Eyktamörk á Íslandi vitna um mikla þekkingu á gangi sólar. Sólskífa frá Stóruborg á þrettándu öld sýnir að menn gerðu sér þá grein fyrir því að sólin gengur hraðast um miðjan dag miðað við sjóndeildarhringinn, en hægar kvölds og morgna. Geislalínurnar sýna
Eyktamörk á Íslandi vitna um mikla þekkingu á gangi sólar. Sólskífa frá Stóruborg á þrettándu öld sýnir að menn gerðu sér þá grein fyrir því að sólin gengur hraðast um miðjan dag miðað við sjóndeildarhringinn, en hægar kvölds og morgna. Geislalínurnar sýna
"Á öllum öldum eru til glöggir menn sem sjá það sem aðrir sjá ekki. Gömul eyktamörk sem líklega hafa haldist lítt breytt í margar aldir, sólskífa og ritaðar heimildir eru til vitnis um staðgóða þekkingu miðaldamanna á sérkennum sólargangsins."

ÉG hef mælt það, þeir stóðust ekki á. Þetta sagði Eiður Guðmundsson (1888-1984) bóndi á Þúfnavöllum í Hörgárdal. Hann sagðist hafa sett lóðréttan tein á láréttan flöt og athugað skuggana af honum í sólskininu klukkan sex að kvöldi og sex að morgni. Skuggarnir mynduðu sem sagt ekki beina línu eins og menn kynnu að halda.

Ég átti að vita þetta úr menntaskóla. Samt þurfti ég að hugsa mig um áður en ég sá hvernig í þessu lá. Flöturinn hefði þurft að hallast svo að teinninn stefndi á pólstjörnuna til þess að skuggarnir stæðust á, af því að sólin gengur eftir hallandi braut. En þessi uppgötvun hefði komið fleirum á óvart. Arngrímur lærði hefði látið sér fátt um finnast, líka Jón Árnason biskup sem samdi Fingra-Rím, ennfremur Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson höfundar Ferðabókarinnar. En höfundar Kristniréttar í Grágás hinni fornu, biskuparnir Þorlákur og Ketill, vissu betur. Á öllum öldum eru til glöggir menn sem sjá það sem aðrir sjá ekki. Gömul eyktamörk sem líklega hafa haldist lítt breytt í margar aldir, sólskífa og ritaðar heimildir eru til vitnis um staðgóða þekkingu miðaldamanna á sérkennum sólargangsins.

Rannsókn Eggerts og Bjarna

Áður en stundaklukkur komu til sögunnar og reyndar lengur miðaði alþýða manna á Íslandi tíma dagsins við það hvenær sólin var yfir tilteknum hæðum, skörðum, vörðum og öðrum kennileitum. Þessi kennileiti voru kölluð eyktamörk eða dagsmörk. Á ferðum Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar eftir miðja átjándu öld rannsökuðu þeir hvernig eyktamörkum var háttað um allt Ísland. Sá var skilningur þeirra að rétt sólarklukka fyrir hádegi væri 3, 6, 9 eða 12 þegar sól væri í norðaustri, austri, suðaustri eða suðri, og tilsvarandi eftir hádegi. Eftir þessu munu þeir hafa farið þegar þeir tiltóku hvað klukkan hefði verið þegar sól var yfir eyktamörkum.

Þessar ályktanir þeirra voru ekki fjærri lagi en samt ekki réttar. Þó að sólin gangi með svo að segja jöfnum hraða eftir hallandi braut sinni verður ganghraði hennar miðað við láréttan sjóndeildarhring breytilegur, mestur um hádegi, en minni á öðrum tímum dags. Þetta þarf að hafa í huga þegar túlkaðar eru tímasetningar Eggerts og Bjarna á því hvað klukkan hafi verið á eyktamörkum. Þegar þeir segja að klukkan sé 3 eftir hádegi, hefur sólin einfaldlega verið í suðvestri, en í hávestri ef þeir segja klukkuna vera 6, því að þeir meta tímann sennilega eftir áttinni. Áttin er hér talin í gráðum, neikvæð austur um frá suðri, en jákvæð vestur um. Að vísu væri hugsanlegt að Eggert og Bjarni hefðu notað úr sín til að finna tímann þegar sól var yfir eyktamörkum. Það hefði hins vegar verið tímafrekt á hverjum stað, og ekki hægt nema í björtu veðri frá morgni til kvölds, enda ástæðulaus fyrirhöfn ef þeir voru vissir um það samhengi milli tímans og sólaráttar sem þeir héldu fram. Úrin þeirra voru hins vegar nothæfar áttaskífur til að finna á stundinni stefnuna til allra eyktamarka ef hásuður var þekkt á staðnum.

