Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til margra ára.
Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til margra ára.
ÓLAFUR F. Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs í upphafi borgarstjórnarfundar í gær og kvaðst hafa tekið ákvörðun um að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum.

ÓLAFUR F. Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs í upphafi borgarstjórnarfundar í gær og kvaðst hafa tekið ákvörðun um að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum. Las hann bréf sem hann hafði sent Davíð Oddssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í gærmorgun þar sem hann rakti ýmis atriði er tengdust umhverfismálum og starfi hans sem sjálfstæðismanns. Kvað hann rökrétt og tímabært að segja sig nú úr flokknum. Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn kvaðst harma ákvörðun Ólafs.

Í bréfi sem Ólafur afhenti formanni Sjálfstæðisflokksins segist hann hafa haft áhyggjur haustið 1998 þegar flokkssystkin sín sem átt hafi hagsmuna að gæta hafi haft í hótunum við sig ef hann hætti ekki að tjá sig um forgangsröðun virkjana með tilliti til hagkvæmni og umhverfisáhrifa. Hann segir málið hafa orðið enn alvarlegra þegar hann leiddi baráttu Umhverfisvina um málefni Eyjabakka. Þá hafi komið í ljós hræðsla stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og annarra við að ganga til liðs við Umhverfisvini. "Fólk var ekki einungis hrætt um stöðu sína innan flokksins heldur einnig um atvinnumöguleika sína," segir Ólafur í bréfinu. Ólafur segir þar einnig að harka og einbeittur ásetningur stjórnvalda í að ráðast í óhagkvæma og skaðlega Fljótsdalsvirkjun hafi komið sér óþægilega á óvart. Harka og óbilgirni ríkisstjórnarflokkanna og hagsmunaaðila með Landsvirkjun í broddi fylkingar í Eyjabakkamálinu hafi endurtekið sig í deilunni um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun.

Ráðist að persónu hans og sjónarmiðum af óvenjulegri heift

Ólafur kvaðst hafa flutt tillögu til sátta og málamiðlunar í virkjanamálum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Henni hafi ekki einungis verið hafnað heldur hafi einnig verið ráðist að persónu sinni og sjónarmiðum af óvenjulegri heift. Ólafur segir sér einnig hafa mislíkað á landsfundinum tillögur í skattamálum sem hann segir að hafi þann augljósa tilgang að hygla stóreignafólki og stórfyrirtækjum. "Þannig virðist einnig komið fyrir ýmsum baráttumálum mínum í anda gamalla gilda sjálfstæðisstefnunnar, þar sem manngildi og réttlætissjónarmið eru sett ofar auðgildi og skammsýnni sérhyggju."

Ólafur kvaðst láta af störfum skrifara borgarstjórnar og varamanns í borgarráði en starfa að öðru leyti óbreytt út kjörtímabilið, m.a. sitja áfram í heilbrigðis- og umhverfisnefnd, félagsmálaráði, stjórn heilsugæslunnar í Reykjavík og svæðisstjórn um málefni fatlaðra í Reykjavík. Í samtali við Morgunblaðið sagði Ólafur að teningunum hefði verið kastað á landsfundinum og hefði hann ígrundað þessa ákvörðun sína eftir hann.

Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, kvaðst harma að flokksbróðir og vinur um árabil skuli telja sig knúinn til að segja sig úr flokknum. Hún sagði oft tekist á um málefni, bæði milli flokka og innan, menn tefldu fram ólíkum skoðunum og deildu um þær en lýðræðisleg vinnubrögð þýddu að meirihlutinn réði málum til lykta. Harmaði hún að Ólafur skyldi vera svo ósáttur við hvernig tekið var á málum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði þetta vera persónulega ákvörðun hans og hefði hann ekki rætt hana í borgarstjórnarflokknum. Kvaðst Inga Jóna að lokum vilja nota tækifærið til að þakka Ólafi margháttuð störf fyrir flokkinn en honum hefðu verið falin ýmis trúnaðarstörf gegnum árin. Óskaði hún honum velfarnaðar á nýjum brautum.