breytist því þegar barnið fæðist löngu fyrir áætlaðan fæðingardag og foreldrarnir eru hvergi nærri undir það búnir að takast á við áfallið heldur berjast við nagandi ótta um líf barnsins sem hangir oft á bláþræði."

Fyrstu vikurnar eftir fæðingu eru fyrirburarnir í hitakassa. Foreldrarnir geta ekki haldið á barninu en fá að snerta það í gegnum göt á hitakassanum. Í samtölum Kristínar við fyrirburamæðurnar kom skýrt fram hversu tilfinningalega erfitt þetta ástand var fyrir mæðurnar. Tvær kvennanna sögðu að á meðan börn þeirra voru í hitakassa og þær gátu því ekki haldið á þeim hefðu þær upplifað að þær sem mæður væru hjálparlausar og gætu ekki gert neitt fyrir barn sitt. Samtímis fannst þeim þær ekki passa inn í umhverfi vökudeildarinnar. Þrjár mæðranna sögðu hitakassann hafa haft áhrif á tengslamyndun sína við börn sín og fannst aðskilnaðurinn hafa truflandi áhrif á myndun tilfinningatengsla.

Eftir mislanga dvöl í hitakassa fá foreldrar að halda á barni sínu í fyrsta sinn. Tíminn sem líður frá fæðingu að fyrsta faðmlagi er mislangur frá barni til barns og miðast við að ástand þess hafi náð jafnvægi og sé orðið stöðugt áður en það getur farið, þó ekki sé nema skamma stund, úr hitakassanum. Mæðurnar í rannsókninni áttu það allar sameiginlegt að hafa upplifað sterkar tilfinningar þegar þær fengu fyrst að halda á börnum sínum, tilfinningar sem spönnuðu allan skalann frá gleði yfir í ofsahræðslu.

"Í frásögnum þeirra er óttinn við að eitthvað komi fyrir barnið ríkasta tilfinningin. Þegar tekið er tillit til þess að mæðurnar hafa óttast um líf barna sinna frá fæðingu þá hafa þær haft mikla þörf fyrir að tala um reynslu sína því það er svo mikilvægur hluti í bataferlinu að fá að tjá sig um upplifanir sínar. Það er aldrei hægt að fjarlægja sársaukann en það er hægt að vera með þeim og styðja þær og styrkja í gegnum bataferlið."

Hægt að fyrirbyggja hegðunarvandamál í frumbernsku

Fyrir um 25 árum voru uppi mjög lífseigar kenningar um að tengsl milli móður og barns mynduðust á fyrstu mínútunum eftir barnsfæðinguna þegar barnið væri lagt á brjóst móður sinnar. Þessar fyrstu mínútur áttu tengsl að myndast sem væru nauðsynleg svo að allur frekari þroski yrði eins og best væri á kosið. Fyrirburar sem voru strax settir undir læknishendur og í hitakassa áttu þar af leiðandi að verða af þessari dýrmætu stund þegar sjálf móðurástin átti að fæðast.

"Það var aðeins ein rannsókn sem ýtti undir þessar kenningar en langtímarannsóknir sem hafa verið gerðar síðan sýna fram á að þetta er bara mýta - goðsögn. Móðir tengist barninu sínu með boðskiptum, það er snertingu, augnsambandi, hjali og þess háttar. Málið er að fyrirburar eiga oft erfitt með að sýna þessi viðbrögð og þeir eru seinni að ná sambandi við umhverfi sitt. Það verður því að kenna foreldrum og aðstandendum fyrirburans sérstaklega að læra að þekkja viðbrögð barnsins, bros og svipbrigði, því þau eru oft svo veik. Þessi kennsla skiptir máli því hún auðveldar foreldrum að kynnast barninu sínu."

Rannsóknarniðurstöður Kristínar sýna þörf fyrir snemmtækt stuðningstilboð þar sem sjónum er beint bæði að foreldrum og barni. Með tilboði af þessu tagi er meðvitað stuðlað að þróun gæðaríks samspils og samveru með barninu.Þetta á við á meðan barnið er á sjúkrahúsinu en einnig eftir heimkomu.

"Óvissan sem ríkir um þroska og framtíðarhorfur fyrirbura eykur þörf fyrir snemmtæk íhlutunartilboð þar sem lögð er áhersla á að foreldrar fái handleiðslu við að veita börnum sínum viðeigandi og mátulega mikla örvun. Rannsóknir gefa sterklega til kynna að tilboð af þessu tagi sé mikilvægt þegar til lengri tíma er litið til að ná bestum mögulegum þroska hjá börnum," segir Kristín og vísar til nýrra langtímarannsókna á þroskaferli fyrirbura sem sýna fram á aukna tilhneigingu fyrirbura til að eiga við hegðunarvandamál eins og athyglisbrest og ofvirkni að stríða í skólagöngu. Hún bendir þó á að langflest þeirra barna sem fæðast fyrir tímann ná eðlilegum þroska og samskiptahæfileikum en í samfélagi þar sem um 4% allra barna greinast með ofvirkni er þetta mál sem vert er að líta til.

"Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að fyrirburar eru hópur sem er í áhættu gagnvart alls kyns þroskakvillum. Nýjar rannsóknir sýna að ef gripið er í taumana nógu snemma og foreldrarnir studdir dyggilega með sérstökum fókus á samspil foreldra og barna virðist það vera mjög jákvætt fyrir þessi börn sem hafa tilhneigingu til að eiga við námserfiðleika að stríða. Það er ábyrgðarhluti samfélagsins að koma betur inn í þessi mál. Með því að grípa snemma inn í mál fyrirbura með meiri stuðningi, handleiðslu og betri aðbúnaði þegar eftir fæðingu má fyrirbyggja eða minnka alls kyns þroskaörðugleika og samkvæmt því spara heilbrigðiskerfinu og um leið samfélaginu háar fjárhæðir seinna meir þegar þessi börn koma inn í skólakerfið. Það er því hagkvæmt að hjálpa til frá upphafi til að fyrirbyggja vandamál framtíðarinnar."

jkj@mbl.is