3. apríl 2002 | Menningarlíf | 2245 orð | 2 myndir

"Tónlistin skapar einingu"

Víkingur og Ann Schein á spjalli í Salnum í nóvember 2000.
Víkingur og Ann Schein á spjalli í Salnum í nóvember 2000.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arthur Rubinstein bað um að fá að kenna henni. Sautján ára var hún orðin stjarna. Ann Schein er mikils háttar píanisti eins og Bergþóra Jónsdóttir komst að í spjalli við hana og nemanda hennar Víking Heiðar Ólafsson. Og enn er hún komin hingað til að spila og kenna.
ANN Schein, einn fremsti píanóleikari heims, leikur á tónleikum í Salnum sunnudagskvöldið 7. apríl kl. 20. Þrjú verk eru á efnisskránni, Eróikutilbrigðin op. 35 eftir Beethoven, Píanósónata eftir Béla Bartók og Prelúdíusafn Chopins op. 28. Daginn áður, laugardaginn 6. apríl, heldur hún meistaranámskeið í Salnum, þar sem hún leiðbeinir tveimur ungum píanóleikurum, Árna Birni Árnasyni og Víkingi Heiðari Ólafssyni, og er námskeiðið opið áheyrendum.

Ann Schein kom fyrst til Íslands árið 1958 og lék þá á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

"Ég man þetta vel, ég spilað Píanókonsert nr. 2 eftir Chopin. Þetta var fyrsta tónleikaferð mín til Evrópu, sem ég var mjög spennt fyrir, og debut mitt á Íslandi var sérstaklega skemmtilegt, ég gleymi þessum tónleikum aldrei. Ég kom svo þrisvar eða fjórum sinnum hingað strax árin á eftir til að leika einleikstónleika. Það var Tónlistarfélagið í Reykjavík sem stóð fyrir tónleikunum. Þar var Ragnar Jónsson í Smára sem ég mun aldrei gleyma og Árni Kristjánsson píanóleikari sem var stórkostlegur listamaður. Það var svo áhrifamikið fyrir mig svona unga að koma hingað og kynnast því hvað listir og menning áttu sterk ítök í lífi fólks hér. Þetta var mikil og góð reynsla. Ég kynntist þá líka Runólfi Þórðarsyni verkfræðingi og fyrir tilviljun hittumst við aftur á Liszt-hátíðinni í Kanada fyrir nokkrum árum. Það var dásamlegt fyrir mig að hitta hann og rifja upp kynnin af Íslandi og Íslendingum. Hann hafði þá verið á tónleikum mínum og sagði að það myndi gleðja hann mjög ef ég gæti komið aftur til Íslands að spila eftir öll þessi ár. Það var gott að treysta vináttuna að nýju og spennandi fyrir mig að koma aftur til Íslands árið 2000."

Reynslan skapar tóninn

Í fjölmörgum og yfirleitt mjög hástemmdum dómum um leik Ann Schein hlaða gagnrýnendur hana lofi fyrir stórkostlega túlkun. Flestir nefna þeir eitt atriði þar sem hún skarar framúr. Það er tónninn sjálfur. "Ann Schein hefur ótrúlega fallegan tón á píanóið... Þessi magnaði tónn er engu líkur... Tónn hennar er óviðjafnanlegur..." eitthvað í þessa áttina skrifa skríbentar um heim allan. En hvaða göldrum beitir Ann Schein til að skapa þennan tón?

"Þetta er þróun, þetta kemur með tímanum. Ég hef alla tíð verið ótrúlega heppin með kennara, og hef fundið fyrir þeirri sterku hefð sem hver og einn þeirra hefur búið að. Kennari minn um það leyti sem ég fyrst kom fram í Mexíkóborg var til dæmis nemandi Busonis og Arturs Friedheims sem báðir voru miklir píanóleikarar og byggðu sinn leik á mikilli og merkri hefð. Ég var sautján ára og gerði mér ekki grein fyrir því að menntun mín byggðist á reynslu þessara afburðamanna og fyrirrennara þeirra. Ég minnist þess ekki að kennarar mínir á þessum mótunarárum hafi talað sérstaklega um tóninn, þá hafa þeir auðvitað kennt mér þetta á sinn hátt og með því að velja fyrir mig rétt viðfangsefni. Ég hef stundað kennslu árum saman og sótti líka stíft tónleika þeirra píanóleikara sem mestir þóttu á síðustu öld, allt frá því um 1940. Ég ólst upp í Washington DC þar sem voru oft frábærir tónleikar og tónleikaraðir. Foreldrar mínir fóru líka mikið með mig í leikhús og á sýningar og alls lags listviðburði. Ég var gæfusöm, því þeir sáu til þess að ég gæti notið alls þess besta í listum. Ég held að allt þetta, öll mín reynsla hljóti að safnast saman í þessum tón; reynslan skapar hann."

