Frá Kaupmannahöfn. Danska húsnæðislánakerfið er það elsta á Norðurlöndum og nær saga þess til um 1850, er sett voru lög um stofnun lánafélaga, sem veita skyldulán til fasteigna, þar á meðal til byggingar íbúðarhúsnæðis.
Frá Kaupmannahöfn. Danska húsnæðislánakerfið er það elsta á Norðurlöndum og nær saga þess til um 1850, er sett voru lög um stofnun lánafélaga, sem veita skyldulán til fasteigna, þar á meðal til byggingar íbúðarhúsnæðis.
DANMÖRK er landfræðilega nær Evrópu en hin Norðurlöndin, enda brú germanskra þjóðflokka er þeir í fyrndinni streymdu norður á bóginn til Skandinavíuskagans.

DANMÖRK er landfræðilega nær Evrópu en hin Norðurlöndin, enda brú germanskra þjóðflokka er þeir í fyrndinni streymdu norður á bóginn til Skandinavíuskagans. Danmörk var á síðmiðöldum þróaðasta ríkið á Norðurlöndum og var ótvírætt sterkasti aðilinn í Kalmarsambandinu, þar til Svíar risu þar upp undir forystu Gústafs Vasa.

Svíþjóð efldist upp frá því sem öflugasta ríki Norðurlanda, en Danaveldi hnignaði stöðugt og eru nú einungis Færeyjar, Grænland og Borgundarhólmur eftir af gamla stórdanska Atlantshafs- og Eystrasaltsveldinu.

Eftir að Danir duttu út úr hlutverki sínu sem Norðurlandastórveldi hafa þeir getað snúið sér að því að rækta sinn eigin garð og hefur að mörgu leyti tekist það þjóða best. Fyrirkomulag húsnæðis- og skipulagsmála í Danmörku er meðal fjölmargra vitnisburða um þetta.

Danska húsnæðislánakerfið er það elsta á Norðurlöndum og nær saga þess til um 1850, er sett voru lög um stofnun lánafélaga, sem veita skyldulán til fasteigna, þar á meðal til byggingar íbúðarhúsnæðis.

Dönsku lánastofnanirnar (realkreditinstituter) sem starfa á vorum dögum eiga uppruna sinn í þessum lánafélögum. Hliðstæð þróun hefur ekki orðið á hinum Norðurlöndunum, en þessi dönsku félög líkjast lánastofnunum víða í Evrópu, t. d. bæði svokölluðum "Bausparkassen" í Þýskalandi og "Building Societies" í Bretlandi.

Mikilvægi byggingarfélaga

Fyrr á öldum náði hin evrópska borgarmenning lítt til Norðurlanda, þó helst til Danmerkur. Strax á 17. öld bjuggu um 20% Dana í borgum og bæjum. Það hlutfall fór svo mjög hækkandi samfara iðnvæðingu landsins á 19. öld. Kaupmannahöfn bar ætíð höfuð og herðar yfir aðrar borgir og bæi Danmerkur, var jafnframt stærsta borg Norðurlanda og er það raunar enn í dag.

Verkalýðshreyfing Norðurlanda lét sömuleiðis fyrst til sín taka í Danmörku og fyrsti kosningasigur norrænna jafnaðarmanna átti sér stað í Kaupmannahöfn er tveir sósíaldemókratar voru kjörnir á danska þingið árið 1886. Þá var við völd stjórn erkiíhaldsmannsins Estrups, sem í anda þýska járnkanslarans Bismarcks taldi rétt að slá vopnin úr höndum sósíalista með því að ganga að einhverju leyti að kröfum þeirra. Það var m.a. gert með setningu fyrstu löggjafarinnar um opinberar lánveitingar til íbúðabygginga fyrir alþýðu manna árið 1887.

Byggingarfélög af ýmsu tagi höfðu starfað frá um 1850, sum í anda hugsjónastarfs og mannvináttu. Mikil uppgangsár í íbúðabyggingum á frjálsum markaði á fyrstu árum 20. aldar enduðu árið 1908 með hruni á húsnæðismarkaði og kreppuástandi árin á eftir.

