22. október 2002 | Fasteignablað | 680 orð | 1 mynd

Tryggvaskáli - laglegt hús við brúna

Tryggvaskáli á Selfossi. Saga hans er samofin sögu bæjarins.
Tryggvaskáli á Selfossi. Saga hans er samofin sögu bæjarins.
Tryggvaskáli setur enn mikinn svip á Selfoss. Þar var lengstum rekin umfangsmikil veitinga- og greiðasala. "Við ætlum að koma Tryggvaskála til vegs og virðingar á ný," sagði Bryndís Brynjólfsdóttir hjá Skálafélaginu í samtali við Guðrúnu Guðlaugsdóttur um endurbyggingu Tryggvaskála sem nú stendur yfir.
HINN 23. janúar 1895 ritar Tryggvi Gunnarsson alþingismaður Sigurði, sýslumanni í Kaldaðarnesi, og spyr hvort sýslan geti ekki notað "laglegt hús við brúna fyrir þinghús og fyrir fundi, t.d. kjörfundi og fleiri fundi".

Þarna var um að ræða nýbyggðan Tryggvaskála sem 6. október 1896 var sagður 10 álna víður og 12 álna langur, úr timbri með lofti yfir þar sem voru fjögur herbergi afþiljuð.

Árið 1899 keypti sýslan og landssjóður Tryggvaskála svo sýslan ætti húsnæði sem ætlað væri til fundahalda.

Vorið 1901 fluttist fyrsti gestgjafinn í Tryggvaskála. Það var Þorfinnur Jónsson, og setti hann strax upp gistingu og greiðasölu fyrir ferðamenn. Þá var Tryggvaskáli enn í upprunalegu horfi. Þorfinnur keypti Tryggvaskála af sýslunni 1904 og byggði síðar við hann og seldi hann svo 1918.

Tryggvaskáli gekk kaupum og sölum næstu árin og var þar rekin greiðasala. Vorið 1934 reisti Guðlaugur Þórðarson samkomusal við Skálann og varð þá mikil breyting til veitingareksturs og samkomuhalds. Guðlaugur og dætur hans ráku Tryggvaskála til 1942.

Í samtali við Bryndísi Brynjólfsdóttur sem er í Skálafélaginu sem stofnað var til verðveislu Tryggvaskála kom fram að hótelrekstur í Tryggvaskála var umfangsmikill eftir 1942 og fram til ársins 1974. Brynjólfur Gíslason, faðir Bryndísar, rak Tryggvaskála allan þennan tíma.

"Ég er fædd og alin upp í þessu húsi," segir Bryndís. "Mér er minnisstætt allt margmennið sem alltaf var í húsinu þegar ég var að alast upp. Heimili okkar var uppi á lofti og hótelherbergin voru við hlið íbúðarinnar okkar en veitingasalan var niðri.

Fjölmenni árið um kring

Það var mikið fjölmenni í Tryggvaskála allt árið um kring. Vegargerðarmenn voru þarna t.d. meira og minna alla vetur, svo og menn frá Rafveitu ríksins. Símamenn komu mikið og svo bílstjórar sem voru að ferðast um með vörur. Allt þetta fólk kom og borðaði og gisti stundum og einnig venjulegt ferðafólk. Margt starfsfólk var jafnan í Tryggvaskála og margar konurnar störfuðu þar átatugum saman.

Ég var að vinna í Tryggvaskála frá barnæsku, fyrst í sjoppunni og síðan í salnum við að þjónusta. Loks gerðist ég kokkur og hótelstjóri hjá foreldrum mínum. Mamma mín, Kristín Árnadóttir, sá alltaf um allt sem laut að peningamálum og starfsmannahaldi."

Breyttist Tryggvaskáli mikið á þessum tíma?

"Nei, ekki svo mjög. Það fór fram venjulegt viðhald en svo voru miklar lagfæringar gerðar eftir flóðið í Ölfusá 1968. Þá flæddi upp fyrir glugga, það var um 40 sentimetra hátt vatnsborðið í veitingasalnum, neðri hæð hússins. Það skemmdist mikið í veitingasalnum. Enn er þó sama gólfið, það stóð af sér flóðið, aðeins þurfti að þurrka það vel og lakka það á ný.

Foreldrar mínir seldu Selfossbæ Tryggvaskála 1974, þau voru þá orðin fullorðin og þreytt á veitingarekstrinum. Eftir það fór bærinn að nota Tryggvaskála til útleigu vegna ýmiss konar félagsstarfs. Einnig var félagsmálastofnun Selfossbæjar til húsa í Tryggvaskála.

Skálafélagið var stofnað um 1995 og var markmið þess að endurbyggja Tryggvaskála og til stendur að hafa í skálanum menningartengda veitingastarfsemi."

Hversu langt er komið í endurnýjun hússins?

"Við erum búin að skipta um allt járn utan á húsinu og setja nýja glugga, sem og nýtt gler. Við erum búin að einangra allt húsið og byggja við nýtt eldhús og nýja salernisaðstöðu. Endurbyggingu er nú nýlega lokið á stóra salnum, þar sem aðalveitingareksturinn var jafnan. Næsta verkefni er að ráðast í endurgerð eldri hluta hússins, það verður væntanlega gert á næstu dögum. Það er sá hluti sem Tryggvi Gunnarsson byggði fyrir brúarsmíði sína árið 1890. Páll V. Bjarnson arkitekt í Reykjavík, sem m.a. sá um endurbættur á Iðnó, hefur hannað breytingarnar á öllu húsinu.

Ekki er ljóst hvenær veitingasala getur hafist á ný í Tryggvaskála - það fer eftir því hvernig okkur í Skálafélaginu gengur að afla fjármuna til framkvæmda á næstunni. Félagsmenn hafa unnið í sjálfboðavinnu við að afla peninga til framkvæmdanna og einnig töluvert við endurnýjunina sjálfa.

Við í Skálafélaginu ætlum að koma Tryggvaskála til vegs og virðingar á ný og þess ber að geta að það eru fá sveitarfélög á landinu sem eiga enn uppistandandi fyrsta húsið sem reist var á viðkomandi þéttbýlisstað. Segja má að saga Selfoss sé samofin sögu Tryggvaskála. Í Tryggvaskála var fyrsti barnaskólinn, fyrsta símstöðin, fyrsti bankinn og þannig mætti lengi telja."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.