Allt mitt líf hef ég sótt Ísland heim og það er margt sem gerir það að verkum að ég sný aftur ár eftir ár. Því mikilvægasta má lýsa með einu orði: veðrun. Orðið veðrun er samheiti fyrir órofin heilindi þegar það er notað um landslaeg Íslands.

Allt mitt líf hef ég sótt Ísland heim og það er margt sem gerir það að verkum að ég sný aftur ár eftir ár. Því mikilvægasta má lýsa með einu orði: veðrun. Orðið veðrun er samheiti fyrir órofin heilindi þegar það er notað um landslaeg Íslands. Veðrun er lykilatriði í mótun stórs hluta af því sem er sjáanlegt hér, og þar af leiðandi líka í yfirbragði eyjunnar. Þetta yfirbragð Íslands er einstætt. Ekkert annað landslag jafnast á við það. Það sem gerir það einstakt felst ekki einungis í stökum landmyndunum og stöðum, hversu sérstæðir sem þeir eru, heldur í legu landsins sjálfs og kraftmikilli og lagskiptri jarðfræðinni - en allt tengist þetta í síkviku samhengi. Og svo má telja "hvernig" landslagsins; þetta "hvernig" sem er svo ótrúlega augljóst. Því allt sem ber þar fyrir augu er jafnframt sýn á hvernig það varð til, og hvernig sú saga sem það síðan hefur átt breytti því. Hvort sem maður horfir yfir flæði Eldhrauns niður Skaftá, eða á hvernig jörðin rifnaði í Eldgjá, á uppruna Eldhrauns í Laka, eða öskuna og móbergið sem vex ár frá ári við hvert Heklugos. Og þannig mætti lengi telja upp "hvernig" þessarar eyju auk alls um sérstæða legu hennar sem blasir svo augljóslega við sjónum. Landslag annarsstaðar er of gamalt í jarðfræðilegum skilningi, veðrunin of langt gengin, og sú gróðurmyndun sem fylgir í kjölfarið of yfirgnæfandi til að hægt sé að nema slíka sýningu. Og sýning er það svo sannarlega - í þeirri bókstaflegu merkingu er felur það í sér að vera hrífandi og vel til þess fallin að blása manni undrun og óttablandinni lotningu í brjóst. Sú sýning, sem Ísland er, hverfist um nýstárleika, breytileika og hið óþekkta. Allt eru þetta fágætir eiginleikar í landslagi á tuttugustu og fyrstu öldinni.

Veðrun er oft álitin eyðileggingarafl. En það er þó einungis þegar landslag er ekki í jafnvægi innan stærri heildar, að kraftar veðrunar verða neikvæðir. Fram að þeim tíma er veðrun fyrst og fremst mótandi og jákvætt afl - er sameinar og blandar á sinn flókna máta, er bræðir saman heild úr breiðu sviði ólíkra ummerkja - og myndar, hér á Íslandi, samfellu innan um fjöldann allan af fágætum jarðfræðilegum atburðum sem láta lítið yfir sér. Þessir atburðir og sá samruni sem síðar á sér stað eru undirstaða íslenskrar sjálfsmyndar.

Maður getur ekki ferðast langa leið án þess að dást að því viðkvæma jafnvægi er gefur færi á jafn einstæðum bergmyndunum og við Lóndranga eða Rauðfeldargjá og Aldeyjarfoss. Færi á hinni furðulegu eyðingu við Hellnar og tignarlegum og hreinlega ótrúlega ydduðum tindum Austfjarða, eða hinum framúrskarandi sjónarhornum friðsældar og fullkominni rúmfræði veðrunar sem mótar allar fjallshlíðar. Og fjölmörgum öðrum jarðmyndunum og einstökum jarðfræðilegum ummerkjum hér og þar um landið, í hverjum krók og kima, í öllum mögulegum formum myndrænnar veðrunar; Ísland færir hverjum þeim sem ferðast meðal auðæva þess endalausar uppgötvanir.

Veðrun verður að vernda fyrir mannlegum afskiptum, með fáum hagnýtum undantekningum. Landið verður að vernda með það fyrir augum að tryggja órofna heild þess og það jafnvægi sem þar ríkir, og með það fyrir augum að viðhalda tilgerðarlausu útsýninu sem og sjónrænni heild landslagsins.

