Illugi (Árni) og Kamilla (Sunna) eigast við í Milljónamærin snýr aftur.
Illugi (Árni) og Kamilla (Sunna) eigast við í Milljónamærin snýr aftur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á SVIÐI Tjarnarbíós eru tveir menn að hengja upp keðjur og leggja lokahönd á glæsilega leikmynd er blaðamann ber að garði.
Á SVIÐI Tjarnarbíós eru tveir menn að hengja upp keðjur og leggja lokahönd á glæsilega leikmynd er blaðamann ber að garði. Tjarnarbíó er iðandi af kátu ungu fólki og meðal þeirra eru Sunna María Schram og Árni Egill Örnólfsson, tveir aðalleikarar verksins Milljónamærin snýr aftur, sem leikfélag MR, Herranótt, frumsýnir í kvöld kl. 20. Sunna er brosandi og sýnir engin þreytumerki þó að hún hafi vakað fram á nótt við æfingar ásamt hinum leikurunum og sofi meira að segja í skólanum til að spara tíma. Enda ekkert slegið af í náminu þó að frumsýning nálgist. Strax í nóvember var byrjað að velja í hlutverk. "Ef við erum ekki sofandi, lærandi eða borðandi höfum við verið að æfa," útskýrir Sunna. Árni og Sunna sýna heldur engin merki taugatitrings þótt aðeins sólarhringur hafi verið í frumsýningu er blaðamaður ræddi við þau. "Ég verð eiginlega ekki stressaður fyrr en svona tíu sekúndum áður en ég fer á svið," segir Árni brosandi, en hann, líkt og Sunna, hefur komið að Herranótt áður. Hann er auk þess í stjórn leikfélagsins og segir ástæðuna fyrir verkefnavalinu þá að það hafi í mörg ár verið lesið af sjötta árs þýskunemum við MR og því þekkt meðal núverandi og fyrrverandi nemenda. "Við búumst því við fullt af sjötta árs nemum á sýninguna - og að vera komin í mjúkinn hjá þýskukennurum," segir Árni brosandi.

Leitað hefnda

Milljónamærin snýr aftur er eftir Friedrich Dürrenmatt og er frá miðri síðustu öld. Þar segir frá Kamillu milljarðamæringi sem snýr aftur til fæðingarbæjar síns eftir margra ára fjarveru, í þeim tilgangi að fá réttlætinu fullnægt. Hún býður háar fjárhæðir þeim sem vill drepa fyrrverandi ástmann hennar, Illuga, sem Árni leikur. Illugi lék hana grátt og Kamilla leitar hefnda, með níu misheppnuð hjónabönd að baki.

Í sýningunni eru 36 leikarar en um 70 manns koma að sýningunni á einn eða annan hátt. Magnús Geir Þórðarson er leikstjóri, leikmynd og búningar eru í höndum Höllu Gunnarsdóttur og Gísli Rúnar Jónsson þýddi verkið. Árni og Sunna hafa ekki aðeins leikið saman á vegum Herranætur heldur léku þau saman í Bláa hnettinum í Þjóðleikhúsinu síðasta vetur. Þau segja ýmislegt ólíkt í vinnu við atvinnuleikhús annars vegar og áhugamannaleikhús hins vegar og nefnir Árni í því sambandi vinnuaðstöðu. Þau eru hins vegar sammála um að í áhugaleikhúsi fái leikarar að spreyta sig á fleiri sviðum og koma að undirbúningi leikverksins frá öllum hliðum. "Verkið verður því fyrir vikið meira eins og barnið manns, það er mjög gaman," segir Árni.

Margir atvinnuleikarar hafa byrjað feril sinn í menntaskóla. Því er ekki óeðlilegt að spyrja Sunnu og Árna um framtíðina í leiklistinni. "Ég hef mikinn áhuga á leiklist og finnst mikill sjarmi yfir þessu starfi," játar Sunna. Árni segist vera alinn upp innan um leiklistarfólk sem hafi í gegnum árin barist fyrir því að hann fetaði ekki leiklistarbrautina, að hans sögn. "Leiklistin er svo mikið hark hér á landi. Ég er því nokkuð sannfærður um að ég mun ekki leggja hana fyrir mig, en hver veit?"

En Árni veit þó eitt, og það er að verkið Milljónamærin snýr aftur verður frumsýnt í kvöld og halda sýningar áfram næstu daga og vikur.