ÞRÍR þingmenn Vinstri grænna, þau Árni Steinar Jóhannsson, Þuríður Backman og Jón Bjarnason hafa lagt fram þingsályktunartillögu um samninga við lággjaldaflugfélög.

ÞRÍR þingmenn Vinstri grænna, þau Árni Steinar Jóhannsson, Þuríður Backman og Jón Bjarnason hafa lagt fram þingsályktunartillögu um samninga við lággjaldaflugfélög. Í tillögunni felst að samgönguráðherra verði falið að kanna hvort unnt sé að semja við lággjaldaflugfélög um flugferðir til Akureyrar eða Egilsstaða.

"Árið 2000 hóf lággjaldaflugfélagið GO reglubundnar flugferðir um Keflavíkurflugvöll. Með því gafst efnalitlum ferðamönnum kostur á að komast til Íslands og jafnframt bauðst íslenskum ferðamönnum að fljúga ódýrt til meginlands Evrópu. Með tilkomu nýs ferðamannahóps hér á landi efldist þjónusta við efnalitla ferðamenn, svo sem ódýr gisting. Það segir sig sjálft að með brotthvarfi flugfélagsins GO minnkar grundvöllur fyrir þjónustu af því tagi umtalsvert. Auk þess hlýtur að teljast bagalegt fyrir íslenska ferðamenn að geta ekki lengur nýtt sér þjónustu lággjaldaflugfélags," segir í greinargerð með tillögunni.

Bætt nýting flugvalla ferðaþjónustunni til hagsbóta

Flutningsmenn benda á í þessu sambandi að á Akureyri og Egilsstöðum séu alþjóðaflugvellir. Betri nýting þeirra yrði ferðaþjónustunni í landinu tvímælalaust til mikilla hagsbóta. Því beri að kanna til fulls hvort semja megi við lággjaldaflugfélag um að lenda á Akureyri eða Egilsstöðum þar sem kostnaður flugfélaga vegna umferðar um vellina þar yrði mun lægri en á Keflavíkurflugvelli.