29. ágúst 2002 | Viðskiptablað | 692 orð

Sökudólgurinn og fórnarlambið

HELSTU fréttir af alþjóðafjármálamörkuðum árið 2002 hafa tengst bókhaldssvikum (WorldCom), víðtækum svikamyllum starfsmanna (Enron), ólöglegum innherjaviðskiptum (Enron, Martha Stewart) og fjármálafyrirtækjum sem aðstoðuðu aðila beint og óbeint við slíka...
HELSTU fréttir af alþjóðafjármálamörkuðum árið 2002 hafa tengst bókhaldssvikum (WorldCom), víðtækum svikamyllum starfsmanna (Enron), ólöglegum innherjaviðskiptum (Enron, Martha Stewart) og fjármálafyrirtækjum sem aðstoðuðu aðila beint og óbeint við slíka ástundun (J.P. Morgan Chase og Citigroup). Áhrifin hafa verið afar neikvæð á gengi flestra hlutabréfa vegna vaxandi vantrausts almennings á stjórnendur fyrirtækja almennt.

Það er ekki lengra síðan en um miðbik níunda áratugarins að svipuð þróun átti sér stað í Bandaríkjunum, þá jafnvel í enn stærra mæli. Það voru þó ekki stjórnendur fyrirtækja sem voru sökudólgarnir og margir þeirra voru reyndar fórnarlömb. Hinir seku voru starfsmenn fjármálafyrirtækja sem með margvíslegum hætti auðguðust ævintýralega. Þetta er viðfangsefni bókar James B. Stewart, Den of Thieves. Titillinn vitnar í frásögn úr nýja testamentinu þegar Jesús henti víxlurum úr musterinu með þeim orðum að það ætti að vera hús bænarinnar, ekki þjófabæli. Fyrri hluti bókarinnar lýsir nýju umhverfi bandarískra fjármálamarkaða á níunda áratugnum og þeirri spillingu sem tengdist því. Fjandsamlegar yfirtökur fyrirtækja urðu sífellt tíðari sem skapaði svigrúm til misnotkunar. Þeir sem unnu að slíkum undirbúningi gátu auðgast sjálfir, því þegar upplýsingarnar urðu opinberar hækkaði gengi bréfa fyrirtækja sem átti að yfirtaka töluvert. Menn eins og Dennis Levine og Martin Siegel urðu stjörnur með undraverðum hraða. Sá fyrrnefndi hagnaðist á stöðutökum í fyrirtækjum og sá síðarnefndi seldi vitneskju sína sem var byggð á trúnaðarupplýsingum sem almenna ráðgjöf. Frægastir voru hins vegar Ivan Boesky og Michael Milken. Fjármögnun á yfirtökum fyrirtækja varð í sífellt meira mæli með lánum og þá aðallega í skuldabréfum. Michael Milken var þar langfremstur í flokki og var, ekki að ósekju, gjarnan kallaður konungur fyrirtækjaskuldabréfa, eða "The Junk Bond King". Fyrir hans tilstuðlan var fyrirtækið sem hann vann hjá, Drexel Burnham Lambert, nánast einráða á þeim vaxandi markaði. Landslag fyrirtækjareksturs breyttist með ógnarhraða. Fyrirtæki með stöndugan efnahagsreikning fóru að líta heimskulega út enda voru yfirtökur og skuldsetningar boðskapur þess tíma. Slík fyrirtæki urðu auk þess sjálf auðveldari bráð fyrir slíkum yfirtökum. Milken þénaði einnig ólöglega með margvíslegum öðrum hætti, meðal annars með skattsvikum og ólöglegum innherjaviðskiptum í gegnum eignarhaldsfélög sem í mörgum tilvikum gekk út á að fela stöðutökur í ákveðnum félögum sem til stóð að yfirtaka. Þar kom Boesky til skjalanna, en hann var leppur Milken við slíkar fjárfestingar til að komast hjá því að flagga stækkandi stöðu í félaginu. Boesky lét sér ekki nægja að fjárfesta ólöglega fyrir Milken, heldur tók hann sjálfur stórar stöður í þeim í sínu nafni og annarra. Spákaupmennska varðandi yfirtökur varð ein helsta ástæða þess að hlutabréfavísitölur hækkuðu fram að haustinu 1987. Það er merkilega lítt þekkt að orðrómur fór af stað 14. október um að lagasetning væri í undirbúningi með því markmiði að hefta vaxtakostnað sem gjaldfærslu vegna fjandsamlegra yfirtaka. Orðrómurinn er talinn af sumum vera kveikjan að hruninu mikla á hlutabréfamörkuðum fimm dögum síðar. Í seinni hluta bókarinnar er eftirför yfirvalda eftir glæpamönnunum lýst. Fremstir í flokki voru fjármálaeftirlitið (SEC) og þáverandi ríkissaksóknari, Rudolph Giuliani, síðar borgarstjóri New York-borgar, en hann stóð kaldhæðnislega síðastliðið haust aftur í ströngu við að hreinsa upp Wall Street en í annarri og skelfilegri mynd. Sú lesning er á tíðum eins og reyfari sem erfitt er að leggja frá sér. Þótt vel hafi gengið í fyrstu að sanna glæpi smáfiskanna gekk brösuglega að kom Milken og stærri löxum í steininn. Það komst ekki almennilegur skriður á þá rannsókn fyrr en haft var uppá fyrrverandi starfsmanni fyrirtækis sem var í viðskiptum við Drexel, sem var rekinn því hann neitaði að taka þátt í samsærum. Endirinn var sá að Milken var ekki aðeins fangelsaður, heldur þurfti hann að greiða hæstu sekt sem einstaklingur hefur verið sektaður um, eða 600 milljónir dala, sem margir hafa samt sem áður talið vera vel sloppið, enda þénaði hann 550 milljónir dala árið 1986.

Í ljósi atburða síðastliðna mánuði á verðbréfamörkuðum er Den of Thieves afar áhugaverð lesning. Bókin er skemmtilega skrifuð og lýsir atburðum með lifandi hætti. Boesky sagði eitt sinn við útskriftarræðu að græðgi væri í fínu lagi, en sú setning var notuð í ögn breyttri mynd skömmu síðar í myndinni Wall Street. Undanfarnir atburðir sanna að nöfnin og umgjörðin hafa breyst en græðgin verður sumum ávallt að leiðarljósi og stundum að falli.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.