Er ekki allt í lagi? ÉG LAS frétt á bls. 4 í Morgunblaðinu 28. nóv. sl. Þar kemur fram að það hafi orðið eignaspjöll á bifreið sem unglingar í Hagaskóla voru að fremja. Öllu alvarlegra er að lesa að fólk hafi slasast en ...

Er ekki allt í lagi?

ÉG LAS frétt á bls. 4 í Morgunblaðinu 28. nóv. sl. Þar kemur fram að það hafi orðið eignaspjöll á bifreið sem unglingar í Hagaskóla voru að fremja.

Öllu alvarlegra er að lesa að fólk hafi slasast en ... ég held áfram að lesa og kem að því að ein mamman ætli að kæra manninn (sem var að verja eign sína) fyrir að hafa nefbrotið son sinn.

Ég segi nú bara: Er ekki allt í lagi? Mitt álit er það að þessi sonur hafi fengið mátulega refsingu fyrir að ráðast á eignir annarra. Ef hlutir, dýr eða fólk eru ekki örugg á götum úti fyrir ömurlegum unglingum sem láta öllum illum látum eiga foreldrar ekki að vorkenna þeim afleiðingar gjörða þeirra.

Foreldrar. Takið ykkur nú taki og refsið börnum ykkar fyrir hegðun og gjörðir sem hafa alvarleg áhrif á aðra og ekki síst þau sjálf.

Ein í forvörnum.

Enn um seðilgjald Símans

UM miðjan síðasta mánuð sendi ég fyrirspurn hér í Velvakanda til Símans varðandi 95 krónu seðilgjald sem notendum er gert að greiða, en jafnframt tekið fram að eftirlaunaþegar gætu sótt um að verða undanþegnir því ef þeir óskuðu þess. Fyrirspurn minni varðandi þetta hefur ekki verið svarað, sem sennilega er eðlilegt því það er erfitt að rökstyðja hvers vegna ekki er látið eitt yfir alla eftirlaunaþega ganga og þeir undanþegnir þessu án þess að þurfa að sækja sérstaklega um það. Auk þess er ég búin að hringja oft út af þessu og er vísað á einhverja Maríu, en þar er alltaf á tali og aldrei hægt að ná sambandi.

Nú er ég búinn að fá annan reikning með þessu gjaldi og sætti mig ekki við svona vinnubrögð lengur. Það minnsta sem hægt er að fara fram á er að Síminn svari hvers vegna svona vinnubrögð eru viðhöfð. Það ættu að vera hæg heimatökin að svara þar sem fyrirtækið er nú með sérstakan blaðafulltrúa til slíkra starfa.

Eftirlaunaþegi.

Dagur sjálfboðaliða Rauða krossins

Í DAG, 5. desember, er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða Rauða krossins. Á Íslandi er fjöldi fólks í líknarstörfum á vegum Rauða krossins í frítíma sínum og án launa. Það eru sjálfsboðaliðarnir, fólkið sem er tilbúið að gefa af sér fyrir aðra. Af störfum þeirra metur Rauði krossinn hvað mestan styrkinn en margbreytilegri starfseminni er skipt í flokka eða deildir. Eitt af mörgum mannúðarverkefnum var stofnun Vinalínunnar fyrir tæpum tíu árum en hún er til að létta undir með fólki á öllum aldri. Gera því mögulegt að hringja í manneskju sem það getur treyst þegar erfiðleikar eru þrúgandi. Allir vita hvað gott er að geta deilt áhyggjum sínum og oft óraunhæfum vandræðum með velviljuðu fólki sem tekur af heilum hug þátt í hugrenningum manns. Sjálfboðaliðar eru þau sem hætta lífi sínu í stríðshrjáðum löndum þar sem mannslíf og þar með þeirra líf eru lítils metin, þar sem áfallahjálp er víðsfjarri en hvergi nauðsynlegri, þar sem sjúkdómar, örbirgð og fáfræði sker í hjartað. Rauði krossinn er stoltur af sínu fólki og óskar því til hamingju með daginn og það gerir þjóðin eflaust líka.

Albert Jensen.

Lyklakippa í óskilum

LYKLAKIPPA með sjö lyklum fannst í Garðabæ á föstudagskvöld. Uppl. í síma 5656526.

Vindjakki týndist

SVARTUR Adidas-vindjakki með hettu fauk frá svölum í Stóragerði í síðustu viku. Hans er sárt saknað. Uppl. í síma 6986554.