Útlitið er talsvert breytt; nýr framsvipur og nýjar lugtir.
Útlitið er talsvert breytt; nýr framsvipur og nýjar lugtir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÖNNUR kynslóð Honda CRV er komin á markað. Bíllinn er með líkan hliðarsvip og eldri gerðin en miklar breytingar hafa verið gerðar á bílnum framan- og aftanverðum. Hann er fleygmyndaðri og vélarhlífin virðist styttri.

ÖNNUR kynslóð Honda CRV er komin á markað. Bíllinn er með líkan hliðarsvip og eldri gerðin en miklar breytingar hafa verið gerðar á bílnum framan- og aftanverðum. Hann er fleygmyndaðri og vélarhlífin virðist styttri. Komnar eru stórar gegnsæjar lugtir og afturlugtir ná langleiðina niður að stuðara. Einnig er afturhlerinn breyttur og opnast nú í heilu lagi ásamt því sem hægt er að opna einvörðungu gluggann. Miklar breytingar hafa líka verið gerðar að innan, allar til mikilla bóta. Mælaborðið er einfalt og býður upp á þægilegt viðmót og sætin styðja vel við líkamann. Mælarnir eru stórir og gott að lesa af þeim og hljómtækin eru ofarlega í innréttingunni þannig að ökumaður þarf ekki að skotra augunum langt niður þegar skipt er um útvarpsstöð. Gírstöngin fyrir sjálfskiptinguna, sem er staðalbúnaður með Advance-útgáfunni, er í mælaborðinu sem sparar gólfrýmið. Sérviskuleg en um leið þægileg staðsetning er á handbremsunni. Milli sæta er haganlega fyrirkomið glasa- og geymslubakka sem hægt er að fella upp að öðru sætinu þegar hann er ekki notkun. Aftursætisbekkurinn er kominn á sleða sem hægt er að renna fram eða aftur eftir þörfum - stór plús það. Aftursætisbökin eru niðurfellanleg, 60/40, og hægt að búa til mikið rými fyrir stærri hluti.

Stærstur jepplinganna

Honda CRV er lengri (3 cm) og breiðari (3 cm) en forverinn og hjólhafið hefur aukist um einn cm. Innanrýmið er meira og farangursrýmið er nú 527 lítrar en var 444 lítrar og munar um minna. Skemmtilegur búnaður er hlífin yfir varahjólinu sem nýtist sem borð í útilegum. Afturrýmið er þægilegt í umgengni því gólfið er alveg slétt en enginn drifstokkur sem skagar inn í rýmið. Honda CRV er stærstur jepplinganna, 4,57 m á lengd, heilum 37 cm lengri en söluhæsti bíllinn í þessum flokki á Íslandi, Toyota RAV4, og 5 og 6 cm lengri en Hyundai Santa Fé og Nissan X-Trail. Hann nýtur þess líka í innanrýminu, sem býður upp á þægilega stöðu í öllum sætum fyrir fimm fullorðna.

Sprækur með aflmikilli vél

Við prófuðum CRV í Advance útfærslu með nýrri 2,0 lítra VTEC-vél. Skemmst er frá því að segja að jepplingurinn virkar bara sportlegur með þessari aflmiklu vél. Upptakið er frísklegt og vélin rótvinnur á víðu snúningssviði. VTEC er sams konar búnaður og hefur verið að ryðja sér til rúms, einkum hjá japönskum bílaframleiðendum. Þetta er tölvubúnaður sem stýrir ventlaopnuninni þannig að vélin skili ávallt hámarksafköstum og nýti um leið eldsneytið betur. Þessar vélar eru því aflmeiri en um leið sparneytnari og umhverfisvænni en eldri gerðir véla.

CRV er með sjálfvirku fjórhjóladrifi með vökvastýringu. Í venjulegum akstri þar sem ekki reynir á drifgetuna er bíllinn framdrifinn. Þegar framhjólin missa grip flyst hluti vélaraflsins til afturhjólanna án þess að ökumaðurinn þurfi að grípa inn í. Búnaðurinn aftengir síðan vélaraflið til afturhjólanna þegar ekki er lengur þörf á því. Fyrir vikið er bíllinn jafnan lipur í akstri og jafnframt sparast verulegt eldsneyti þegar ekki er verið að nota fjórhjóladrif nema þegar þörf er fyrir það.

Fólksbílaeiginleikarnir allsráðandi

Fólksbílaeiginleikarnir eru ráðandi í þessum bíl. Um leið hefur Honda tekist að einangra bílinn vel og hann er þægilega hljóðlátur. Bíllinn liggur vel á vegi og leggur sig furðulítið í beygjum og svo getur hann sprett verulega úr spori. Hann er sömuleiðis rásviss á mölinni en í utanvegaakstri á hann talsvert í land með getu fjórhjóladrifsbíla með millikassa. Í bröttum vegarslóða upp á Úlfarsfell missti hann grip að aftan og spólaði í sömu sporunum. Það virtist því sem drifaflið flyttist að of miklu leyti til afturhjólanna í þessu tilviki því ekki hreyfðust framhjólin.

Honda CRV kostar 2.949.000 kr. í Advance-útgáfu. Þetta er vissulega hærra verð en á flestum jepplingum en á móti kemur að bíllinn er stærri og rúmbetri en aðrir í þessum flokki og auk þess afar vel búinn. Hann er með ABS- og EBD-hemlabúnaði, fjórum loftpúðum og sjálfskiptingu. Að auki er þarna að finna afar þægilegan búnað eins og loftkælingu og hann er á álfelgum.

gugu@mbl.is