SIGRÍÐUR Gyða Sigurðardóttir myndlistarkona andaðist á Landspítala - háskólasjúkrahúsi við Hringbraut að kvöldi föstudagsins 29. nóvember, 67 ára að aldri. Sigríður Gyða fæddist í Reykjavík hinn 13. desember 1934.

SIGRÍÐUR Gyða Sigurðardóttir myndlistarkona andaðist á Landspítala - háskólasjúkrahúsi við Hringbraut að kvöldi föstudagsins 29. nóvember, 67 ára að aldri.

Sigríður Gyða fæddist í Reykjavík hinn 13. desember 1934. Hún var dóttir hjónanna Sigurðar Sigurðssonar kaupmanns og Þóreyjar Þorsteinsdóttur, kaupkonu í Þorsteinsbúð við Snorrabraut.

Sigríður Gyða giftist hinn 4. ágúst 1957 eftirlifandi eiginmanni sínum, Sigurgeiri Sigurðssyni, fyrrverandi bæjarstjóra á Seltjarnarnesi. Eignuðust þau þrjú börn, Margréti, Sigurð Inga og Þór auk þess sem þau eignuðust sex barnabörn.

Sigríður Gyða starfaði sem flugfreyja hjá Loftleiðum á árunum 1953-1956.

Hún var þekkt myndlistarkona, meðal annars fyrir Reykjavíkurmyndir sínar og fyrir jólakort Svalanna, félags fyrrverandi flugfreyja, en þau hannaði hún um árabil.

Sigríður Gyða stundaði nám í Handíða- og myndlistarskóla Íslands 1961-1962, í Myndlistarskólanum í Reykjavík 1971-1978 og í Famous Artist's Scool í Bandaríkjunum 1969-1971. Hún hélt einkasýningar á árunum 1980-1999, m.a. á Kjarvalsstöðum árið 1988, auk þess sem hún tók þátt í fjölmörgum samsýningum á árunum 1971-1997.

Sigríður Gyða var meðal stofnenda Myndlistarklúbbs Seltjarnarness og Leikfélags Seltjarnarness. Einnig sat hún í stjórn Lista- og menningarsjóðs Seltjarnarness um árabil.