Vonarstræti 12 árið 1912.
Vonarstræti 12 árið 1912.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Thoroddsen, sýslumaður, alþingismaður og ritstjóri, reisti húsið við Vonarstræti 12 árið 1908, segir Freyja Jónsdóttir. Húsið þótti mjög veglegt á þeirra tíma vísu.

LÓÐIN tilheyrði áður Tjarnargötu 3 c og vestasta hluta lóðarinnar Vonarstræti 10. Í B-skjali er lóðin skráð 1240 ferálnir. Skúli Thoroddsen sýslumaður, alþingismaður og ritstjóri reisti sér hús á lóðinni árið 1908. Það er tvílyft timburhús með háu risi, kvistum og stendur á steinkjallara. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði húsið. Útbygging er á suðurhlið, ofan á henni eru svalir sem gengið er út frá kvisti. Enn fremur fékk Skúli leyfi fyrir byggingu prentsmiðjuhúss á lóðinni.

Sama ár, þann 6. október, er fyrsta brunavirðingin gerð. Þar segir m.a. að húsið sé 18 1/2 x 21 al. og útskot á framhlið 2 x 5 al. og viðbygging í norður 10 x 11 1/2 al. að grunnfleti og hæð 12 1/2 al., byggt af bindingi, klætt utan með 5/4" plægðum borðum, plönkum og járni yfir á þremur hliðum og þaki; eldvarnargafl er að vestanverðu. Í öllum útveggjum er milliþil úr plægðum 3/4" borðum með sagi að utanverðu en pappa að innan. Milligólf er í öllum bitalögum. Niðri í húsinu eru sex herbergi, eldhús, búr, gangur, fordyri og einn skápur. Allt þiljað og með striga og pappír á veggjum og loftum, allt málað. Brjóstpanill er í einu herberginu. Uppi eru sjö íbúðarherbergi, einn gangur í vinkil og sex fastir skápar, allt þiljað, með striga og pappír á veggjum og loftum, allt málað. Í risi eru fjögur íbúðarherbergi, þrjú geymsluherbergi og gangur. Íbúðarherbergin eru þiljuð og með striga og pappír á veggjum og loftum, þar er allt málað. Á skammbitum er gólf úr plægðum 5/4" borðum. Kjallari með steinsteypugólfi er undir húsinu öllu, 3 172 alin að hæð. Hann er með tveimur langskilrúmum úr steini og einu þverskilrúmi. Í honum eru þrjár geymslur, þvottahús með eldavél, kolaklefi og klefi með miðstöðvarhitavél. Rafleiðslupípur eru um allt húsið.

Við norðurhlið hússins er einlyft útbygging með risi, byggð eins og húsið, járnklædd á þaki og veggjum. Í henni er prentsalur og gangur sem allt er þiljað og með striga og pappír á veggjum og í loftum og málað. Upp við vesturhliðina á útbyggingunni er skúr með uppgangi á aðra hæð í íbúðarhúsinu; byggður eins og það. Grunnflötur hans er 4 x 5 álnir. Ofan á útbyggingunni eru þaksvalir og undir henni er kjallari 3 1/2 alin á hæð, með steinsteyptu gólfi. Útbyggingin er notuð fyrir prentsmiðjuna. Ofan á útbyggingunni eru svalir með fallegu handriði, en þakið hallar dálítið.

Skúli Thoroddsen var fæddur 6. janúar 1859. Foreldrar hans voru Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld, fæddur 5. október 1818 að Reykhólum og Kristín Ólína þorvaldsdóttir Sívertsen í Hrappsey. Foreldrar Jóns voru hjónin Þórður Þóroddsson bóndi á Reykhólum og kona hans Þórey Gunnlaugsdóttir. Þórður faðir Jóns nam beykisiðn í Danmörku og tók upp nafnið Thoroddsen, en það var nokkuð algengt á meðal Íslendinga að laga föðurnafn sitt að erlendum hætti. Þórey var dóttir Gunnlaugs Magnússonar prests á Ríp í Skagafirði. Í ævisögu Skúla Thoroddsen eftir Jón Guðnason, segir að Jón hafi haft tvo um þrítugt þegar hann var settur sýslumaður í Barðastrandasýslu. Kona Skúla var Theodóra Guðmundsdóttir skáldkona frá Kvennabrekku í Dölum, fædd 1. júlí 1863. Séra Guðmundur faðir hennar var bæði prófastur og alþingismaður. Hann var sonur Einars Ólafssonar bónda í Skáleyjum og konu hans Ástríðar Guðmundsdóttur. Móðir Theodóru var Katrín Ólafsdóttir Sívertsen prófasts og alþingismanns í Flatey. Skúli og Theodóra voru þremenningar.

