Eddy Kapend fyrir herrétti í mars sl., er honum voru birtar ákærur.
Eddy Kapend fyrir herrétti í mars sl., er honum voru birtar ákærur.
RÁÐGJAFAR sem ákærðir hafa verið vegna morðsins á Laurent Kabila, fyrrverandi forseta Kongó, komu fyrir herrétt sl. fimmtudag, og sögðu með dramatískum hætti frá síðustu andartökunum í lífi forsetans.

RÁÐGJAFAR sem ákærðir hafa verið vegna morðsins á Laurent Kabila, fyrrverandi forseta Kongó, komu fyrir herrétt sl. fimmtudag, og sögðu með dramatískum hætti frá síðustu andartökunum í lífi forsetans. Einn ráðgjafanna kvaðst hafa skotið öllum kúlunum úr byssu sinni á morðingjann.

Vitnaleiðslurnar á fimmtudaginn voru þær fyrstu í málinu og þá komu í fyrsta sinn fyrir réttinn helstu sakborningarnir. Kabila var skotinn til bana þar sem hann sat við skrifborð sitt í forsetahöllinni í Kinshasha 16. janúar 2001. Morðinginn, ungur lífvörður forsetans, var felldur nokkrum andartökum síðar. Enn er óljóst hvers vegna Kabila var myrtur og hverjir stóðu á bak við morðið.

Eddy Kapend, liðsforingi og einn nánasti samstarfsmaður Kabilas, og Emile Mota, framkvæmdastjóri ríkisstjórnarinnar, eru meðal þeirra 115 sem sem hafa verið ákærðir, flestir um að vera "skipuleggjendur eða meðskipuleggjendur" morðsins. Kapend er einnig sakaður um að hafa reynt að taka völdin í landinu eftir að Kabila hafði verið ráðinn af dögum.

Mota greindi frá því fyrir réttinum á fimmtudaginn, að hann hefði setið við hliðina á skrifborði Kabilas og verið að setja saman ráðherralista þegar lífvörðurinn Rashidi Muzele kom inn á skrifstofuna. "Rashidi skaut þrisvar á Kabila forseta um leið og hann lagði á flótta," sagði Mota. Rashidi hefði ekki komist lengra en út í garð forsetahallarinnar. Annar lífvörður skaut hann þar, að því er Kapend tjáði réttinum.

"Ég kom að Rashidi þar sem hann lá í blóði sínu. Ég tæmdi byssuna mína á hann," sagði Kapend. Hann lýsti yfir trúnaði við Kabila, og kvaðst hafa verið "meira en sonur" forsetans. Stuðningsmenn Kapends höfðu safnast saman fyrir utan dómshúsið og lustu upp fagnaðarópum þegar Kapend svaraði spurningum réttarins. Þegar hann kom út úr húsinu varð fögnuðurinn enn meiri. Hann hefur setið í fangelsi í rúmt ár.

Kabila komst til valda í Kongó 1997 eftir að uppreisnarmenn, undir forystu hans og með stuðningi stjórnvalda í nágrannaríkinu Rúanda, steyptu af stóli Mobuto Sese Seko, sem hafði lengi verið einræðisherra í landinu. Hörmungarnar í Kongó margfölduðust í valdatíð Kabilas, sem atti landinu út í stríð við Rúanda, Úganda og innlenda uppreisnarmenn. Þau átök hafa staðið í þrjú ár.

Sonur Kabilas, Josef, tók við völdum af föður sínum. Rannsóknarnefnd á vegum forsetans komst í fyrra að þeirri niðurstöðu að óvinir Kongó hefðu lagt á ráðin um að drepa forsetann. Aðrir segja að morðið hafi verið liður í valdabaráttu er teygi anga sína til þáverandi bandamanna Kongó, Zimbabwe og Angóla. Er Kapend sagður hafa tengsl við menn í Angóla.

Kinshasha í Kongó. AP.