* DAVID Ginola, knattspyrnumaður hjá Aston Villa, gæti átt yfir höfði sér allt að sex leikja bann eftir að hann veittist að Clive Wilkes sem gegndi starfi fjórða dómara í leik Villa gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni á laugardag.
* DAVID Ginola, knattspyrnumaður hjá Aston Villa, gæti átt yfir höfði sér allt að sex leikja bann eftir að hann veittist að Clive Wilkes sem gegndi starfi fjórða dómara í leik Villa gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni á laugardag. Ginola fékk að líta rauða spjaldið fyrir að sparka í Dennis Wise leikmann Leicester. Á leiðinni til búningsherbergja átti franski leikmaðurinn eitthvað vantalað við Wilkes og að auki á Ginola að hafa klappað Wilkes lauslega á kinn.

* STOKE City er nú með danskan bakvörð í láni, en hann æfir með liðinu í nokkra daga. Leikmaðurinn heitir Ulrich Vinzents og er 25 ára gamall. Hann hefur leikið með Lyngby í heimalandi sínu. Mikael Hansson , hægri bakvörður Stoke , er meiddur og óvíst hvenær hann verður klár í slaginn á nýjan leik.

* RÍKHARÐUR Daðason leikur sinn fyrsta opinbera leik með Stoke á þessu tímabili í dag en hann spilar þá með varaliðinu gegn Darlington . Ríkharður hefur verið frá keppni í fjóra mánuði og gengist undir tvær aðgerðir á hné. Hann spilaði í hálftíma í æfingaleik gegn Crewe í síðustu viku.

* PETER Thorne, fyrrum aðal markaskorari Stoke , rétti sínum gömlu félögum hjálparhönd með því að skora eitt marka Cardiff í 3:1 sigri á Brentford í ensku 2. deildinni í gærkvöld.

* HELGI Valur Daníelsson og félagar í Peterborough féllu í gærkvöld út úr bikarkeppni ensku neðrideildaliðanna þegar þeir töpuðu, 2:1, fyrir Bristol City í framlengdum leik. Helga Val var skipt af velli að loknum venjulegum leiktíma.

* FILIPPO Inzaghi framherji AC Milan gengst undir aðgerð á vinstra hné í dag en kappinn meiddist í leik AC Milan og Chievo um síðustu helgi. Talið er Inzaghi verði frá keppni og æfingum næstu þrjá mánuði.

* MARKUS Babbel , þýski varnarmaðurinn í herbúðum Liverpool, leikur líklega ekkert á þessu tímabili. Babbel hefur lítið getað leikið með Liverpool á leiktíðinni vegna vírussjúkdóms og nú hefur komið í ljós að veirusýkingin hefur leitt til þess að bólgur hafa myndast í taugakerfinu. Babbel er kominn til ´Þýskalands þar sem hann freistar þess að fá bót meina sinna.

* BETRI frétt úr herbúðum Liverpool er sú að knattspyrnustjórinn Gerard Houllier mætti á sína fyrstu æfingu hjá liðinu í fyrrakvöld frá því hann gekkst undir hjartaaðgerð 13. október. Frakkinn hefur braggast mjög eftir aðgerðina og kemur aftur til starfa í upphafi nýs árs.

* BRAD Miller , miðherji Chicago Bulls í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik, hefur verið sektaður um 800 þúsund krónur. Miller reiddist í leik liðsins við Philadelphia og sparkaði í stól sem þeyttist inn í raðir áhorfenda og lenti á einum þeirra. Sá slapp við meiðsli og ætlar ekki að leggja fram kæru.

* RONALD Koeman fékk óskabyrjun sem þjálfari hollenska knattspyrnufélagsins Ajax í gærkvöld, Koeman tók við liðinu á mánudag en forveri hans, Co Adriaanse , var látinn taka pokann sinn í síðustu viku. Ajax mætti Fortuna Sittard í úrvalsdeildinni í gærkvöld og vann stórsigur, 4:0. Ajax náði með þessu eins stigs forystu í deildinni en næsta lið, Feyenoord , á leik til góða.

* ZLATAN Ibrahimovic, sænskur sóknarmaður, kom inn á sem varamaður hjá Ajax gegn Fortuna Sittard og skoraði tvö markanna.

* AÐALFUNDUR Evrópusambands ólympíunefnda (EOC) verður haldinn hér á landi í desember á næsta ári. Þetta var samþykkt á aðalfundi EOC sem lauk í Monte Carlo um helgina. Fundurinn verður sá umfangsmesti á sviði íþrótta sem fram hefur farið hérlendis. Júgóslavar sóttu um að halda fundinn að ári en Ísland hafði betur í atkvæðagreiðslu.