13. júní 2002 | Innlendar fréttir | 280 orð

Ísafoldarprentsmiðjan seld

GENGIÐ var frá sölu Ísafoldarprentsmiðjunnar hf. og dótturfélaga hennar, ÍP-Prentþjónustunnar og Flateyjar bókbandsstofu, í gær.
GENGIÐ var frá sölu Ísafoldarprentsmiðjunnar hf. og dótturfélaga hennar, ÍP-Prentþjónustunnar og Flateyjar bókbandsstofu, í gær. Kaupendurnir eru þeir Kristþór Gunnarsson, sem var framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar á árunum 1996-2000, Kjartan Kjartansson, prentsmiðjustjóri Ísafoldarprentsmiðju til margra ára, og Guðjón Ingi Árnason. Kaupverðið fæst ekki gefið upp.

Forsvarsmenn Ísafoldarprentsmiðjunnar fóru fram á það við Héraðsdóm Reykjaness 31. maí síðastliðinn að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Héraðsdómur varð við þeirri beiðni og skipaði Jóhann Nielsson hrl. skiptastjóra. Hann staðfesti við Morgunblaðið í gær að Landsbanki Íslands, sem var stærsti kröfuhafinn, hefði leyst til sín allar veðsettar eignir þrotabúsins og selt þær þremenningunum. Ljóst er að þar með hefur öllu verið ráðstafað úr búinu og að ekkert fæst upp í aðrar kröfur. Kröfulýsingarfrestur er þó frá 14. júní til 14. ágúst nk.

Kristþór Gunnarsson segir nýja eigendur stefna á að auka verulega við reksturinn og stækka prentsmiðjuna. Þeir taki við fyrirtækinu í fullum rekstri en nú standi fyrir dyrum að ganga frá endurráðningum starfsmanna, sem eru um 50 talsins. Segir hann þá verða endurráðna að stórum hluta.

Vilja stærri hluta af kökunni

"Fyrirtækið verður áfram rekið með sama sniði og verið hefur en þetta er mikill samkeppnismarkaður sem við störfum á og við ætlum okkur að ná stærri hluta af kökunni.

Fyrirtækið fer af stað á styrkum fótum enda er bæði fjármögnun kaupanna og rekstrarfjármögnun frágengin."

Um ástæður kaupanna segir Kristþór: "Við þekkjum vel þennan rekstur og höfðum þess vegna áhuga á að kaupa þrotabúið." Hann segir að nafninu Ísafoldarprentsmiðja verði haldið enda eigi það sér merka sögu. "Ísafoldarprentsmiðja var stofnuð 1877 af Birni Jónssyni, föður Sveins Björnssonar forseta, til að gefa út Ísafold. Það er því mikil saga í þessu nafni sem við höfum áhuga á að halda í."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.