Unnið er hörðum höndum að frágangi íþróttamiðstöðvarinnar.
Unnið er hörðum höndum að frágangi íþróttamiðstöðvarinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SPORTHÚSIÐ, alhliða heilsuræktarstöð í Kópavogi, verður opnað 24. ágúst næstkomandi. Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri Sporthússins, segir að undirbúningur sé á áætlun. Fimmtíu iðnaðarmenn vinni hörðum höndum við að innrétta bygginguna og laga umhverfið.
SPORTHÚSIÐ, alhliða heilsuræktarstöð í Kópavogi, verður opnað 24. ágúst næstkomandi. Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri Sporthússins, segir að undirbúningur sé á áætlun. Fimmtíu iðnaðarmenn vinni hörðum höndum við að innrétta bygginguna og laga umhverfið. Auk Sævars er Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri miðstöðvarinnar, en Linda Pétursdóttir, eigandi Baðhússins, er kynningarfulltrúi.

Að sögn aðstandenda verður stöðin langstærsta líkamsræktarstöð á Norðurlöndum, með gólfflöt upp á 6.000 fermetra. Gamla Tennishöllin í Kópavogi verður nýtt undir stöðina, en auk þess er verið að byggja tengibyggingu, þar sem gengið verður inn í heilsuræktina, og þar verða einnig skrifstofur og móttaka.

Þjónar 15.000 manns

Ráð er fyrir því gert að íþróttahöllin muni geta þjónað um 15.000 manns, en í henni verður aðstaða til margs konar íþróttaiðkunar. Auk aðstöðu til hefðbundinnar líkamsræktar verður þar m.a. knattspyrnuvöllur með vönduðu gervigrasi, aðstaða til iðkunar, þolfimi, hnefaleika, skvass, körfubolta, tennis, badmintons, golfs og jóga. Einnig verða þar verslun og veitingastaður, auk þess sem boðið verður upp á sjúkraþjálfun.

Meðal helstu nýjunga verður fullkominn tækjasalur, sem stýrt verður með nýjustu tölvutækni. Iðkendur fá svokallaðan tölvulykil, sem veitir þeim aðgang að stöðinni og einstökum tækjum. Þjálfari velur ákveðna þjálfunardagskrá fyrir viðkomandi, sem notar lykilinn við hverja æfingu. Þá birtast fyrirmæli á tölvuskjá við tækið; hversu hratt á að fara eða hversu þung lóðin eiga að vera.

Allar upplýsingar um notandann í tölvu

Allar upplýsingar um iðkandann eru svo geymdar á tölvukerfi og getur hann því skoðað frammistöðu sína, ásamt þjálfaranum. Sævar Pétursson segir að þegar hafi verið gerður samningur við KR um þessa þjónustu fyrir allt afreksfólk félagsins.

Þá verða tveir golfhermar í húsinu, en í þeim verður svipað tölvukerfi, sem fylgist með frammistöðu iðkandans.

Linda Pétursdóttir segir að sérstaða miðstöðvarinnar felist í fjölbreytninni. "Hér verður hægt að stunda nánast allar íþróttir og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi; ungir sem aldnir; knattspyrnuáhugamenn jafnt og tennisiðkendur; körfuknattleiksmenn sem og hnefaleikamenn," segir hún.

Heildarkostnaður við framkvæmdina nemur rúmum 200 milljónum króna.