Hugrún Sif Harðardóttir
Hugrún Sif Harðardóttir
Á Framadögum, segir Hugrún Sif Harðardóttir, gildir að bera sig eftir björginni.

FRAMADAGAR, atvinnulífsdagar háskóla á Íslandi, verða haldnir í áttunda sinn í ár. Dagarnir standa að þessu sinni frá 12. til 15. febrúar og verða með svipuðu sniði og undanfarin ár. Föstudaginn 15. febrúar milli kl. 10 og 16 kynna 28 þátttökufyrirtæki starfsemi sína í Háskólabíói. Þangað flykkjast svo háskólanemar til að hitta fyrir þessa fulltrúa atvinnulífsins og sanna fyrir þeim ágæti sitt.

Það er AIESEC, alþjóðlegt félag háskólanema, sem sér um framkvæmd Framadaga. Þeir eru haldnir að erlendri fyrirmynd og eru hugsaðir sem vettvangur fyrir stúdenta til að kynna sér það sem hæst ber í atvinnulífinu og fyrir fyrirtæki til að komast í kynni við ungt og metnaðarfullt menntafólk. Kynningin gengur í raun út á að draga upp aðlaðandi mynd af fyrirtækinu og sýna háskólanemum fram á að það sé eftirsóknarverður vinnustaður. Framtíðarmarkmið Framadaga er að sem flestir háskólanemar, óháð skóla eða námsbraut, njóti góðs af þeim. Þannig verða Framadagar að vettvangi öflugra samskipta milli háskólanema og fulltrúa atvinnulífsins.

Að háskólanámi loknu stöndum við frammi fyrir fjölmörgum mikilvægum ákvörðunum. Val á framtíðarstarfi er ein þessara stóru ákvarðana. Ekkert nám á háskólastigi leiðir beint inn í ákveðið starf. Fjölmörg ólík störf eru í boði og nýsköpun og nýjungar verða til þess að auka breiddina í atvinnulífinu. Framadagar eru kjörið tækifæri til að kynnast því sem í boði er að námi loknu. Víða erlendis eru Framadagar stærsti ráðningarstaður nýútskrifaðra. Þá hafa mörg fyrirtæki tekið þá stefnu að ráða efnilega nemendur í sumarstörf með hugsanlegt framtíðarstarf í huga. Þetta á sérstaklega við nemendur sem eiga eitt ár eftir. Stór hluti fyrirtækjanna sem nú tekur þátt í Framadögum hefur lýst áhuga sínum á að fá háskólanema til að vinna fyrir sig lokaverkefni. Nemendur sem eru farnir að sjá fyrir endann á sínu námi ættu að hafa þetta í huga.

Á Framadögum gildir að bera sig eftir björginni. Frá 1995 hefur fjöldinn allur af háskólanemum fengið framtíðarstarf, tímabundið starf eða lokaverkefni í gegnum Framadaga. Áræði og eftirfylgni þessara nemenda hefur vafalaust ráðið úrslitum um ráðningu. Það ræður enginn starfsmann út frá göngulaginu einu saman.

Höfundur er framkvæmdastjóri Framadaga 2002.