Madonna semur ekki aðeins og syngur titillagið í Die Another Day heldur fær hún að sýna sig: Hér er hún milli vonda karlsins Toby Stephens og hetjunnar James Bond.
Madonna semur ekki aðeins og syngur titillagið í Die Another Day heldur fær hún að sýna sig: Hér er hún milli vonda karlsins Toby Stephens og hetjunnar James Bond.
"I GUESS I'll die another day," syngur Madonna í dálítið málmkenndu og ódæmigerðu Bondlagi sínu fyrir nýju myndina.

"I GUESS I'll die another day," syngur Madonna í dálítið málmkenndu og ódæmigerðu Bondlagi sínu fyrir nýju myndina.

Staðreyndin er sú að stíllinn og stemmningin í Bond-myndunum helgast mjög af tónlist þeirra, umfram allt hinu sígilda gítarstefi Montys Norman í útsetningu Johns Barry (dangdaradangdang-dangdangdangdangdaradangdang...) sem boðað hefur komu njósnarans frá upphafi og er undirstaðan í hljóðrás allra myndanna síðan.

En sjálft titillag hverrar nýrrar Bondmyndar er ekki síður mikilvægt, ekki aðeins til að slá réttan tón fyrir hana, heldur umfram allt sem eitt helsta vopnið í markaðssetningu hennar. Enginn annar kvikmyndabálkur nýtur þess í kynningunni að það veki sérstaka eftirvæntingu og eftirtekt hver sé flytjandi titillagsins og þyki þar fyrir utan eftirsóknarverður heiður fyrir viðkomandi flytjanda.

Hefðin og nýsköpunin

Bond-lögin eru hins vegar misjafnlega vel heppnuð og eftirminnileg. Flutningur Tinu Turner á GoldenEye fann til dæmis hárréttan tón fyrir frumraun Pierce Brosnan í aðalhlutverkinu; lagið hafði yfir sér sígildan klassa gömlu hefðarinnar með kraftmikilli nýrri innspýtingu. Þegar tónskáldið John Barry skapaði þá hefð á 7. áratugnum tók hann lítið mið af þeirri tónlist sem þá var að rísa upp til heimsyfirráða og kennd er við bítla og hippa. Barry smíðaði skrautlegar og ofursvalar melódramatískar ballöður í glæsilegum útsetningum, þar sem íburðarmiklir strengir og blásturshljóðfæri og dálítið ýktur söngur réðu ferð. Lögin töfruðu fram viðsjárverðan glysheim með glansáferð, einhvers staðar mitt á milli suður-evrópskra spilavíta, skemmtistaða í Las Vegas, sendiráðsveislna og vígvalla alþjóðastjórnmála, þar sem fagrar konur seiða til sín vörpulega karlhetju eða, og kannski frekar, öfugt, en undirliggjandi er þó ógn og spenna og lífsháski. Um slíkt var reyndar yfirleitt sungið í moðsoðnum textum Dons Black, stundum undir þykku lagi af kyndugu líkingamáli, samanber t.d. Diamonds Are Forever: "Hold one up and then caress it, touch it, stroke it and undress it."

Þetta lag í mögnuðum flutningi Shirley Bassey er annars í flokki þeirra bestu, ásamt Goldfinger, sem hún söng einnig. Bassey hefur sungið alls þrjú Bondlög; það þriðja er Moonraker. Í þessum stíl er t.d. líka Thunderball sem Tom Jones söng og Nancy Sinatra gerði You Only Live Twice merkilega seiðandi skil. Í öðrum dúr og mýkri var t.d. From Russia With Love, sem Barry samdi ekki heldur Lionel Bart og Matt Monro flutti, og ekki síður söngur Louis Armstrong á hinu ljúfa og gullfallega We Have All the Time In the World í In Her Majesty's Secret Service.

Þegar kom fram á 8. áratuginn og hinn galgopalegi Roger Moore tók við Bond-keflinu fóru framleiðendur að ókyrrast og fannst þeir verða að fylgjast með tímanum. Þá fóru þeir að ráða frægar poppstjörnur til að semja og/eða flytja titillögin. Sumt af því tókst ljómandi vel, eins og lag Pauls McCartney fyrir Live and Let Die, Nobody Does It Better með Carly Simon fyrir The Spy Who Loved Me, For Your Eyes Only með Sheena Easton og A View to a Kill, sem Duran Duran gerði prýðileg skil. En varla eru margir sem muna eftir flutningi A-Ha sveitarinnar norsku á The Living Daylights eða All Time High með Rita Coolidge í Octopussy. Þessi stefna er enn við lýði: Shirley Manson í hljómsveitinni Garbage söng titillagið í The World is Not Enough og nú er komið að Madonnu.

Kvikmyndatónlistin í Bond-myndunum er nú í höndum ungs tónskálds, Davids Arnold, sem sækir blygðunarlaust í smiðju Johns Barry og þarf svosem ekkert að skammast sín fyrir það.

Bond er í lagi ef hann er í laginu.