Sigríður Valdemarsdóttir fæddist í Fremri-Arnardal við Skutulsfjörð 14. maí 1904. Hún lést á Landspítala, Landakoti, 10. nóvember síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkjunni 21. nóvember.

Elsku Sigga.

Ég skrifa um þig því þú áttir sérstakan stað í hjarta mínu. Þú varst sérstök.

Þegar ég var lítil varstu bara gömul kona sem talaðir mikið um óskiljanlega ættfræði við fullorðna fólkið, horfðir á Derrick og kallaðir mig Hrund Óladóttur Ýr. Ég man vel eftir símtalinu sem breytti þessari skoðun minni. Ég var menntskælingur, ein heima, límd fyrir framan sjónvarpið, en neyddist til að svara símanum. Talið barst að skólagöngu fyrr og nú og þú sagðir svo skemmtilega frá þegar þú og Hannibal kennduð sitt hvorum bekknum í barnaskólanum á Ísafirði. Það var ekki hægt annað en að verða hugfanginn og vilja heyra meira. Ég fékk líka að heyra meira, þú hafðir frá nógu að segja frá þínum yngri árum og frá Íslandssögunni.

Ég var heppin að ná að kynnast þér meira þegar ég var í Háskólanum, svo þegar ég flutti til Noregs var alltaf tekið frá kvöld í hverju fríi til að heimsækja þig.

Elsku Sigga, takk fyrir allan stuðning sem þú hefur veitt mér. Styrkurinn úr Menningarsjóði vestfirskrar æsku, sem þú bentir mér á að sækja um, kom sér vel í peningaleysi sem oft fylgir námi erlendis. Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, sögurnar og myndirnar. Ef það er einhver sem ég vil líkjast þegar ég verð gömul, þá er það þú.

Kveðja,

Hrund Óladóttir Ýr.

Við fáum ekki allar okkar óskir uppfylltar í lífinu, en getum þó lagt okkar af mörkum við að uppfylla óskir annarra. Það gerði hugsjónakonan Sigríður Valdemarsdóttir.

Með stofnun minningarsjóðs um foreldra sína, Menningarsjóðs vestfirskrar æsku, hefur Sigríður lagt mörgum lið í lífsbaráttunni. Úr honum var veitt á ári hverju til ungmenna sem voru í námi, höfðu misst föður eða móður og ættaðir voru af Vestfjörðum. Meira en tvö hundruð ungmenni hafa þegið styrk úr þessum sjóði.

Ég vil þakka Sigríði fyrir það hugsjónastarf sem fólst í að halda þessum sjóði lifandi. Ég vil þakka fyrir hönd þeirra ungmenna sem þáðu styrki úr þessum sjóði, og þar á meðal tvö af börnum mínum. Ég þakka henni vináttu síðustu fimmtán ára. Hún var hafsjór af fróðleik og stálminnug á atburði liðinnar aldar. Stutt spjall við Sigríði varð alltaf að eins til tveggja tíma umræðu.

Blessuð sé minning hennar.

Urður Ólafsdóttir.

Hrund Óladóttir Ýr.