25. janúar 2002 | Innlendar fréttir | 401 orð | 1 mynd

Drekkingarhylur fái sinn forna svip

TVEIR þingmenn Samfylkingarinnar, þeir Mörður Árnason, varaþingmaður, og Karl V. Matthíasson, hafa lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um endurheimt Drekkingarhyls í Almannagjá á Þingvöllum.
TVEIR þingmenn Samfylkingarinnar, þeir Mörður Árnason, varaþingmaður, og Karl V. Matthíasson, hafa lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um endurheimt Drekkingarhyls í Almannagjá á Þingvöllum. Í tillögunni felst að Þingvallanefnd verði falið að láta kanna hvernig Drekkingarhylur í Almannagjá geti heimt aftur sinn forna svip.

Flutningsmenn segja í greinargerð með tillögu sinni, að Þingvellir séu einstakur staður að náttúru og sögu. Innan þinghelginnar fari víða ágætlega saman hin náttúrulega sköpun og framlag mannshandarinnar og megi nú heita að hvorugt geti án annars verið. Nokkrar undantekningar séu þó á þessu fagurlega samræmi, og hafi áar okkar á stöku stað ekki gætt þess í framkvæmdagleði sinni að taka nægilegt tillit til umhverfisins og hinnar sögulegu arfleifðar.

"Svo er háttað um Drekkingarhyl nyrst í Almannagjá þar sem nú er grunnur pollur sem stendur illa undir nafni. Áður var hér djúpur hylur eða svelgur framan við þröngt klettahaft og féll áin yfir það í talsverðum fossi sem í heimildum er helst kallaður Neðrifoss," segir í greinargerðinni og þar er rakið hið fyrra hlutverk hylsins, þar sem konur sem fundnar voru brotlegar við ákvæði Stóradóms um óhæfu og fordæðuskap voru settar í hærusekk og drekkt í honum.

Brúin orðin með öllu óþörf

Breytingar við Drekkingarhyl eiga sér þá sögu að árið 1911 var ákveðið að leggja steinbrú við Öxará framan hylsins í stað trébrúar sem þar hafði verið lögð 1897. Segja flutningsmenn að við brúarsmíðina hafi verið farið fram af talsverðum ákafa, enda komin sú öld að "þótt þjaki böl með þungum hramm / þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram" og hafi þá skipt minna máli hvað fyrir varð. Við brúargerðina hafi allmikið af gjárhaftinu verið sprengt í loft upp með dínamíti og var þá í burtu í senn fossbrúnin og hylbarmurinn. Vatnsborð hylsins hafi lækkað og hinn fagri Neðrifoss breyst í flúð. Við síðari endurbætur á brúnni hafi enn horfið af klettanösinni, þar á meðal brík sú sem hinum gæfusnauðu konum var hrundið fram af.

Flutningsmenn vísa til þess að umrædd brú sé með öllu óþörf þar sem umferð bíla hafi fyrir alllöngu verið bægt frá Almannagjá. Þótt ekki sé hægt að endurskapa Drekkingarhyl og nágrenni hans í upprunalegri mynd megi bæta að nokkru fyrir þá eyðileggingu sem orðin er og vísa þeir m.a. til tillögu Björns Th. Björnssonar, listfræðings, sem lagt hefur til að fjarlægja brúna en leggja í stað yfir svipfallega göngubrú. Aukinheldur verði árhaftið hækkað, svo hvor tveggja hylur og foss heimti aftur sinn forna svip.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.