Gefið til dæmis Sprengisandi nánari gaum - stað sem einkennist af veðrun. Hefur þú verið þar? Gróðursnautt yfirborðið er mestmegnis svart. Það samanstendur af smáum svörtum steinvölum og svartri ösku. Steinvölurnar eru nú greyptar í öskuna með þeim hætti að hver einasta vala á sína eigin holu. Holurnar eru staðsettar á afslappaðan hátt svo steinvölurnar rekast ekki saman. Þetta er ákaflega snyrtilegt landslag, þar sem allt er á sínum stað. Þegar maður tekur steinvölu upp er rofið gat í það. Hnúðar eða hnúskar eru engir, heldur bara slétt yfirborð þar sem þessum völum og holum er raðað hirðusamlega svo þær mynda hæðir og dali, á hátt sem minnir á hellulögn. Hér er um veðrun að ræða sem stendur fyllilega jafnfætis bestu verkfræði hvað jafnvægi og margslungið eðli varðar.

Eða gefið svæðinu í kringum Kjöl nánari gaum, þar sem jarðvegurinn er yfirleitt hulinn gróðri sem er í senn viðkvæmur og líflegur, þrátt fyrir að vera dreifður og ósamfelldur. Hver einasti fíngerður gróðurbrúskur hefur skotið rótum í gljúpri öskunni. Hver og einn þeirra er eyja sem hefst við af fágætum styrk. Og innan um þessa brúska flórunnar má koma auga á liti og áferð og líf, fínstillt og í jafnvægi eins og í teikningum Dürers og Grünewald.

Maður ferðast og gróðurhulan breytist. Í Eldgjá er hún eins og úfið haf mosa sem vindurinn hefur mótað - öldurót ofið úr plöntum, mosi í líki krapps og frosins sjávar. Hann er gáskafull eftirlíking af vatni, nema kyrrstæð og mjúk og varanleg.

Margir Íslendingar vilja ólmir hafa tré út um allt. En Ísland býr nú þegar yfir sínum trjám. Þau felast í hinu víðáttumikla útsýni. Útsýnið er tré Íslands. Því eitt það besta sem tré hafa til að bera er eiginleikinn til að tengja hluti saman; jörðina himninum, ljósið myrkrinu, vindinn í laufinu kyrrðinni sem umkringir það, hin smáu rými innan trésins stóra rýminu sem það byggir. Hér á Íslandi þjónar útsýnið sama hlutverki og miðlar algjörlega einstæðri tilfinningu fyrir eiginleikum staðarins. Veðrið á stóran þátt í því - þar sem það er í sambýli við hina hverfulu, síbreytilegu og iðandi líðandi stund. Útsýnið felur það fjarlæga og það nálæga í sér með jafn skýrum hætti. Það breiðir úr lögun hnattarins fyrir tilstilli víðáttu og gagnsæi, sem á sér fáar hliðstæður annarsstaðar. Það umvefur mann einveru er gerir mann meiri. Útsýnið setur mann í samhengi við heiminn.*

Óskipulögð trjárækt mun hylja uppbyggilegt afdráttarleysi landsins og eyðileggja fínlega og fjölbreytta og viðkvæma gróðurhuluna. Hún mun rjúfa kraft samhengisins, búta niður og binda enda á hið mikilvæga og gagnsæja sjónarsvið þessa heims. Hvar sem er annarsstaðar myndi ég mæla með aukinni nærveru trjáa af sömu ástæðu og ég legg áherslu á að takmarka nærveru þeirra hér. Á Íslandi er þeim hreinlega ofaukið.

Skógrækt er ekki einungis vafasöm leið til að berjast gegn veðrun, heldur er hún einnig smekklaus eftirlíking af náttúrunni. Skógrækt nær einungis að draga fram andstæðu skógarins. Allir sem hafa einhverntíma farið í gönguferð í skógi ræktuðum eftir stríð, vita þetta. Slík reynsla er langt frá því að vera af skógi, hún er líkari því sem maður upplifir á Manhattan. Hver er munurinn á skipulögðu rúðuneti trjáa og skipulögðu rúðuneti stræta? Upplifunin er í grundvallaratriðum sú sama. Rúðunet eru rúðunet. Eftirlíkingar af rúðunetum eru rúðunet og eftirlíkingar af lífrænu fyrirkomulagi eru sömuleiðis rúðunet. Þau einfalda flókna hluti fram úr hófi og umbreyta ástandi í uppgerð.

