9. maí 2002 | Minningargreinar | 831 orð | 1 mynd

FRIÐRIK JENS GUÐMUNDSSON

Friðrik Jens Guðmundsson fæddist í Reykjavík 9. nóvember 1925. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 16. apríl síðastliðinn og var útför hans gerð frá Fossvogskirkju 26. apríl.

Friðrik var einn fjögurra bræðra sem ólust upp á Ásvallagötu 65 í Verkamannabústöðunum hjá ömmu okkar og afa, Sólveigu og Guðmundi. Það er naumast hægt að ímynda sér að þessir bræður Jóhannes Óskar, Friðrik Jens, Guðmundur Jóhann faðir okkar og Jóhann hafi verið foreldrum sínum auðveldir viðureignar jafnfyrirferðarmiklir og þeir voru. Guðmundur afi var oftast á sjó, harður togarasjómaður úr Arnarfirði, en amma Sólveig sem var úr grösugum sveitum Borgarfjarðar gætti bús og barna. Það má segja að í þessum bræðrum hafi mæst einkenni þessara tveggja héraða, fálát harka Vestfjarðanna og mild náttúra Borgarfjarðar. Persónueinkenni afa og ömmu, afa sem las Íslendingasögur og kosningaræður foringja sjálfstæðismanna og kunni hvort tveggja utan að og ömmu sem las Laxness og önnur alþýðuskáld og vildi jöfnuð og mildi eins og Guðssonurinn frá Nasaret kenndi, mótuðu þessa menn þegar þeir voru að alast upp á krepputímum, þegar bæði þurfti að sýna hörku og samkennd.

Virðing fyrir borgaralegum gildum var í hófi hjá þeim bræðrum og Skarphéðinn Njálsson í meiri metum en flestir aðrir nema ef vera skyldi faðir hans. Orð eins og fágaður eða "penn" notuðu þeir um menn í vorkunnartón. Úr þessum jarðvegi spratt Friðrik frændi okkar, sem var þeirra næstelstur og mesti íþróttamaður þeirra bræðra. Frábær glímumaður og seinna firnasterkur kringlukastari og kúluvarpari og keppti fyrir KR og Ísland fram á fullorðinsár.

Friðrik útskrifaðist úr Samvinnuskólanum og lagði fyrir sig bókhald og fjárreiður og starfaði við það að aðalstarfi, síðustu áratugina á Skattstofunni í Reykjavík. Í reynd starfaði hann við hvaðeina sem til féll til að framfleyta fjölskyldu sinni og taldi aldrei neitt eftir sér. Friðrik var í okkar huga maður sem aldrei tók sér frí. Þegar framtalsfrestur var að renna út og annir hjá honum voru slíkar að hann varla svaf, birtist hann allt í einu og spurði hvort maður hefði nokkuð hugað að því að telja fram.

Venjulega svöruðum við neitandi enda lítið peningalega þenkjandi. Þetta vissi Friðrik og taldi ekki eftir sér að koma reiðu á skattaskilin hjá okkur sem ekki var alltaf auðvelt verk, en það vafðist ekki fyrir honum.

Maður skynjaði bókmenntirnar í honum þegar kom að athugasemdum og skýringum, maðurinn var skáld. Hann skildi manna best að lífið verður ekki tilgreint á skýrslum, en þó ber að gjalda keisaranum það sem hans er.

Það hvarflaði svo að manni seinna að hann hefði lítið hugsað um sjálfan sig og laun og að fjölskylda hans hefði gjarnan viljað hafa hann heima í stað þess að hann væri að ala upp frændur sína og frænkur í reiðusemi. En svona var Friðrik frændrækinn og hjálpsamur.

Við sáum stundum ekki mikið til Friðriks frænda okkar þegar allt lék í lyndi hjá okkur en ef erfiðleikar steðjuðu að þá var hann alltaf mættur og sum okkar eiga honum mikið að þakka. Hann stóð með manni eins og klettur þegar á þurfti að halda. Aldrei heyrðum við hann minnast á eigin erfiðleika.

Friðrik var einn af þessum mönnum sem alltaf eru á þönum og því fannst manni eðlilegt að hann æki um á jeppa til að komast hindrunarlaust leiðar sinnar. Svo var hann líka forfallinn veiðimaður og stundum voru veiðistangir í bílnum en byssurnar lágu ekki á glámbekk þótt hann væri stundum með skot í vasanum. Maður vissi aldrei hvort hann var að koma eða fara, hann var bara mættur til að hjálpa manni, segja sögur eða spyrja hvort maður vildi ekki fá dálítið af kjöti og svo var hann rokinn út í jeppann, Overland, Wagoneer eða venjulegan Willys, enga slyddujeppa fyrir hann. Hvort þessi farartæki hans voru með pelastikk á annarri framfjöðrinni eða dálítið skálduð skipti ekki svo miklu máli ef þau voru ekta. Okkur bræðrunum gaf hann veiðistangir þegar við fermdumst og kenndi okkur ýmislegt í stangveiði og um íslenska náttúru heima í stofu eða á árbökkum. En fyrst og fremst var Friðrik afspyrnu skemmtilegur og kraftmikill maður sem ekki mátti neitt aumt sjá án þess að bjóða fram aðstoð sína.

Pabbi og Friðrik voru miklir vinir og áttu að mörgu leyti skap saman, þeir voru stríðnari en góðu hófi gegndi og gátu sjaldan stillt sig um að espa menn upp ef þeir sáu sér leik á borði en það var frekar rík kímnigáfa en illkvittni sem réð ferðinni og oft voru þeir óborganlegir saman. Einu barna okkar varð að orði í huggunarskyni þegar séð varð að hverju færi, að afi yrði glaður að sjá hann, sem lýsir Friðriki og vináttu þeirra vel.

Friðrik var heilsulaus síðustu árin og hefur það ekki verið auðvelt fyrir slíkan mann, en hann tók því eins og það karlmenni sem hann var. Þetta hafa líka verið erfiðir tímar fyrir Sigríði konu hans og fjölskyldu og við vottum þeim innilega samúð okkar um leið og við kveðjum okkar uppáhaldsfrænda með söknuði.

Gunnar Örn Guðmundsson, Sólveig Guðmundsdóttir,

Guðmundur H. Guðmundsson, Elín Helena Guðmundsdóttir.

Gunnar Örn Guðmundsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Guðmundur H. Guðmundsson, Elín Helena Guðmundsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.