"Kennslan er mér ástríða"

Ann Schein kenndi í tuttugu ár við Peabody-tónlistarháskólann í Baltimore, þar sem hún sjálf stundaði sitt nám. Þegar hún var á hápunkti ferils síns um 1980 lagði hún tónleikahald að mestu niður meðan hún sinnti fjölskyldu sinni og barnauppeldi. Í stað tónleikahalds sinnti hún kennslunni af meiri krafti, enda sjálfsagt auðveldara að samræma slíkt starf móðurhlutverkinu en einleiksferil. Árið 1995 tók hún þó tónleikaþráðinn upp aftur og hefur náð nýjum hæðum og meiri sigrum í list sinni en nokkru sinni fyrr. Fyrir tveimur árum lagði hún kennslu að mestu á hilluna. Sjálf lítur hún á kennsluna sem jafnmikilvægan þátt í ferli sínum og tónleikahald, jafnvel stærri. Hún þótti strax afburðakennari, og sjálf segist hún hafa notið þess mjög að kenna, lært af því og þroskast bæði sem manneskja og listakona. "Mér finnst erfitt að koma orðum að því hvað kennslan hefur verið gríðarstór þáttur í mínum eigin námsþroska sem píanóleikari. Kennslan er mér ástríða, hún er reynsla og upplifun sem mér finnst gera mig heilsteyptari. Tónlistin, músíkupplifun mín og nemendanna og fólkið sjálft, allt er þetta mér sem súrefni. Og þótt ég sé formlega hætt að kenna, þá er ég nú að laumast með nokkra nemendur, heimsækja nemendur í skólum og kenna masterklassa, þetta er mér mjög mikilvægt, og þetta er mjög mikilvægt fyrir einleikaraferil minn."

"Ég hef verið gæfumanneskja"

Ann Schein er nú flutt til New York-borgar þar sem hún fæddist, en eiginmaður hennar, Earl Carlyss, kennir við Juilliard-tónlistarskólann. Hún segir það mikil forréttindi að búa á slíkum stað, og þar geti hún eins og á yngri árum sótt margvíslega reynslu og upplifun í listir og menningu, og það er henni jafnmikilvægt sem einleikara og kennslan. Hún leggur enn áherslu á að öll reynsla sé hverjum og einum mikilvæg og að baki þroska listamanns standi margir og ólíkir þættir. "Það sem stendur hjarta mínu næst eftir öll þessi ár, er það að hafa getað sjálf miðlað tónlist og kynnst fólki í gegnum hana en einnig það að hafa fengið tækifæri til að læra af öðrum og safna í minn sarp með því að upplifa list annarra. Tónlistin skapar einingu, og ég hrífst stöðugt af því hvernig fólk og þjóðir ná saman í gegnum hana. Þakklátust er ég þó foreldrum mínum og kennurum mínum fyrir góða leiðsögn. Arthur Rubinstein sagði aftur og aftur við pabba og mömmu að hann vildi kenna mér nægilega mikið til þess að ég gæti átt langlífi að fagna í tónlistinni, næga tækni og líkamlega færni. Hann talaði aldrei um neitt meira en það. Hann vissi að ef lukkan yrði mér hliðholl, myndi ég eiga fyrir höndum dásamlegt líf í tónlistinni. Þetta hefur allt gengið eftir og ég er honum og foreldrum mínum hjartanlega þakklát, enn nýt ég þessara forréttinda. Ég hef verið gæfumanneskja."