Þeir sem eru fylgjandi kerfisbundinni trjárækt eða notkun trjáa um allt land til að berjast gegn veðrun ættu að ferðast um eyjuna; um Sprengisand, Eldgjá, Laka, Veiðivötn, Barðaströnd, Öskju, eða um aðra staði sem ekki eru jafn framandi, svo sem Snæfellsnes og Eldhraun. Þeir ættu að horfast í augu við þá staðreynd að sú ríkulega flóra sem þegar er á þessum stöðum leggur sitt af mörkum í flóknu og viðkvæmu vistfræðilegu jafnvægi sem og í hinu einstaka íslenska yfirbragði. Og horfast einnig í augu við að þetta jafnvægi er samhangandi form sem stöðugt stækkar og tekur á sig nýja mynd. Það yfirbragð og þau lífsgæði sem því fylgja mynda kjarnann í íslenskri sjálfsmynd.

Löngunin til að framfylgja rómantískum hugmyndum um sveitasælu á Íslandi, til að færa Ísland inn í ramma hinnar mjúku, skipulögðu náttúru sem þegar hefur lagt Evrópu og Nýja-England undir sig, er byggð á misskilningi. Sveitasæla er ein hugmynd um stað, en sú hugmynd hefur aldrei átt við um Ísland. Löngunin til að umbreyta sjálfum sér yfir í annars mynd er brjóstumkennanleg og afar truflandi. Hugmynd um fegurð er felur það í sér að ryðja einstæðri upprunalegri fegurð úr vegi, er ein tegund afmyndunar á sjálfinu.

Sumir beita þeim rökum að á Íslandi hafi áður fyrr vaxið tré. Að það hvernig það lítur út núna sé hvort sem er ekki náttúrlegt eða upprunalegt. Enn aðrir halda því fram að landslagið muni breytast sama hvað gert er. En hvað um þá óviðjafnanlegu fegurð sem bíður og þróast fyrir utan gluggann manns? Og hvað með heilindi þessa landslags? Þá gjöf sem í því felst á þessum síðustu tímum 2002? Ferðist um heiminn og ykkur mun verða ljóst að ekkert af þessu umfangi er óskert, nokkurstaðar, lengur. Ísland er ekki góðlátlegt sýnishorn náttúru sem er að mestu er horfin. Ísland er ekki upphafinn skemmtigarður. Ísland er ekki yfirveguð túlkun á því villta.

Þar til nýlega hefði verið hægt að lýsa landinu sem hrjóstrugu og eyðilegu. Segja að þær takmarkanir hafi gert þá frumþörf að lifa af stærsta þáttinn í íslenskum lífsháttum. En það heyrir að mestu fortíðinni til og nú hafa Íslendingar tækifæri, kannski í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar, til að meta eyjuna og þá óvenjulegu tilvist sem hún býr yfir að verðleikum. Fyrir tilstilli vega og bíla og framfara á sviði samgangna, ferðast Íslendingar í fyrsta sinn mjög mikið. Nýfengin auðlegð hefur ennfremur aukið þann hreyfanleika til mikilla muna. Af þeim sökum er nauðsynlegt að viðurkenna að þessi auðlegð helst í hendur við mjög óvenjulega staðreynd: þá að ósnertanleiki íslensks landlags er enn að mestu til staðar. Almennt aðgengi, með þeirri innrás og þeim skaðandi áhrifum sem fylgja í kjölfarið gerir umhverfið viðkvæmara og eykur varnarleysi landslagsins. Þar af leiðandi er það á ábyrgð hvers einasta Íslendings að vernda og viðhalda þessu upprunalega og, enn sem komið er, nánast ósnortna landi.

Það að Íslendingar skuli ekki veita heildinni sem þar er til staðar athygli og kunna að meta hana - ekki einungis eins og hún birtist í sjálfri sér, heldur miklu fremur í samhengi við heim samtímans, stefnir í að verða harmleikur. Á Íslandi er til þekking til að breyta öðruvísi. Sem útlendingur fylgist ég með því hvernig sá harmleikur sem felst í því að gefa þessu ekki gaum snýst, með sívaxandi þunga, yfir í annarskonar harmleik; limlestingu á sjálfum sér.

Vegið er að íslensku landslagi úr öllum áttum: Stífla hér, vegur þar, flákar af skógi í beinum línum annarsstaðar. Með hverri og einni þessara nýju breytinga færist Ísland einu skrefi lengra frá sínu einstaka sjálfi. Sem áhorfandi að þessu stríði við fegurðina, rennur það upp fyrir mér að hin illræmda íslenska veðrátta var í rauninni dulbúin blessun - sem verndaði Ísland fyrir Íslendingum í öll þessi ár.

*Sjá: Þetta ekkert sem er, Morgunblaðið,

6. september, 1998.

Eftir Roni Horn

Höfundur er myndlistarmaður.