Þegar séra Guðmundur hafði setið á Kvennabrekku í tvo áratugi fluttist hann að Breiðabólstað á Skógarströnd og bjó þar til æviloka, árið 1882. Katrín og Guðmundur eignuðust fimmtán börn en aðeins þrjú þeirra komust til fullorðinsára, Ásthildur, sem varð eiginkona Péturs Thorsteinssonar kaupmanns og útgerðarmanns, Ólafur er varð læknir á Stórólfshvoli og Theodóra.

Skúli Thoroddsen var aðeins 26 ára þegar hann var skipaður sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði, þann 6. október 1885. Þá var Ísafjörður annar stærsti kaupstaður á landinu. Varla verður annað sagt en gustað hafi um Skúla á meðan hann gegndi þar embætti. Tíu af þrettán börnum Skúla og Theodóru fæddust á Ísafirði. Eitt barn misstu þau hjón á meðan þau bjuggu þar.

Á Ísafjarðarárum sínum stofnaði Skúli prentsmiðju ásamt nokkrum öðrum. Í þessari prentsmiðju var fyrsta blað Þjóðviljans prentað.

Árið 1901 fluttist fjölskyldan að Bessastöðum á Álftanesi. Þar fæddust þrjú yngstu systkinin og var Sigurður Thoroddsen verkfræðingur elstur þeirra. Í æviminningum hans, "Eins og gengur", eru skemmtilegar frásagnir frá æskuárunum bæði frá Bessastöðum og Vonarstræti 12. Grímur Thomsen hafði búið á Bessastöðum þegar hann lést árið 1896 seldi ekkja hans, Jakobína Jónsdóttir, jörðina með húsum og kirkju Landsbanka Íslands. Skúli virðist strax hafa fengið áhuga á staðnum en það var úr vöndu að ráða fyrir hann að versla við Landsbankann þar sem Tryggvi Gunnarsson réð ríkjum, en vegna ólíkra stjórnmálaskoðana var afar stirt á milli þessarra tveggja heiðursmanna.

Brugðið var á það ráð að séra Jens Pálsson í Görðum keypti jörðina á sínu nafni árið 1897. Sagt er að prestur hafi haft mikið samviskubit yfir því að fara á bak við Tryggva bankastjóra. Jörðin var síðan leigð þar til Skúli gat flutt að vestan.

Prentsmiðjuvélarnar voru með í för suður og þeim komið fyrir á Bessastöðum á meðan fjölskyldan bjó þar.

Heimilisbragur

Skúli og Theodóra fluttu í nýja húsið í Vonarstræti 12 haustið 1908. Húsið var mjög veglegt á þeirra tíma vísu. Theódóra hafði ekki unað hag sínum á Bessastöðum og var umskiptunum fegin. Segir sagan að hún hafi orðið vör við reimleika á staðnum eins og margir fleiri sem þar hafa búið. Prentsmiðjan var flutt frá Bessastöðum í Vonarstrætið í útbyggingu sem hafði verið reist þar í þeim tilgangi. Í ævisögu Skúla Thoroddsen kemur fram að sumir háttsettir borgarar höfðu miklar áhyggjur af frjálsræði barnahóps Thoroddsenhjónanna, sem var mun meira en flestra jafnaldra þeirra. En stefna hjónanna var sú að gera börnin að sjálfstæðum einstaklingum. Þó að miklar hrakspár væru í gangi með uppeldi systkinhópsins og ýmsum ofbyði frjálsræðið, sýndi sig fljótlega að þær rættust ekki. Fastar venjur voru á heimilinu eins og matmálstímar og að enginn fór út að leika sér fyrr en hann eða hún hafði lokið við heimalærdóminn, það sá frú Theodóra um.