Eyktamörk Tímaáætlun Sennileg
Eggerts og Bjarna sólarátt
Miður morgunn 41/2 - 5 fh -109
Dagmál 71/2 fh -68
Hádegi 101/2 -11 fh -19
Nón 3 eh 45
Miðaftann 6 eh 90
Náttmál 8 eh 120

Rannsókn Þorkels Þorkelssonar

Aðra og nákvæmari rannsókn á stefnunni til þekktra eyktamarka gerði Þorkell Þorkelsson veðurstofustjóri og birti í greinasafni Vísindafélagsins árið 1937. Hann mældi stefnu til eyktamarka sem hann fann á landabréfum og tilgreindi einnig meðalskekkju eða breytileika mælinganna, í gráðum til eða frá. Hér eru birtar tölur hans um samsvarandi eyktamörk og Eggert og Bjarni athuguðu.

Eyktamörk Fjöldi Sólarátt Meðal-
eyktamarka Þorkels skekkja
Miður morgunn 4 -111 10
Dagmál 10 -62 6
Hádegi 21 -14 9
Nón 45 44 11
Miðaftann 6 78 4
Náttmál 10 111 7
Ef litið er til þess breytileika í stefnunni til eyktamarka sem Þorkell fann er gott samræmi milli rannsóknar hans og Eggerts og Bjarna. Þetta styður þá skoðun sem Þorkell hélt fram að eyktamörk hafi lítið breyst í aldanna rás.

Rannsókn Rolfs Müller

Sömu ályktun má draga af þriðju rannsókninni sem Þjóðverji nokkur, Rolf Müller, gerði sumarið 1939. Hann ferðaðist vítt um landið og mældi stefnu til eyktamarka, en ekki er rannsókn hans eins ýtarleg og Þorkels. Fyrir þau eyktamörk sem Eggert og Bjarni tilgreindu fékk Müller þessar sólaráttir, í gráðum:

Eyktamark Fjöldi Meðalstefna
Miður morgunn 3 -105,7
Dagmál 8 -68,3
Hádegi 9 -23,6
Nón 10 46,7
Miðaftann 5 83,2
Náttmál 1 100,3

Samantekt þriggja rannsókna

Ef tekin eru meðaltöl af þessum þremur rannsóknum á hverju eyktamarki, verður útkoman eins og í töflunni hér á eftir, en á teikningunni sem fylgir með eru þessi sex eyktamörk sýnd eins og sólroðnir tindar á sjóndeildarhring:

Eyktamark E og B Þorkell Müller Meðaltal
Miður morgunn -109 -111 -116 -112
Dagmál -68 -62 -68 -66
Hádegi -19 -14 -24 -19
Nón 45 44 47 45
Miðaftann 90 78 83 84
Náttmál 120 111 100 110

Sólskífan frá Stóruborg

En nú er komið að enn einni heimild um þekkingu miðaldamanna á sólargangi. Það er sólskífa úr eir sem Þórður Tómasson í Skógum fann í kirkjugarðinum á Stóruborg og telur vera frá þrettándu öld.

Skífan er með gati í miðju þar sem líklega hefur verið festur lóðréttur stíll eða vísir á lárétta skífuna. Á röndinni er 21 skora og mótar fyrir þremur í viðbót, alls 24 eins og stundir sólarhringins. Skífan hefur vafalaust verið smíðuð að sumarlagi þegar sólargangur var tiltölulega langur. Sé gert ráð fyrir að það hafi verið svo sem mánuð frá sólstöðum er hægt að reikna nákvæmlega sólaráttina á hverri klukkustund um miðbik landsins, og hún er sýnd með geislalínunum á myndinni. Þá reynist sólin til dæmis vera um 54,5 gráðum fyrir vestan hásuður klukkan 3 eftir hádegi.

