Óæskilegi vonbiðillinn lendir í hremmingum í meðförum leikhópsins frá Samara.
Óæskilegi vonbiðillinn lendir í hremmingum í meðförum leikhópsins frá Samara.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikfélagið Hugleikur sýndi gamanhrollvekjuóperuna Bíbi og blakan á alþjóðlegri leiklistarhátíð í Rússlandi í septemberlok við frábærar móttökur. Silja Björk Huldudóttir fylgdist með fjölbreyttum sýningum hátíðarinnar þar sem meðal annars mátti sjá hausa fjúka.

GÖMLUM og nýjum leikhúshefðum var teflt saman á alþjóðlegri leiklistarhátíð sem haldin var í Gatsjína í september. Hátíðin er sú þriðja á sex árum sem Menningarráð Leníngradhéraðs stendur fyrir í þessum bæ og í ár bar hún yfirskriftina Framúrstefnuleikhús og hefðirnar. Að sögn varð bærinn fyrir valinu til að hýsa hátíðina þar sem hann þykir gefa raunsæja mynd af lífi og aðbúnaði Rússa, auk þess sem í bænum er talsvert menningarlíf. Á hátíðinni mátti sjá átta leiksýningar víðs vegar frá Rússlandi auk sýninga frá Þýskalandi og Íslandi. Daglega fóru fram umræðufundir með gagnrýnendum sem að þessu sinni voru Vidas Siljunas, prófessor við Háskólann í Moskvu, og Mikael Kúmatsjenko, mikilsvirtur leikstjóri þeirra Rússa. Auðheyrt var að þeir gerðu miklar listrænar kröfur og þóttu á köflum býsna óvægnir í umsögnum sínum.

Shakespeare alltaf vinsæll

Opnunarsýningin var í höndum leikhóps frá Gatsjína sem kallar sig Za Uglom og fluttu þau okkur nýstárlega leikgerð á Þrettándakvöldi Shakespeares fyrir þrjá leikara. Leikstjórinn hafði fengið þá hugmynd að sniðugt væri að láta leikarana fara reglulega í trúðsgervi og sprella, en því miður var trúðahugmyndin ekki nógu vel útfærð og í engum tengslum við aðra hluta sýningarinnar. Greinilegt var þó að leikararnir voru vel þjálfaðir og áttu á köflum frábæra spretti. Frá bænum Novgorod kom önnur Shakespearesýning, Draumur á Jónsmessunótt. Uppfærslan var mjög litrík og mikil vinna hafði augljóslega verið lögð í leikmynd og búninga en að sama skapi ekki lögð næg áhersla á vinnu leikarans. Líkt og oftast vill verða þegar Draumurinn er settur upp stálu handverksmennirnir senunni í flutningi sínum á Píramus og Þispu undir lok leikritsins.

Yfirhöfn Gogols og þjóðsögur frá Síberíu

Segja má að þrjár rússneskar sýningar hafi staðið upp úr á hátíðinni. Má þar fyrst nefna leikgerð á sögu um yfirhöfn eftir Gogol í flutningi Liceum frá bænum Saretsjní. Sýningin var afar stílhrein bæði í leik og útliti. Fimm konur í hvítum brúðarkjólum skiptu með sér sögumannshlutverkinu og brugðu sér jafnframt í ýmis hlutverk á móti aðalhetjunni sem tjáði sig einvörðungu í þöglum leik. Sagan er fremur einföld um fátækan mann sem leggur allt í sölurnar til að reyna að útvega sér nýja yfirhöfn eftir að þeirri gömlu hefur verið stolið frá honum. Túlkun hópsins á hinum andlitslausu íbúum Pétursborgar var afar hugvitsamleg og áhrifarík. Frá Kemerovo í Síberíu kom sýningin Land Dvínu byggð á þjóðsögum sem Boris Sjergin hefur safnað og fært í búning. Hópurinn samanstóð af þremur leikurum sem skiptust á að segja sögurnar og réð einfaldleikinn ríkjum. Sýningin var sannkallað frásagnarleikhús og gerðu leikararnir enga tilraun til að túlka frásagnir sínar með látbragði. Hér sannaðist hvað sterk sviðsnærvera er mikilvæg því þrátt fyrir að við útlendingarnir skildum ekki orð af því sem fram fór hélt sýningin okkur föngnum og við skynjuðum sterkt hvað hér var magnaður texti á ferð.

Magnaður Molière

Loks verður að minnast á uppfærslu leikhóps frá Samara sem flutti 17. aldar gamanleikritið Monsieur de Pursognac eftir Molière. Í verkinu segir frá leikhússtjóra nokkrum sem ákveður að grípa inn í raunveruleikann með hjálp leikhóps síns. Hann liðsinnir ungum elskendum sem ekki mega eigast og auðvitað fer allt vel að lokum. Hér var á ferð ótrúlega fær leikhópur sem hafði fullkomið vald á gamanleikstílnum sem verkið krafðist. Skemmtilegust var þó senan þegar óæskilegi vonbiðill ungu stúlkunnar kemur til Parísar í erindagjörðum sínum og leikhópnum tekst að sannfæra hann um að allir borgarbúar séu galnir. Í þeirri senu fengu hausar jafnt sem aðrir útlimir að fjúka við mikla kátínu leikhúsgesta.

Vampýrur vöktu lukku

Framlag Hugleiks var gamanhrollvekjuóperan Bíbí og blakan sem fjallar m.a. um vampýrur, ástir og kynþáttafordóma. Fyrir tveimur árum þegar Hugleikur sýndi verkið á alþjóðlegri leiklistarhátíð í Trakai í Litháen kom Alla Zorina, framkvæmdastjóri rússneska áhugaleikhússambandsins, að máli við hópinn að sýningu lokinni og bauð honum til Rússlands á einhverja af þeim 10-15 alþjóðlegu leiklistarhátíðum sem þar eru haldnar árlega, þar sem hún vildi gefa Rússum tækifæri til að sjá þessa sérstöku sýningu sem vinnur markvisst með óperuhefðina á gamansaman hátt. Sýningin fékk frábærar móttökur í Gatsjína og virtust áhorfendur skilja allt sem fram fór þrátt fyrir að leikið væri á íslensku. Í uppklappinu að sýningu lokinni risu leikhúsgestir úr sætum sínum og heyra mátti bravóhróp. Í umræðum sem fram fóru um sýninguna daginn eftir var haft á orði að í íslensku sýningunni hefði tekist að vinna á skapandi hátt með gamlar klisjur og Mikael Kúmatsjenko, annar aðalgagnrýnandi hátíðarinnar, hrósaði hópnum fyrir hve vel hefði tekist að samþætta leik og söng. Til gamans má geta þess að hópurinn hefur þegar fengið þrjú ný heimboð til Rússlands til að sýna óperuna auk þess sem Norbert Radermacher, formaður þýska áhugaleikhússambandsins, hefur óskað eftir að fá sýninguna á alþjóðlega leiklistarhátíð í Weimar á vori komandi.

Höfundur er bókmenntafræðingur.