Mikill gestagangur var í Vonarstræti 12, fólk kom að hitta hjónin og börnin áttu marga vini. Húsbóndinn á heimilinu sat við skriftir daglangt. Hann reis snemma úr rekkju að morgni dags og gekk til náða um tíuleytið á kvöldin. Skúli notaði neftóbak og sagt var að hann hefði blandað það með koníaki, en ekki notað áfengi á annan máta. Tóbakið hafði hann einnig til þess að þerra blek, dreifði því yfir nýskrifaða örkina. Skrif hans birtust aðallega í Þjóðviljanum sem var prentaður í prentsmiðjunni í útbyggingunni norðan við húsið. Í kjallaranum var prentvélin og pappírsgeymsla sem einnig var notuð fyrir ljósmyndaherbergi þar sem ljósmyndarar framkölluðu myndir sínar. Gólfið í kjallaranum var steypt og styrkt með 15 cm þykkri ásteypu undir prentvélinni. Setjarasalurinn var á hæðinni og var lyfta á milli hæðar og kjallara sem hífð var með handafli.

Skúli Thoroddsen sat á Alþingi í aldarfjórðung, ásamt erilsömum þingstörfum rak hann verslun á Ísafirði. Eins og gefur auga leið hafði hann gott starfsfólk til þess að sjá um reksturinn. Áður en Skúli lést, aðfaranótt 21. maí 1916, hafði hann selt prentsmiðjuna sem var flutt á Laugaveg 32 A og einnig verslunarreksturinn á Ísafirði. Skúli Thoroddsen varð aðeins 57 ára. Ekkjan seldi húsið ári eftir en bjó þar áfram með börnum sínum sem þá voru ekki farin að heiman, til ársins 1930. Húsið keypti frændi hjónanna, Þórður Bjarnason kaupmaður, fæddur 2. febrúar 1871 að Reykhólum.

Húsið að Vonarstræti 12 var lengst af notað til íbúðar. Nokkru eftir að prentsmiðjan flutti úr útbyggingunni var gerð þar íbúð. Í íbúaskrá frá árinu 1910 er þar að finna sautján manns á tveimur heimilum. Á heimili Skúla og Theodóru eru talin tíu af börnum þeirra, tvær vinnukonur og ein vetrarstúlka, tveir prentarar, Þórhallur Bjarnason og Haraldur Einarsson, einnig Guðbjörg Jafetsdóttir, fædd 1856. Hún var oftast kölluð Bauja og var fóstra barnanna, ráðskona á heimilinu og mikil vinkona Theodóru. Á hinu heimilinu bjuggu fjórar konur, tvær þeirra voru kennslukonur, Ingibjörg Brands og frænka Theodóru Elín Matthíasdóttir (dóttir Matthíasar Jochumssonar) þar var einnig Helga Thorlacius forstöðukona og vinnukonan Guðrún Snjólfsdóttir.

Theodóra Thoroddsen lést 23. febrúar 1954. Hún bjó þá hjá Sigurði syni sínum. Árið 1966 kaupir ríkissjóður eignina, eftir það voru í húsinu skrifstofur. Árið 1979 voru allmiklar framkvæmdir við húsið. Að utan var skipt um járn, bæði á veggjum og þaki. Brandveggurinn var kominn með sprungur og talsverð vinna að gera við hann. Gluggar sem eru upphaflegir voru kíttaðir og viðgerðir þar sem þurfti og málaðir. Að innan var pappír og strigi á veggjum endurnýjaður og síðan veggfóðrað með pappírsveggfóðri. Hurðir í húsinu voru gerðar upp og lakkaðar. Húsið er byggt áður en vatns- og rafmagnsveitan komu. Það er eftirtektarverð sú mikla framsýni Skúla að hann lét leggja raflagnir í húsið og frárennslisrör við byggingu þess. Fyrstu árin voru útikamrar við húsið. Upphaflegu raflagnirnar voru notaðar fyrir lagnir frá bruna- og öðrum viðvörunarkerfum sem sett voru í húsið þegar ný raflögn var sett.

Fyrir embætti húsameistara ríkisins sá Björn Kristleifsson arkitekt um framkvæmdir við húsið. Húsið er með reisulegustu húsum í borginni frá þessum tíma. Það er mjög upprunalegt. Gluggar eru margra faga og mikil prýði að kvisti á þaki og gluggakvisti við hliðina. Í þessu húsi skrifaði Theodóra sögur, ljóð og þulur sem hún er þekkt fyrir og hafa lifað með þjóðinni fram á þennan dag.

Fyrir nokkrum árum komu upp raddir um að flytja húsið en af því varð ekki. Vonandi fær það að standa í friði á sínum stað um ókomin ár.

Heimildir: B-skjöl varðveitt á Borgarskjalasafni, brunavirðingar, íbúaskrár, ævisaga Skúla Thoroddsen, ævisaga Sigurðar Thoroddsen og viðtöl við afkomendur Theodóru og Skúla Thoroddsen.