29. október 2002 | Innlendar fréttir | 743 orð | 1 mynd

Algengt vandamál og þörfin mjög brýn

Málfríður Lorange
Málfríður Lorange
Málfríður Lorange er fædd árið 1951. Lauk kandídatsprófi í sálfræði frá Árósaháskóla 1981 og var síðan í framhaldsnámi í fjölskyldumeðferð 1981-83. Framhaldsnám í taugasálfræði barna og unglinga í Hollandi 1995-96.
Málfríður Lorange er fædd árið 1951. Lauk kandídatsprófi í sálfræði frá Árósaháskóla 1981 og var síðan í framhaldsnámi í fjölskyldumeðferð 1981-83. Framhaldsnám í taugasálfræði barna og unglinga í Hollandi 1995-96. Forstöðumaður sálfræði- og sérkennsludeildar Leikskóla Reykjavíkur 1987-95. Starfandi yfirsálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans frá 1996. Rekur ásamt öðrum fræðslu- og ráðgjafaþjónustuna Eirð sf. Maki er Hilmar Pétursson líffræðingur og eiga þau 3 börn, Rúnar, Solveigu og Emil.

Málfríður Lorange er fædd árið 1951. Lauk kandídatsprófi í sálfræði frá Árósaháskóla 1981 og var síðan í framhaldsnámi í fjölskyldumeðferð 1981-83. Framhaldsnám í taugasálfræði barna og unglinga í Hollandi 1995-96. Forstöðumaður sálfræði- og sérkennsludeildar Leikskóla Reykjavíkur 1987-95. Starfandi yfirsálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans frá 1996. Rekur ásamt öðrum fræðslu- og ráðgjafaþjónustuna Eirð sf. Maki er Hilmar Pétursson líffræðingur og eiga þau 3 börn, Rúnar, Solveigu og Emil.

FRAMUNDAN eru námskeið fyrir foreldra barna og unglinga með athyglisbrest með ofvirkni og hegðunarvanda. Um algeng vandamál er að ræða og að sögn aðstandenda námskeiðanna er þörfin fyrir fræðslu af þessu tagi mjög brýn. Málfríður Lorange sálfræðingur er í forsvari fyrir námskeiðin og svaraði hún nokkrum spurningum Morgunblaðsins.

Segðu okkur eitthvað um námskeiðin, yfirskrift þeirra, hvar haldin og hvenær?

"Þetta eru námskeið fyrir foreldra barna og unglinga með athyglisbrest með ofvirkni og hegðunarvanda. Þau eru haldin á vegum Foreldrafélags misþroska barna og fræðslu- og ráðgjafaþjónustunnar Eirðar. Þessi námskeið hafa verið haldin reglulega undanfarin ár en hefur nú verið skipt í styttri námskeið sem höfða til foreldra barna á grunnskólaaldri og foreldra unglinga. Einnig höfum við nú þegar haldið eitt grunnnámskeið fyrir foreldra barna sem nýlega hafa greinst með athyglisbrest með ofvirkni. Námskeiðin eru haldin í Safnaðarheimili Háteigskirkju eða fundarsal Öryrkjabandalagsins í Hátúni. Næstu tvö námskeið verða laugardagana 2. og 9. nóvember fyrir foreldra grunnskólabarna og laugardagana 16. og 23. nóvember fyrir foreldra unglinga."

Hver er tilgangur þessara námskeiða?

"Markmiðið með námskeiðunum er að fræða foreldra um athyglisbrest með ofvirkni, orsakir hans, eðli og einkenni og hvað er til ráða. Athyglisbrestur með ofvirkni er hegðunartruflun sem kemur oft mjög snemma fram hjá börnum og orsakirnar eru alltaf líffræðilegar. Barnið eða unglingurinn ræður illa við að stjórna hegðun sinni. Alls ekki er um að kenna röngu uppeldi en hins vegar skiptir öllu máli að foreldrar læri og tileinki sér ákveðna nálgun og uppeldisaðferðir sem vitað er að henta ofvirkum börnum. Það gleymist stundum að einkennin eru þrenns konar, athyglisbrestur, hvatvísi og hreyfióróleiki. Einkennin eru auðvitað mismikil hjá einstaklingum og geta verið töluvert breytileg eftir aldri. Hreyfióróleikinn er mest einkennandi á yngri árum en á unglingsárunum verður hann minna áberandi en segja má að innri óróleiki komi í staðinn. Athyglisbresturinn kemur hvað skýrast fram þegar barnið byrjar í skóla og getur oft haft mikil áhrif á nám. Hvatvísin kemur börnum oft í vandræði og því þurfa þau oft meira eftirlit en önnur börn. Sama gildir um unglingsárin."

Hverjar verða helstu áherslurnar?

"Á námskeiðunum verður farið yfir helstu einkenni, tíðni, orsakir, meðferð og horfur. Þá verður fjallað um hvaða áhrif það hefur á samskipti innan fjölskyldunar ef ofvirkt barn er í fjölskyldunni og samskipti þess við önnur börn. Fjallað verður um hegðunarmótandi aðgerðir og þarfir barnanna í skóla. Einnig verður fjallað um sjálfsmynd þeirra og mikilvægi þess að styrkja hana."

Hver verða efnistökin, þ.e.a.s hvernig byggir þú námskeiðin upp?

"Námskeiðin eru í fyrirlestrarformi og eru 5-6 fyrirlestrar á hverju námskeiði. Hver fyrirlestur er 45 mínútur og foreldrum gefst kostur á fyrirspurnum eftir hvern þeirra. Fyrirlesarar verða margir og hafa allir langa reynslu af greiningu og meðferð ofvirkni."

Hver er þörfin fyrir þetta efni?

"Þörfin er mikil af ýmsum ástæðum. Tíðni ofvirkni er allhá eða í kringum 5%. Oft vita foreldrar og aðrir sem koma að uppeldi barnanna ekki hvernig best er að taka á ýmsu varðandi hegðun þeirra. Ofvirkni leiðir oft til erfiðleika í námi og í skóla sem við vitum meira um nú en áður og er námsstaða þeirra oft verri en tilefni er til. Þá er við að bæta að einn mikilvægasti þáttur í meðferðinni er fræðsla. Ekki er hægt að lækna ofvirkni, heldur er hægt að halda einkennunum niðri bæði heima og í skóla með réttri meðferð."

Er eitthvað sem þú telur að bæta þurfi við þetta hjá okkur?

"Ég vil benda foreldrum sérstaklega á unglinganámskeiðin sem eru nýlunda. Ofvirk börn þurfa að glíma við sérstök viðfangsefni hvers aldursskeiðs eins og öll önnur börn og unglingsárin geta oft verið erfið hjá þessum hópi."

Síðan má bæta því við hér í lokin, að nánari upplýsingar og skráningu á námskeið má fá og gera með því að hringja í Foreldra misþroska barna í síma 581 1110.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.