8.-10. bekkur sýndi Gretti eftir þá Egil Ólafsson, Ólaf Hauk Símonarson og Þórarin Eldjárn.
8.-10. bekkur sýndi Gretti eftir þá Egil Ólafsson, Ólaf Hauk Símonarson og Þórarin Eldjárn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LEIKLIST og söngur voru í hávegum höfð á árshátíð Hafralækjarskóla í Aðaldal, en þar sýndu nemendur allra bekkja listir sínar í sviðinu í félagsheimilinu Ýdölum.
LEIKLIST og söngur voru í hávegum höfð á árshátíð Hafralækjarskóla í Aðaldal, en þar sýndu nemendur allra bekkja listir sínar í sviðinu í félagsheimilinu Ýdölum.

Að þessu sinni var hátíðin tileinkuð rithöfundunum Sigrúnu Eldjárn og Þórarni Eldjárn, en hefð er fyrir því að taka fyrir ákveðin bókmenntaverk á árshátíðinni og túlka þau á ýmsan hátt fyrir samkomugestum.

Þemaviku um verk þeirra systkina var nýlokið þar sem nemendur lásu upp úr bókum, skrifuðu texta, léku leikrit, gerðu búningar, sungu og spiluðu. Hápunktur þeirrar viku var heimsókn Sigrúnar Eldjárn sem las fyrir yngra fólkið og spjallaði við eldri nemendur. Hún lýsti því hvernig það væri að vera myndlistarmaður og rithöfundur og hvernig hún ynni starf sitt. Að þessari þemaviku lokinni var kominn grunnur að veglegri samkomu þar sem foreldrar gátu séð árangurinn af starfinu.

Dagskráin hófst með ávarpi formanns nemendafélagsins, Sigurðar Óla Guðmundssonar, sem rakti það helsta sem gerst hefur á skólaárinu. Að því loknu hófst skemmtidagskrá með söng 1. bekkjar á Talnavísum eftir Þórarin við tónlist sem samin var af 8. bekk undir leiðsögn Roberts Faulkners tónlistarkennara. Þá söng 2.-3. bekkur Bókaorminn í viðeigandi búningum og einnig sungu krakkarnir Hó, hó við lag og ljóð Soffíu Vagnsdóttur.

4. og 5. bekkur leikgerðu Völuspá í þýðingu Þórarins og 6. og 7. bekkur voru með viðamikla kynningu á bókmenntaverkum og æviatriðum þeirra Sigrúnar og Þórarins.

8.-10. bekkur sýndi Gretti eftir þá Egil Ólafsson, Ólaf Hauk Símonarson og Þórarin Eldjárn, en ekki er hægt að segja annað en að frammistaða hinna ungu leikara hafi fengið mjög góðar viðtökur.

Á árshátíðinni var sýning á verkum nemenda úr þemavikunni og einnig var fullorðnum samkomugestum boðið upp á kaffi.

Í lokin var svo stiginn dans við undirleik hljómsveitar Illuga langt fram yfir miðnætti.