Slobodan Milosevic, fyrrverandi forseti Júgóslavíu, fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag í gær er dómarar reifuðu málið gegn honum.
Slobodan Milosevic, fyrrverandi forseti Júgóslavíu, fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag í gær er dómarar reifuðu málið gegn honum.
SLOBODAN Milosevic dró enn á ný í efa lögmæti Alþjóðastríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna þegar hann ávarpaði dóminn í fyrsta skipti í gær en réttarhöld yfir Júgóslavíuforsetanum fyrrverandi hófust í Haag í fyrradag.

SLOBODAN Milosevic dró enn á ný í efa lögmæti Alþjóðastríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna þegar hann ávarpaði dóminn í fyrsta skipti í gær en réttarhöld yfir Júgóslavíuforsetanum fyrrverandi hófust í Haag í fyrradag. Sagði hann að þegar væri búið að ákveða að hann skyldi fundinn sekur og ásamt herferð saksóknara í fjölmiðlum væri það markmið dómstólsins að "hengja" hann án dóms og laga.

Áður höfðu saksóknarar lokið tveggja daga yfirferð sinni á ákæruatriðunum en þeir reifuðu um leið þau sönnunargögn sem þeir hyggjast leggja fyrir dómstólinn.

Nokkuð var liðið á daginn þegar Milosevic gafst tækifæri til að hefja mál sitt og kaus hann því að flytja ekki formlega yfirlýsingu til réttarins í gær. Í staðinn krafðist hann þess að dómarar í málinu brygðust við ásökunum hans um að dómstóllinn væri ólögmætur og handtaka hans í Belgrað og framsal til Hollands bryti í bága við bæði serbnesku og júgóslavnesku stjórnarskrána.

Richard May, yfirdómari í réttarhöldunum, stöðvaði Milosevic hins vegar í miðjum klíðum og hafnaði þeim staðhæfingum að dómstóllinn væri ólögmætur. Úrskurður lægi þegar fyrir um það atriði. "Skoðanir þínar á þessum dómstóli skipta engu máli," sagði hann.

Frestaði May síðan réttarhöldunum þar til í dag en þá er gert ráð fyrir að Milosevic hefji málsvörnina.

Ibrahim Rugova meðal vitna

Geoffrey Nice, einn saksóknaranna, lýsti fyrir réttinum í gær þeim voðaverkum sem framin voru á Balkanskaga á síðasta áratug síðustu aldar og sem Milosevic er sakaður um að bera ábyrgð á. Sagði hann Milosevic hafa átt sér það markmið eitt að tryggja hag Serba í eins konar Stór-Serbíu.

Saksóknarar sýndu m.a. myndband af sveltandi fólki í Trnopolje-fangabúðunum í Bosníu frá 1992. Sagði Nice að þar og í öðrum sambærilegum búðum hefðu fangar mátt þola sult, barsmíðar, kynferðisárásir og pyntingar. Voru margir þeirra myrtir og lík þeirra grafin í fjöldagröfum, að sögn saksóknara.

Greindi Ibrahim Rugova, leiðtogi hófsamra Kosovo-Albana, frá því að hann yrði meðal vitna saksóknara í Haag. Rugova sagði það heiður að fá að vitna í málinu fyrir hönd íbúa Kosovo en ákærur á hendur Milosevic snúa m.a. að ódæðisverkum sem hersveitir Serba eru sakaðar um að hafa framið þar 1998-1999.

Haag, Pristina. AP, AFP.