Þetta leiddi til þess að danska verkalýðshreyfingin fór upp úr 1910 að beita sér skipulega í húsnæðismálum með stofnun byggingarfélaga og byggingarsamvinnufélaga verkamanna, fyrst í Kaupmannahöfn og svo um alla Danmörku. Vafalítið er að fyrstu slíkar félagastofnanirnar hér á landi árin 1919 og 1929 höfðu hina dönsku reynslu sem beinar fyrirmyndir.

Meðal helstu húsnæðisfrömuða Dana á fyrstu áratugum 20. aldar er einkum getið trésmiðsins Jens Christians Jensens (1887-1956), sem hófst til forystu í sínu fagfélagi og síðan innan húsnæðishreyfingarinnar. Hann hlaut hið öfugmælakennda viðurnefni "Christian bolignød" sökum þess hve einarðlega hann barðist gegn eymdarástandi í húsnæðismálum hinna efnaminni.

Dönsku húsnæðisfélögin voru þau öflugustu á Norðurlöndum þegar á millistríðsárunum. Að lokinni síðari heimsstyrjöldinni var í Danmörku byggt upp velferðarríki með líkum hætti og annars staðar í Skandinavíu. Öfugt við það sem gerðist hér á Íslandi var heildstæð húsnæðisstefna frá upphafi einn helsti þáttur danska velferðarþjóðfélgsins.

Danska húsnæðiskerfið einkennist ekki síst af mikilvægi húsnæðisfélaganna. Ólíkt því sem gerist í Svíþjóð eru félagslegar leiguíbúðir ekki reknar af fyrirtækjum í eigu sveitarfélaganna, húsnæðisfélögin dönsku teljast vera frjáls félagasamtök; sem slík eru þau af sama meiði og danska verkalýðshreyfingin. Mikil áhersla hefur í Danmörku verið lögð á íbúalýðræði meðal leigjenda, sem um langt árabil hefur vakið víðtæka athygli í öðrum löndum.

Róttækar breytingar fram undan?

Undanfarin 15-20 ár hafa víða um heim orðið miklar sviptingar í húsnæðismálum, sem hófust með vaxandi áhrifum nýfrjálshyggjunnar á níunda áratug 20. aldar. Á Norðurlöndum hefur slíkra sviptinga hingað til gætt einna minnst í Danmörku.

Eftir valdatöku ríkisstjórnar mið- og hægri flokka í lok síðasta árs er þetta hins vegar að breytast. Hin nýja stjórn Anders Fogh Rasmussen hefur það á stefnuskrá sinni að heimila sölu félagslegra leiguíbúða til íbúa þeirra með sama hætti og gert var í stórum stíl í Bretlandi á valdatíma Margrétar Thatcher.

Ríkisstjórn Rasmussens hefur í þessu skyni skipað sérfræðinganefnd sem ætlað er að skila tillögum um kauprétt leigjenda þann 1. janúar 2003. Jafnaðarmenn og Landsamtök húsnæðisfélaganna (Boligselskabenes Landsforening) hafa snúist kröftuglega gegn þessum tillögum. Þær hafa þó fengið allgóðan hljómgrunn og allar líkur á að þeim muni verða hrint í framkvæmd á næstu árum.

Meðal annarra aðgerða hinnar nýju ríkisstjórnar dönsku borgaraflokkanna sem hrist hafa upp í kratískri húsnæðisstefnu Dana má nefna að sjálft húsnæðisráðuneytið, sem stofnað var um það leyti sem uppbyggingarskeið eftirstríðsáranna hófst, hefur nú verið lagt niður. Þá eru einnig uppi tillögur um að leggja niður öflugustu rannsóknarstofnun danska húsnæðisgeirans, Byggingarrannsóknastofnun ríkisins (Statens byggeforskningsinstitut).

Athyglisvert er að ríkisstjórn Rasmussens er fyrsta borgararlega ríkisstjórnin í Danmörku sem leggur af stað með róttækar breytingar í húsnæðismálum. Ríkisstjórn Pouls Schlüters, sem var við völd mestallan 9. áratuginn, framkvæmdi t.d. engar slíkar breytingar. Nú eru hins vegar augljóslega breyttir tímar runnir upp í ríki Dana.