Það kemur nú í ljós að skorurnar á sólskífunni falla vel að reiknuðu línunum á svo að segja hverri klukkustund. Bilið milli línanna er mest 20 gráður um hádegið en minnst 13 gráður kvölds og morgna. Til þess að merkja við á skífunni á hverri klukkustund hefur þurft tímamælingu. Ekki er hægt að fjalla nánar um hana hér, en til greina kemur að sérfræðingur hafi til þess haft hallandi sólskífu, vökulampa eða vatnsklukku. En þetta góða samræmi getur varla verið tilviljun, og þarna blasir við að skuggarnir klukkan 6 að morgni og 6 að kvöldi standast alls ekki á, eins og Eiður á Þúfnavöllum komst að raun um með mælingum.

Afstaða eyktamarka

Nú er að skoða afstöðu eyktamarkanna til stundanna á sólskífunni. Þrátt fyrir nokkra ónákvæmni um dagmál og nón má heita að þau samsvari klukkunni 5, 8 og 11 fh og 2 og 5 eh. En sjötta eyktamarkið fellur reyndar á kl. 7 eh en ekki 8.

Í suðlægum löndum er birtan ekki miklu meiri en 12 stundir, fjórar þriggja tíma eyktir frá kl. 6 að morgni til 6 að kvöldi, eftir sóltíma. Þessu mundu tilheyra fræðileg eyktamörk ef svo má kalla þau, kl. 3, 6, 9 og 12 fh og 3, 6, 9 og 12 eh, og þau eru sýnd á geislalínunum á myndinni. En að sumrinu hér norður frá er hægt að flýta öllum fræðilegum eyktamörkum á tímabilinu frá kl. 6 fh til 6 eh um eina stund, eins og örvarnar benda til, en náttmálum kl. 9 eh um tvær stundir. Þá nýtist sumarbirtan vel, klukkustund er bætt við vinnudaginn að morgni og annarri að kvöldi, og sólin verður jafn hátt á lofti við náttmál og rismál eins og ráða má af myndinni. Á bak við þetta er sama hugsun og sumartímann sem er notaður í mörgum löndum og reyndar allt árið hér á landi.

Af þessu verður ljóst hvað sólskífan var mikið þarfaþing. Eftir henni var hægt að smíða nýjar og með þær var hægt að fara milli bæja í mörgum sveitum og velja eyktamörk í skyndi, ef aðeins var fyrst fundið út hvar hásuður væri á hverjum stað. Það gátu skynsamir menn með því að mæla sólarhæð einu sinni fyrir hádegi, til dæmis með skugganum af lóðréttum staur, og finna hvenær hún var jafn mikil eftir hádegi, en marka suður mitt á milli. Þannig skýrist það að allgott samræmi sýnist vera milli eyktamarka um land allt eftir þeim rannsóknum að dæma sem hér hefur verið sagt frá og að bilið milli eyktamarka er mun meira um hádaginn en á kvöldin og morgnana.

Alls gætu eyktamörkin verið átta á sólarhringnum, svo að auk þeirra sem hér hafa verið talin væru miðnætti og síðan ótta þremur tímum síðar. En það kemur fram í Ferðabók Eggerts og Bjarna og í grein Þorkels að þessara tveggja eyktamarka sé mjög sjaldan gætt. Eyktamörkin hafa því að líkindum afmarkað vinnudaginn á sumrin, bjartasta hluta sólarhringsins, og verið eingöngu notuð frá miðjum morgni (rismálum) til náttmála þegar fólk gekk til hvílu.

Fróðlegt er að bera þessar niðurstöður saman við reynsluna af því þegar símaklukkan svonefnda kom til sögunnar með íslenska staðaltímann sem er sá sami um allt land, ólíkt sóltímanum sem breytist með lengdargráðunum. Þegar fólk í sveitum landsins fékk sér klukkur á nítjándu öld voru þær eðlilega stilltar í samræmi við eyktamörkin. Um leið og vitneskja barst um staðaltímann á landinu, fyrst og fremst með símanum en síðar útvarpinu, kom í ljós að klukkurnar á bæjunum voru oft einni stund fljótari en símaklukkan, og reyndar hálfum öðrum tíma á vestanverðu landinu. Þetta kölluðu menn búmannsklukkur og kunnu betur við þær en nýja siðinn. Sumir höfðu jafnvel klukkuna sína tveimur tímum á undan staðaltímanum. Þetta var vel þekkt í Borgarfirði á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þetta kemur heim við þær rannsóknir eyktamarka sem hér hefur verið getið.