Ann Schein segir að Runólfur Þórðarson hafi sagt sér að hann myndi vel eftir því að hún spilaði Eróikutilbrigði Beethovens hér á árum áður. Hún segist hafa spurt hann hvort það kæmi að sök að hún léki verkið aftur nú, þar sem hún er nýbúin að æfa það upp aftur, en að hann hefði sagt slíkt fjarri lagi og því leiki hún það hér nú í annað sinn. "Þessi tilbrigði Beethovens eru ekki oft leikin. Mér þykir vænt um þau, ekki síst fyrir það að í þeim er nokkuð sem Beethoven var ekki sérlega þekktur að - húmor. Samt er líka að finna í verkinu mikla dýpt og fúgan í lokin er mikið snilldarverk. Bartók sónatan er líka gott verk. Ég spilaði hana mikið á sjöunda áratugnum, en er nú nýbúin að taka hana aftur upp á efnisskrá mína. Prelúdíur Chopins eru fyrir mér endalaus opinberun. Þær eru eins og gimsteinar - þú sérð fegurðina á nýjan hátt í hvert sinn - allt eftir því hvernig þú snýrð þeim. Ég ætla samt að leggja þær á hilluna um tíma eftir að ég spila þær hér, þær hafa fylgt mér lengi. Ég hef spilað þær meir en hundrað sinnum á tónleikum og fæ aldrei nóg af þeim, en maður verður líka að skapa sér pláss fyrir ný verk."

Frægðarferill

Ann Schein fæddist í New York árið 1939. Fjögurra ára gömul byrjaði hún að læra á píanó, og spilaði fyrst opinberlega í Washington D.C. aðeins sjö ára gömul. Ann Schein þreytti frumraun sína sem píanóleikari árið 1957 og um það leyti spilaði hún inn á sínar fyrstu hljómplötur sem vöktu mikla athygli. Arthur Rubinstein heyrði í Ann á plötu og hreifst svo af leik hennar að hann bauðst til að leiðbeina henni. Varð það úr og hún spilaði fyrst fyrir hann sumarið 1961 og svo nokkur sumur þar á eftir. Ann segir að handleiðsla Rubinsteins hafi verið sér dýrmæt og ómetanleg reynsla. Árið 1962 spilaði Ann Schein í fyrsta sinn í Carnegie Hall og 1963 var henni boðið að halda sérstaka tónleika í Hvíta húsinu í Washington fyrir gesti Kennedy-hjónanna.

Ann Schein hefur ferðast til rúmlega 50 landa til tónleikahalds. Á fyrri hluta ferils síns ferðaðist hún víða á vegum utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna er það var að kynna bandaríska menningu og listamenn. Þannig kom hún fyrst til Íslands 1958 og lék með Sínfóníuhljómsveit Íslands í Austurbæjarbíói. Árið 1980 vann Ann Schein það afrek að spila öll píanóverk Chopins í Alice Tully Hall í New York. Þetta var tónleikaröð sem stóð í nokkra mánuði. Með Chopin-tónleikunum vann Ann mikinn listrænan sigur og vakti ómælda hrifningu jafnt gagnrýnenda sem áheyrenda. Á níunda áratugnum og fram á þann tíunda helgaði Ann Schein sig fjölskyldu sinni, en hún er gift fiðluleikaranum Earl Carlyss, sem spilaði í hinum þekkta Juilliard-strengjakvartett um 20 ára skeið. Árið 1995 tók hún aftur til við tónleikahald af fullum krafti, bæði sem einleikari og samleikari með hinni þekktu söngkonu Jessye Norman og fleirum.

"Frá fyrsta tóni varð mér ljóst að Ann Schein var snillingur"

Í nýjasta tölublaði píanótímaritsins Clavier er stórt forsíðuviðtal við Ann Schein þar sem hún fjallar um feril sinn og kennsluna sem alltaf hefur staðið henni svo nærri. Víkingur Heiðar Ólafsson er einn þeirra ungu píanóleikara sem hafa verið svo heppnir að njóta leiðsagnar hennar.

