Ragnheiður Gestsdóttir
Ragnheiður Gestsdóttir
Ragnheiður Gestsdóttir. Mál og menning, 2001. 189 s.
SUNNA er vel gefin og vel gerð stúlka á allan hátt. Henni gengur vel í námi og hún á góða fjölskyldu og góða vini. En hún hefur kannski ekki nógu mikið sjálfstraust og þegar Biggi, sætasti strákurinn í bekknum, sýnir henni áhuga, þá tekur sælutilfinningin yfirhöndina. Þau eyða einni nótt saman. Að morgni er hann horfinn og Sunna situr eftir með tilfinningar óraunveruleikans. Brátt kemur í ljós að hún er ófrísk, sextán ára, rétt að byrja í framhaldsskóla.

Sagan er öll skrifuð úr hugarheimi Sunnu sjálfrar, hún metur aðstæður, lýsir tilfinningum sínum gagnvart allri fjölskyldunni, nánustu vinum og síðast en ekki síst gagnvart sjálfri sér. Hún upplifir allan tilfinningaskalann allt frá reiði gagnvart því að hafa verið svona auðtrúa og vitlaus og þess að hún vill hún ekki trúa því að innra með henni sé í raun og veru að vaxa nýtt líf. En barnið er staðreynd og við fylgjumst með meðgöngunni og fæðingu barnsins. Meðgangan gengur ekki alveg áfallalaust og vanmáttur og hræðsla ungrar stúlku sem upplifir þetta allt - öllu er lýst af einstöku næmi og smekkvísi.

Persónulýsingarnar í bókinni eru með eindæmum góðar. Það er enginn fordæmdur eða ásakaður, foreldrarnir eru sýndir sem skilningsríkt fólk og eftir að fyrsta áfallið er yfirstaðið og þau gera sér grein fyrir hvernig í öllu liggur, þá styðja þau við bakið á dóttur sinni eins vel og þau geta. Afi og amma eru líka skilningsrík og bekkjarsystkinin bregðast við af skynsemi.

Viðbrögð Bigga þegar hann hefur frétt hvernig í öllu liggur og heimsókn hans á fæðingardeildina eru mjög sannfærandi og góð lýsing á því hvernig 16 ára strák líður þegar hann sér barnið sitt í fyrsta sinn, barn sem hann vissi ekki einu sinni að hann ætti fyrr en mjög skömmu fyrir fæðinguna! Sagan um Sunnu er ákaflega vel gerð. Höfundur þræðir hinn gullna meðalveg, sagan er aldrei með neinum ásökunartóni, enginn er fordæmdur og allir veita Sunnu þá hjálp sem þeir geta. Lýsingin á því þegar Sunna er að mynda tilfinningatengsl við þetta litla líf sem er að vaxa innra með henni er mjög fallega gerð og ekki síður viðbrögð Sunnu þegar hún er búin að fæða dóttur og er að hugsa um hvað hún eigi að láta barnið heita.

Ég velti því fyrir mér þegar ég hafði lesið þessa bók hvort hún hefði getað verið skrifuð í öðru samfélagi en því íslenska. Ég er ekki viss um að nánasta fjölskylda ungrar "fallinnar" stúlku hefði tekið þessu á þann veg sem hér er lýst. Þetta er góð bók og vel skrifuð og er sannarlega kærkomin viðbót við íslenskar unglingabækur.

Sigrún Klara Hannesdóttir