Því má bæta við að Uno von Troil kom til Íslands árið 1772 og segir frá eyktamörkum í bók sinni, Bréf frá Íslandi, án þess að geta nánar um rannsóknir sínar eða annarra á því efni. Umsögn hans er mjög svipuð og Eggerts og Bjarna, enda jós hann mjög af þeim brunni sem Ferðabók þeirra var. Sá er þó munurinn að Uno von Troil taldi miðjan morgun vera klukkan 5 í stað 41/2 til 5 og hádegi klukkan 11 í stað 101/2 til 11. Þetta breytir þó litlu. Það gæti líka stafað af ónákvæmni eða einföldun í endursögn, og er því sniðgengið hér á undan.

Árin 1814-15 ferðaðist svo Ebenezer Henderson um Ísland og minnist á tímareikning Íslendinga í sinni ferðabók. Hann segir athugasemdalaust að eyktamörk séu með jöfnu millibili, og á þá líklega við tíma fremur en sólarátt, enda telur hann eyktamörkin sett klukkan 2, 5, 8 og 11 fyrir og eftir hádegi, eftir "enskum tíma". Þó nefnir hann að í grennd við kaupstaðina séu eyktamörkin nær "okkar tíma", en ekki getur hann um neina sérstöðu náttmála. Ef rétt er skilið er þetta í allgóðu samræmi við þær ályktanir sem hér hafa verið dregnar, að við setningu eyktamarka hafi oftast verið notuð eins konar búmannsklukka, um það bil klukkustund of fljót. En gráðubilið milli eyktamarka ætti þá að hafa verið haft misjafnt til þess að milli þeirra yrðu því sem næst 3 klukkustundir.

Í Kristinrétti Grágásar er merkileg heimild sem bendir til þess að eyktarstaður sé 52,5 gráður fyrir vestan hásuður. Þessi eyktarstaður er sýndur á teikningunni og ekki munar nema þremur gráðum á honum og því eyktamarki nóns sem teikningin sýnir. Þarna skeikar aðeins því að á miðju landinu er sólin að jafnaði yfir þessum eyktarstað klukkan 3 eftir hádegi um miðjan ágúst, en ekki mánuð frá sumarsólstöðum eins og sýnist eiga öllu betur við sólskífuna frá Stóruborg.

Þegar á allt er litið sýna eyktamörkin að ýmsir menn á miðöldum hafa sennilega haft þekkingu á samhengi tíma og sólargangs sem er aðeins á færi fárra annarra en sérfræðinga nú á dögum. Þessi vitneskja fróðustu manna hefur svo skilað sér til flestra byggðra bóla í landinu þegar eyktamörk voru valin og löguð eftir búhyggindum.

Eyktarstaður og vetrarbyrjun

Auk heimildarinnar úr Grágás er eyktarstaður nefndur í Grænlendinga sögu og Snorra-Eddu þar sem skýrt er frá skiptingu ársins í fjórar árstíðir, haust, vetur, vor og sumar:

Frá jafndægri er haust til þess er sól sest í eyktarstað. Þá er vetur til jafndægris. Þá er vor til fardaga. Þá er sumar til jafndægris.

Nálægt jafndægri á vori fóru snjóalög oftast að minnka vegna vaxandi sólbráðar, um fardaga hófst búskaparárið, og nærri jafndægrum á hausti hófst sláturtíð en heyskap lauk. Allar eru þessar skilgreiningar skiljanlegar og einhlítar. Hér er klipið framan og aftan af sumarmisseri og aftan af vetrarmisseri til þess að koma fyrir hausti og vori með þeim störfum og veðurlagi sem þeim tilheyra. Til samræmis er því eðlilegt að álykta að haustið hafi verið látið ná eitthvað fram á vetrarmisserið. Það er með öðrum orðum ólíklegt að árstíð vetrarins hafi hafist um leið og eiginlegt vetrarmisseri, enda hefði árstíð haustsins þá ekki verið nema einn mánuður.