"Hún kom hingað í nóvember árið 2000 og spilaði á tónleikum í Salnum. Þá var ég nýbúinn að taka þátt í píanókeppni Evrópusambands píanókennara, þar sem ég vann fyrstu verðlaun, ég tók einmitt við verðlaununum sama dag og hún hélt sína tónleika. Ég var nú alveg búinn að fá mig fullsaddan af píanóspili í bili, en þá hringdi Vigdís Esradóttir í Salnum í mig og sagði mér að einhver frábær píanóleikari myndi spila í salnum um kvöldið. Ég hafði ekkert heyrt af þessum píanóleikara og vissi ekkert um hana. En Vigdís bauð mér miða og ég mætti með opnum huga. En alveg frá fyrsta tóni varð mér ljóst að Ann Schein var snillingur. Þetta voru með bestu tónleikum sem ég hef upplifað. Það var eitthvað rosalega heiðarlegt og fallegt við það hvernig hún spilaði. Í framhaldi af tónleikunum hjálpuðu Runólfur Þórðarson og Jónas Ingimundarson mér til að fá að spila fyrir hana. Hún var alveg til í að hlusta á mig, svo ég mætti þarna næsta dag, alveg að deyja úr stressi og spilaði fyrir hana. Hún var mjög jákvæð. Þá fór ég að pæla í því hvort hún væri ekki að kenna einhvers staðar. Hún sagði mér þau "skemmtilegu" tíðindi að hún væri nýhætt að kenna til að leggja meiri stund á einleikaraferilinn." Víkingur Heiðar segist ekki hafa orðið sérlega ánægður með þetta. En þegar hún sagði honum að hún væri að kenna á sumarnámskeiðum í Aspen í Colorado ákvað hann að reyna að komast til hennar þangað, sótti um og komst að. "Ég var hjá henni í sex vikur og varð enn ánægðari með hana en áður, því hún er stórkostlegur kennari - þetta er orðin algjör lofræða, en þetta er samt svona - og ég var staðráðinn í því að ég þyrfti að geta lært meira af henni, eitthvað sem væri til frambúðar, þannig að ég spurði hana að því í Aspen hvernig veturinn yrði hjá henni og hvort ég mætti koma til New York að spila fyrir hana. Hún sagði bara jájá, ekkert mál. Ég fór svo í desember og var í viku og spilaði mikið fyrir hana. Síðan þá hefur hún verið uppáhaldspíanóleikarinn minn."

"Spilar meira með eyrunum en fingrunum"

Víkingur segir að Ann Schein sé alhliða kennari og leggi áherslu bæði á tækni og músík. "Hún metur hvern einasta nemanda út frá hans gildum, ég hef heyrt hana kenna mjög misjafnlega, hún leggur meiri áherslu á tækni hjá þeim sem kunna minna í henni og svo öfugt. Samt er hún þannig að hún kennir tæknina alltaf út frá tónlistinni sjálfri eins og góðir kennarar verða að geta gert - tæknin er ekkert abstrakt fyrirbæri fyrir henni. Hún leggur mikla áherslu á tóninn. Hún spilar sjálf með ofboðslega "djúsí" tóni og hefur svo mikla stjórn á þessu að hún getur spilað á hvaða píanó sem er og í hvaða sal sem er og það hljómar alltaf alveg ótrúlega vel. Hún segir bara að þetta sé þessi sextíu ára reynsla, en hún hefur líka sín tæknilegu trikk í líkamsbeitingu og hlustun. Hún spilar meira með eyrunum en fingrunum. Í vetur hefur hún aðallega verið í því að stækka tóninn minn svo ég þori að beita öllum mínum krafti. Ef maður spilar alltaf of fínlega missir það marks. Svo er hún bara svo ofboðslega hlý og mikill mannvinur, hún hefur ótrúlega útgeislun sem ég held að grípi alla. Í upphafi ferils síns var hún mjög bráðþroska og var einn af örfáum nemendum sem Arthur Rubinstein kenndi. Hún var algjör stjarna. Svo giftist hún Earl Carlyss og ákvað að hætta að spila, eins og konur gera allt of oft. En það var ekkert svo vont því hún þroskaðist mjög mikið á þessum tíma með fjölskyldunni og í kennslunni. Til dæmis miðuðu margir ferð sína til Aspen í sumar við það eitt að geta heyrt hana kenna. Þar nýtist ótrúleg útgeislun og lífsorka hennar til fulls og í minningunni sitja masterklassarnir sem eitthvað ógleymanlegt. Henni tókst alltaf að rífa áheyrendur með sér og senda þá heim fulla af innblæstri."

Meistaranámskeið Ann Schein í Salnum verður sem fyrr segir laugardaginn 6. apríl kl. 13.00-15.00. Tónleikarnir verða hins vegar á sunnudagskvöld, 7. apríl, kl. 20.

begga@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.