Skyrgámur á ferð um bæinn í nýjum og fínum fötum.
Skyrgámur á ferð um bæinn í nýjum og fínum fötum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EINAR Júlíusson söngvari er heima í Keflavík um jólin eins og oftast áður. Jólasveinninn Skyrgámur hefur mikið að gera, margir vilja fá hann á jólaskemmtanir. Einar segir að það hafi búið í sér jólasveinn alla ævi.

EINAR Júlíusson söngvari er heima í Keflavík um jólin eins og oftast áður. Jólasveinninn Skyrgámur hefur mikið að gera, margir vilja fá hann á jólaskemmtanir. Einar segir að það hafi búið í sér jólasveinn alla ævi.

Einar hefur sungið sig inn í hjörtu landsmanna í gegnum tíðina og heillað börn og fullorðna í áraraðir sem jólasveinninn Skyrgámur. Hann hefur átt viðburðaríka ævi og var meðal annars einn stofnenda Hljóma. Hann er nú búsettur í Bandaríkjunum ásamt þarlendri konu sinni.

Stofnaði Hljóma

"Fyrsta hljómsveitin sem ég söng í var Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, en ég gekk til liðs við hana árið 1959," segir Einar þegar hann er beðinn um að rifja upp söngferilinn. "Þar léku ýmsir góðir og þekktir tónlistarmenn, svo sem Þórir Baldursson, Rúnar Georgsson og Engilbert Jensen sem söng þar um tíma. Ellert Eiríksson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, var framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar og hélt mjög vel utan um allt, eins og hans er von og vísa," segir Einar.

Við fórum þrjú ár í röð til Siglufjarðar að spila við lok síldarævintýra, árin 1960-1962. Síðasta árið kynntist ég fyrri konunni minni, Ólöfu Hafdísi Ragnarsdóttur, og ári síðar, þegar ég var gestasöngvari hjá hljómsveitinni Gautum hófum við samband okkar. Hún flutti til Reykjavíkur um haustið og við trúlofuðum okkur upp úr því og giftum okkur svo 1966. Við eignuðumst saman fjórar yndislegar dætur, en svo lést hún árið 1995, eftir árs baráttu við krabbamein."

Einar hætti í hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar árið 1963, en þá var Gunnar Þórðarson farinn að spila með þeim: "Ég spurði Gunnar hvort hann væri ekki til í að stofna með mér hljómsveit ásamt einhverjum jafnöldrum okkar og upp úr því voru Hljómar stofnaðir. Ég hafði þó ekki leikið með þeim nema í um fjóra mánuði þegar ég tók mér hlé til að láta fjarlægja úr mér hálskirtlana og á meðan söng Karl Hermannsson. Ég var í tvo mánuði að jafna mig af kirtlatökunni og á meðan slógu Bítlarnir í gegn. Strákarnir í Hljómum fóru þá að spila lögin þeirra og það má eiginlega segja að Bítlalagið "Twist and Shout" hafi orðið mér að falli í hljómsveitinni. Ég neitaði að öskra í laginu og í kjölfarið var atkvæðagreiðsla um það hvort ég eða Karl yrði áfram söngvari hljómsveitarinnar. Kalli fékk þrjú atkvæði en ég eitt og þar með endaði þátttaka mín í Hljómum. Ég varð mjög sár yfir þessu og fylltist þvermóðsku. Ákvað svo að ef mér byðist að vera með í annarri hljómsveit þá myndi ég þiggja það um leið. Þá fékk ég tilboð úr Reykjavík um að mæta á æfingu hjá hljómsveitinni Pónik og upp úr því varð 23 ára samstarf Póniks og Einars."

Söng sig inn í hjarta hennar

Þegar hljómsveitin Pónik og Einar lagði upp laupana hóf Einar sólóferil sinn, söng mikið á Broadway og við fjölda jarðarfara og brúðkaupa.

"Þegar ég hafði verið ekkill í þrjú ár, fór ég ásamt hljómsveitinni Pónik til Flórída að spila á þorrablóti. Ég dvaldi þar áfram í þrjár vikur hjá systur minni, sem á hús í Orlando. Kona sem leigði hús af frænku minni neðar í götunni kom með póstinn hennar til okkar og við fórum að spjalla og kynntumst í eldhúsinu hjá systur minni.

Kvöldið eftir söng ég í samkvæmi hjá mági mínum og hún kom þangað. Ég söng mig eiginlega inn í hjarta hennar, því þegar ég stóð á sviðinu ákvað hún strax að ná í þennan gaur. Hún heitir Louella Cardoos og er af arabísku bergi brotin. Við giftum okkur í Boston 17. október 1999 og ég flutti út til hennar 12. febrúar 2000. Þá mætti ég í íslenska þjóðbúningnum með fangið fullt af rósum handa henni. Hvorugt okkar er að vinna úti og erum við bara að njóta lífsins en við höfum bæði unnið mikið um ævina og tími til kominn að hvíla sig."

Einar hefur annars búið í Keflavík alla ævi og þó hann hafi starfað mikið í Reykjavík hefur aldrei hvarflað að honum að flytja þangað, enda er hann harður Keflvíkingur og þykir mjög vænt um bæinn sinn.

"Ég tók ekki bílpróf fyrr en ég var orðinn 29 ára gamall og ferðaðist því oft á puttanum á milli, eða með rútunni. Í eitt skiptið var ég búinn að spila í Reykjavík klukkan tvö að nóttu og fór þá beint upp á Reykjanesbraut til að reyna að fá far heim. Ég hafði gengið í fjóra klukkutíma í frosti og kulda þegar ég var loks tekinn upp í."

Það er enginn jólasveinn nema Skyrgámur

Einar hefur verið helsti jólasveinn Keflvíkinga í áratugi og leggur mikið upp úr búningnum sínum. "Það hefur margt skemmtilegt gerst í jólasveinatíð minni," segir Einar. "Þegar ég var 16 ára fór ég fyrst í jólasveinagervið og labbaði til bróðurdóttur minnar með pakka í jólasveinapoka. Á leiðinni gekk ég fram á tvær stúlkur, 5 eða 6 ára, sem voru að sýna hvor annarri hvað þær hefðu fengið í jólagjöf. Þegar ég nálgaðist hrópaði ég að jólasveinasið: "Hohohó." Stúlkugreyjunum varð hins vegar svo mikið um þetta að þær hentu frá sér jólagjöfunum og hlupu hvor í sína áttina og inn í hús. Þær áttuðu sig svo á því þegar þær voru komnar inn að þær höfðu víxlað húsum og farið hvor heim til annarrar í æsingnum.

Ég hef verið mjög mikið viðloðandi þessa grein síðan og meðal annars farið oft til Reykjavíkur í þeim erindagjörðum. Þeir sem til þekkja segja Skyrgám vera besta jólasveininn."

Einar hefur komið heim um jólin eftir að hann flutti til Bandaríkjanna til að vera með fjölskyldunni og sinna jólasveinahlutverkinu: "Ég ákvað að auglýsa ekkert þetta árið því í fyrra var svo mikið að gera hjá mér að ég hafði varla tíma til að vera með fjölskyldunni. Það gefur mér alveg óendanlega mikið að vera í jólasveinahlutverkinu og gleðja börnin. Ég get því ekki hugsað mér að sleppa því. Það eru líka margir hér heima sem geta ekki hugsað sér að fá annan jólasvein", segir Einar að lokum og bætir því við að þó hann hafi fyrst leikið jólasvein þegar hann var sextán ára hafi búið jólasveinn í honum alla ævi.