Þá er komið að þessari merkilegu umsögn að vetrarbyrjun hafi verið þegar sól settist í eyktarstað. Beinast liggur við að ætla að átt sé við hina fræðilegu skilgreiningu eyktarstaðar í Grágás, 52,5 gráðum fyrir vestan hásuður. Ef vetrarárstíðin ætti hins vegar að byrja um leið og vetrarmisserið yrði eyktarstaður að vera um 65 gráðum fyrir vestan hásuður. Til þess sýnast ekki rök, enda yrði haustið þá ekki nema einn mánuður. Ekki er heldur líklegt að þessi vetrarbyrjun sé á Klemensmessu 23. nóvember eins og Þorkell Þorkelsson taldi hugsanlegt út frá tímatali kirkjunnar, því að þá mætti eyktarstaður ekki vera meira en 33 gráðum fyrir vestan hásuður.

En sé eyktarstaður 52,5 gráður vestur af suðri eins og greint er frá í Grágás, væri þessi byrjun vetrar sem einnar af fjórum árstíðum á tímabilinu 3. til 9. nóvember á landinu eftir nýja stíl, og það virðist í allgóðu samræmi við búskaparhætti og veðurfar. Þetta er á milli allraheilagramessu 1. nóvember og Marteinsmessu 10. nóvember, en ýmislegt bendir til að ekki seinna hafi menn verið að ljúka haustverkum og hefja vetrarstörf. Um 10. nóvember er hitinn í meðalári á Íslandi að síga niður fyrir frostmark við yfirborð jarðar, og þá er gott að hafa lokið þeim haustverkum að bera fjóshaug á völl og dytta að húsum. Hrútum átti að halda frá ánum fyrir Marteinsmessu og til þess þurfti oft fyrstu vetrarsmölunina, ella gátu kollóttir lambhrútar leynst innan um ærnar. Með þeirri smölun hófst vetrarhirðing sauðfjár. Slátrun var haustverk, og í lok hennar þegar matarbirgðir voru hvað ríkulegastar var stundum haldin svonefnd sviðamessa, en hún var ýmist tengd við vetrarbyrjun eða allraheilagramessu. Eftir þessa forðasöfnun var bændum ætlað á allraheilagramessu að gefa fátækum sem svaraði einum kvöldverði hjúa sinna, en þurfamannatíund og aðrar gjafir til fátækra átti að inna af hendi fyrir Marteinsmessu. Því er ekki óeðlilegt að vetur sem ein af hinum fjórum árstíðum hefjist snemma í nóvember að okkar tímatali þegar eiginlegum hauststörfum er lokið og annir vetrarins teknar við. Það bendir til samræmis milli heimildar Grágásar og Snorra-Eddu um eyktarstað.

Með þessu móti verða árstíðirnar mislangar, haustið einn og hálfur mánuður og má varla styttra vera, vorið tveir og hálfur, sumarið þrír og hálfur og veturinn fjórir og hálfur. Þessu ráða búnaðarhættir og veðurfar. Sumar og vetur eru hvort um sig með áþekka veðráttu í langan tíma, en haust og vor eru verulegar hitabreytingar að verða frá upphafi til loka árstíðarinnar sem hlýtur þá að verða tiltölulega stutt.

Eyktarstaður í Leifsbúðum

Í Grænlendinga sögu er sólargangi lýst svo þar sem Leifur Eiríksson hafði vetursetu í Leifsbúðum.

Sól hafði þar eyktarstað og dagmálastað í skammdegi.

Orðið hafði hefur hér væntanlega merkinguna náði. Þetta má því skilja svo að sól hafi sest í eyktarstað 52,5 gráður fyrir vestan suður og þá auðvitað komið upp jafn langt fyrir austan suður ef ekki skyggðu fjöll. Þegar ég heimsótti Leifsbúðir í L´Anse aux Meadows á Nýfundnalandi gekk ég stuttan spöl þaðan suður á klapparholt sem var nógu hátt til þess að sól mátti sjá við láréttan sjóndeildarhring bæði í dagmálastað og eyktarstað, eins og líka má ráða af kortum. Ef með skammdegi er átt við sex vikna tímabil um vetrarsólstöður, má reikna út frá þessu að hnattbreidd staðarins hafi verið 51 og hálf gráða, rétt eins og hnattbreidd norrænu rústanna sem Helge Ingstad fann. Varla er hægt að krefjast nákvæmari lausnar á þeirri staðsetningu.

Samanlagt eru heimildirnar um eyktamörk, sólskífu og skilgreiningu eyktarstaðar til vitnis um góða þekkingu miðaldamanna á gangi sólar.

EFTIR PÁL BERGÞÓRSSON

Höfundur er veðurfræðingur.